Í bæjarfréttum er þetta helst…

Fréttir

Bæjarstjóri hefur ákveðið að hafa það sem fastan lið að setja saman nokkur orð um mánaðarmót og segja frá áhugaverðum verkefnum sem í gangi eru innan sveitarfélagsins og upp og ofan af áskorunum, hugmyndum, heimsóknum og fundum mánaðarins. Af mörgu er að taka en með þessu vill bæjarstjóri upplýsa bæjarbúa og aðra hagsmunaaðila betur um gang mála og fyrirætlanir innan sveitarfélagsins.

Orð frá bæjarstjóra eftir mánaðarmót

Ég hef ákveðið að hafa það sem fastan lið að setja saman nokkur orð um mánaðamót til að segja frá áhugaverðum verkefnum sem í gangi eru innan sveitarfélagsins og upp og ofan af áskorunum, hugmyndum, heimsóknum og fundum mánaðarins. Af mörgu er að taka en með þessu vil ég upplýsa bæjarbúa og aðra hagsmunaaðila betur um gang mála og fyrirætlanir innan sveitarfélagsins.

Sumarið nálgast og hjá okkur hjá Hafnarfjarðarbæ hefst það ekki einvörðungu með hækkandi sól og komu Lóunnar heldur líka með vorboðunum okkar sem samanstanda af vorhreinsun, sópun og þvotti gatna, göngustíga og umferðareyja auk auglýsinga á sumarstörfum fyrir 17 ára og eldri. Þessi hópur starfsmanna er okkur gríðarlega mikilvægur ár hvert og verkefni hans mörg og krefjandi yfir sumartímann. Þessi hópur sér, í samstarfi við íbúa og fyrirtæki, um hreinsun bæjarins, sláttur, frístundastarf, safnavörslu og fleira og spilar þannig mikilvægt hlutverk í því að halda bænum hreinum og fínum, taka á móti erlendum og innlendum ferðamönnum ásamt því að sinna börnunum okkar með leik og þjálfun. Nú í ár leggjum við mikinn metnað í það að ná bænum hreinum og fínum fyrr og höfum við þegar hafið vorsópun í hverfum Hafnarfjarðar samkvæmt ákveðnu fyrirkomulagi. Í lok apríl munum við síðan sækja garðaúrgang heim að lóðarmörkum á ákveðnum dagsetningum sem verða kynntar sérstaklega á heimasíðu okkar, Facebooksíðu, íbúasíðum og með tilkynningum á hvert heimili. Sú breyting verður á þetta vorið að verktakar munu aðstoða okkur við upphafssláttur og hreinsun gagngert til að taka enn betur á móti sumri með hreinum og fögrum bæ. Starfsmenn bæjarins og sumarstarfsmenn munu svo halda hreinsun og slætti við eftirleiðis í sumar. Við biðlum því sem fyrr til íbúa að taka virkan þátt í þessari hreinsun með okkur því þannig nást heildaráhrifin og upplifun um hreinan bæ. Þessi framkvæmd er eitt stórt samstarfsverkefni! Marsmánuður var lifandi og skemmtilegur en á sama tíma mjög annasamur. Rétt eins og við viljum hafa þetta, líf og fjör í Firðinum okkar. Á þriðjudögum tek ég á móti íbúum og forsvarsmönnum fyrirtækja í Hafnarfirði í opnum viðtalstímum og eru þeir yfirleitt vel nýttir. Efni funda er fjölbreytt og eftir hvern fund stækkar sýn mín á hafnfirskt samfélag og tilfinning fyrir fjölbreytileikanum og ekki síst fyrir tækifærunum og þeim mikla áhuga sem ríkir um sveitarfélagið þessa dagana. Ásókn í atvinnulóðir hefur aukist til muna og má þar meðal annars þakka væntanlegri komu nýrra mislægra gatnamóta inn í Vallahverfi og Hellnahraun og gríðarlegri uppbyggingu sem er að eiga sér stað í þessu hverfi Hafnarfjarðarbæjar. Framkvæmdir við fjölbýlishús í Skarðshlíð og nýjan skóla í Skarðshlíð fara vonandi af stað fljótlega og lóðir fyrir einbýlis-, par- og ráðhús eru við það að fara í auglýsingu. Samtal er að eiga sér stað við lóðareigendur og fyrirtækjaeigendur á vestur hluta Hrauna með þéttingu og eflingu svæðisins í huga. Þetta og margt annað er í farvatninu. Samhliða erum við hjá Hafnarfjarðarbæ að leggja enn meiri áherslu á heilsueflingu og kynntum nýlega til sögunnar heilsustefnu fyrir Hafnarfjarðarbæ sem hefur í forgrunni að hlúa að almennri vellíðan íbúa, andlegri og líkamlegri, á öllum aldri og styrkja og efla sjálfsmynd og góða líðan. Heilsustefnan styður við þá sýn Hafnarfjarðarbæjar til framtíðar að auka vellíðan íbúa bæjarins með fyrirbyggjandi aðgerðum.Framundan er menningarhátíðin Bjartir dagar í Hafnarfirði og mun næsti mánaðarlegi pistill hjá mér án efa litast mikið af þessari flottu þátttökuhátíð Hafnfirðinga sem er jú fyrsta sumarhátíð landsins ár hvert. Á Björtum dögum syngjum við inn sumarið og njótum þess sem Fjörðurinn fagri hefur upp á að bjóða. Ég hvet alla til að taka þátt í Björtum dögum í ár og nota tækifærið og bjóða gestum HEIM í Hafnarfjörðinn. Það ættu allir að geta fundið eitthvað við sitt hæfi! Áfram við öll! Páskakveðjur til ykkar! Meðfylgjandi er yfirlit yfir fréttir í mars og er markmið mitt að setja saman svona yfirlit í lok hvers mánaðar okkur öllum til upplýsinga:

  • Fimmtán mánaða innritunaraldur – Hafnarfjarðarbær hefur undanfarin ár unnið jafnt og þétt að lækkun innritunaraldurs á leikskóla svo börn hefji leikskóladvöl árið sem þau verða 18 mánaða. Frá og með hausti 2017 verður börnum sem eru fædd frá janúar til og með maí 2016 boðið að hefja dvöl í leikskóla og verða því yngstu börnin 14 og 15 mánaða þegar þau byrja á leikskóla. Með þessu hefur Hafnarfjarðarbær aukið verulega þjónustustigið við barnafjölskyldur.
  • Teboð fyrir bæjarstjórn – Ungmennaráð Hafnarfjarðar hélt teboð fyrir bæjarstjóra og bæjarstjórn þar sem viðraðar voru þær tillögur um skóla, forvarnir og skipulag/umhverfi sem komu fram á Ungmennaþingi 2017 ásamt því að ræða um stöðu ungs fólks í Hafnarfirði. Markmið með teboði er að fá betri tilfinningu fyrir hugmyndunum áður en þær verða formlega lagðar fyrir bæjarstjórn í júní. og í framhaldinu fjölbreytt ráð Hafnarfjarðarbæjar. Formleg kynning á tillögur og hugmyndum fer fram í Hafnarborg í byrjun júní.
  • Jafnræði og gegnsæi í starfi hafnfirskra íþróttafélaga – rekstrar- og þjónustusamningar hafa verið gerðir við tólf íþróttafélög í Hafnarfirði. Að auka við stuðning til íþróttafélaga og gefa þeim tækifæri til að bera aukna ábyrgð á rekstri mannvirkja mun vonandi auka við gæði innra starfs félaganna.
  • Tilboð í byggingu hjúkrunarheimilis við Sólvang – fjögur tilboð bárust í byggingu hjúkrunarheimilis við Sólvang í Hafnarfirði. Verkefnið innifelur uppsteypu hússins ásamt fullnaðarfrágangi að utan sem innan svo og lóðarframkvæmd. Verklok eru 31. ágúst 2018.
  • Stolt starfsfólk og vaxandi starfsánægja – um árabil hefur Hafnarfjarðarbær, í samstarfi við þriðja aðila, kannað ánægju og viðhorf starfsmanna til m.a. starfsumhverfis, samskipta og stjórnunarhátta og hafa niðurstöður verið nýttar til betrumbóta og umbóta. Niðurstöður nýjustu vinnustaðagreiningarinnar eru heilt yfir ánægjulegar fyrir Hafnarfjarðarbæ.
  • Ætlum að útrýma óútskýrðum launamun – Hafnarfjarðarbær hefur verið þátttakandi í tilraunaverkefni fjármála- og velferðarráðuneytis um innleiðingu jafnlaunastaðals síðan 2013. Markmiðið er að eyða óútskýrðum launamun og uppfylla lagaskyldu atvinnurekenda um að greiða konum og körlum jöfn laun og tryggja að þau njóti sömu kjara fyrir sömu eða jafn verðmæt störf.
  • Framkvæmdir hefjast við ný mislæg gatnamót – fulltrúar Hafnarfjarðarbæjar, Vegagerðarinnar og verktaka að baki byggingar á nýjum mislægum gatnamótum Reykjanesbrautar og Krýsuvíkurvegar tóku formlega fyrstu skóflustunguna að framkvæmdunum. Framkvæmdir hefjast strax enda á verkið að vinnast á skömmum tíma og vera lokið 1. nóvember næstkomandi.
  • Heilsuleikar marka upphaf heilsueflingar í Hafnarfirði – um 250 Hafnfirðingar á öllum aldri sameinuðust í leik og gleði á heilsuleikum sem efnt var til í dag í frjálsíþróttahúsi FH í Kaplakrika. Tilefnið var að ýta úr vör með formlegum og óhefðbundnum hætti heilsueflandi aðgerðum og eflingu hjá bænum en nýlega var samþykkt heilsustefna fyrir Hafnarfjörð og munu næstu dagar, vikur og mánuðir fara í framkvæmd aðgerða sem allar miða að því að efla vellíðan íbúa, efla opin svæði og jafna aðgengi og hvetja íbúa til að neyta hollrar fæðu heilt yfir.
  • Vilt þú slást í hópinn næsta skólaár? Við viljum bæta við okkur frábæru samstarfsfólki og auglýsum fjölbreytt störf í boði fyrir fólk á öllum aldri með margvíslega menntun og reynslu í grunnskólum Hafnarfjarðar skólaárið 2017-2018. Upplýsingar um laus störf eru á radningar.hafnarfjordur.is.
  • Börn hjálpa börnum – nemendur úr 5. bekk Áslandsskóla taka þátt í söfnuninni BÖRN HJÁLPA BÖRNUM 2017, árlegu söfnunarátaki ABC barnahjálpar í samstarfi við grunnskóla landsins. Forseti Íslands, Hr Guðni Th. Jóhannesson, setti söfnunina formlega af stað í skólanum. Verkefnið tengist með beinum hætti hornstoðum Áslandsskóla og er til þess fallið að efla skilning og virðingu fyrir alheimssamfélaginu.
  • Viðurkenningar fyrir vandaðan upplestur og framsögn – lokahátíð Stóru upplestrarkeppninnar í Hafnarfirði fór fram í Hafnarborg þar sem fulltrúar úr 7. bekkjum grunnskóla Hafnarfjarðar stigu á svið með vandaðan upplestur og framsögn. Hópurinn í heild hlaut viðurkenningu fyrir frammistöðu sína auk þess sem þeir þrír hlutskörpustu voru verðlaunaðir sérstaklega. Stóra upplestrarkeppnin er orðinn mikilvægur hluti af skóla- og foreldrasamfélagi um land allt en hátíðin á uppruna sinn í Hafnarfirði.
  • Ljósleiðaravæðing um allan bæ – mikið hefur verið um framkvæmdir við ljósleiðaravæðingu Mílu og Gagnaveitunnar í Hafnarfirði síðustu daga og vikur. Fyrirtækin hafa fengið leyfi til framkvæmda víðsvegar um bæinn og eiga framkvæmdir að vera auglýstar sérstaklega af fyrirtækjunum í hverfunum sem um ræðir. Gatnalokanir eru tilkynntar sérstaklega ef einhverjar verðar. Verksvæði þessara verkefna er stórt og framkvæmdatími yfirleitt langur.
Ábendingagátt