Í bæjarfréttum er þetta helst…

Fréttir

Bæjarstjóri hefur ákveðið að hafa það sem fastan lið að setja saman nokkur orð um mánaðarmót og segja frá áhugaverðum verkefnum sem í gangi eru innan sveitarfélagsins og upp og ofan af áskorunum, hugmyndum, heimsóknum og fundum mánaðarins. Af mörgu er að taka en með þessu vill bæjarstjóri upplýsa bæjarbúa og aðra hagsmunaaðila betur um gang mála og fyrirætlanir innan sveitarfélagsins.

Orð frá bæjarstjóra eftir mánaðarmót

Ég hef ákveðið að hafa það sem fastan lið að setja saman nokkur orð um mánaðamót til að segja frá áhugaverðum verkefnum sem í gangi eru innan sveitarfélagsins og upp og ofan af áskorunum, hugmyndum, heimsóknum og fundum mánaðarins. Af mörgu er að taka en með þessu vil ég upplýsa bæjarbúa og aðra hagsmunaaðila betur um gang mála og fyrirætlanir innan sveitarfélagsins.  

Nú verðum við að gefa okkur að sumarið sé komið eða allavega við það að bresta á. Það er orðið bjart og fallegt úti þrátt fyrir að hitinn sé eitthvað að láta bíða eftir sér. Við hjá Hafnarfjarðarbæ fórum af stað í vorverkin tiltölulega snemma þetta árið og hófum sópun gatna og göngustíga rétt fyrir miðjan apríl. Í upphafi maí sóttum við svo garðúrgang heim til íbúa auk þess að hvetja fyrirtæki til að nýta sér gáma til losunar sem settir voru upp á þremur stöðum í bænum. Það er ánægjulegt að sjá hversu vel íbúar og fyrirtæki tóku við sér og tóku fullan þátt í hreinsun á nærumhverfinu. Sérstaklega ánægjulegt er að sjá hverfafélögin taka sig saman og skipuleggja hreinsunardag innan síns hverfis með það fyrir augum að hreinsa og fegra umhverfið, vekja fleiri til umhugsunar um mikilvægi þess að ganga vel um og ekki síst til að efla tenginguna og andann í hverfinu. Slík tenging og samvinna gerir hvert hverfi bæði sterkara og ríkara í svo mörgu tilliti.
Það er viðburðaríkur mánuður að baki hjá Hafnarfjarðarbæ, uppfullur af menningu, listum og uppskeruhátíðum innan skóla og stofnanna í bland við hreyfingu og aðra skemmtun. Við heilsuðum sumri og kvöddum vetur á Björtum dögum sem haldnir voru dagana 19. – 23.apríl. Þessa daga voru í boði fjölbreyttir viðburðir og skemmtun víða um bæinn; HEIMA hátíðin – tónlistarhátíðin sem haldin er í heimahúsum í Hafnarfirði, leikskólalist, sýningar í söfnum bæjarins, opið hús hjá listamönnum, afhending menningarstyrkja, stórtónleikar í Íþróttahúsinu, víðavangshlaup og skemmtidagskrá á Víðistaðatúni og þannig mætti lengi telja. Bæjarlistamaður Hafnarfjarðar var útnefndur að nýju eftir nokkurt hlé á útnefningunni og var það mat menningar- og ferðamálanefndar að Steingrímur Eyfjörð myndlistarmaður hlyti titilinn í ár. Einstaklega ánægjulegt að sjá þetta verkefni fara af stað aftur í lista- og menningarbænum Hafnarfirði. Við fengum allar útgáfur af veðri í sumargjöf en létum það ekki á okkur fá og fjölmenntum á viðburðina. Menningardagar í grunnskólunum Hafnarfjarðar bera mismunandi nöfn og hafa mismunandi áherslur en eiga það sammerkt að vera uppskeruhátíð skapandi vinnu og skemmtunar innan skólanna. Þessa daga skín gleðin úr hverju andliti, hvort sem er nemenda eða kennara og svo foreldra sem fylgjast stoltir með. Það er óhætt að segja að skólastarfið í Hafnarfirði, á öllum skólastigum, sé í senn lærdómsríkt, hvetjandi og skapandi og kennarar og skólastjórnendur óhræddir við að fara óhefðbundnar leiðir í sínu starfi. Frá því að Hafnarfjarðarbær tók upp nýjan innri samskiptamiðil sem byggir á eiginleikum Facebook þá hefur sýnileiki starfsins orðið miklu meira og upplifunin sú að Hafnarfjarðarbær sé sannarlega einn vinnustaður með hátt í 1.800 starfsmenn á rúmlega 70 starfsstöðvum sem sinna mjög fjölbreyttum verkefnum. Daglega birta starfsmenn myndir úr starfi sínu og frá starfseminni og hjálpa þannig til við að skapa þá fyrirtækjamenningu og samkennd sem við viljum líka ná og finna hjá stórum vinnustöðum. 
Niðurstöður ársreiknings Hafnarfjarðarbæjar voru gerðar opinberar 11. apríl síðastliðinn þegar reikningur var lagður fyrir til kynningar í bæjarráði. Algjör viðsnúningur hefur orðið í rekstri Hafnarfjarðarbæjar og við loksins komin undir 150% skuldaviðmiðið og þar með laus undan eftirlitsnefnd með fjármálum sveitarfélaganna. Rekstrarniðurstaða sveitarfélagsins er jákvæð um 538 milljónir króna á meðan ársreikningur 2015 sýndi neikvæða rekstrarniðurstöðu um 512 milljónir og eigum við öll skilið klapp á bakið fyrir góðan árangur, starfsmenn Hafnarfjarðarbæjar og þeir sem í samfélaginu búa og starfa. Bættar efnahagsaðstæður hafa að sjálfsögðu nokkur áhrif á niðurstöður síðasta árs en ekki síður breytt forgangsröðun verkefna og hagræðing í kjölfar rekstrarrýni á árinu 2015. Það tekur tíma fyrir aðgerðir að skila árangri og nú erum við að uppskera. Við þurfum að halda vel á spilunum áfram og kortleggja og forgangsraða aðgerðum og framkvæmdum í takt við þarfir. Óvissuþátturinn hér eru auknar lífeyrisskuldbindingar sem til stendur að leggja á sveitarfélög landsins og mun aðgerðin hafa mikil áhrif á reksturinn og þær framkvæmdir sem mögulegt verður að fara í.   
Ég læt þetta duga í bili og sendi ykkur öllum hlýjar sumarkveðjur!   
Meðfylgjandi er yfirlit yfir fréttir í apríl og er markmið mitt að setja saman svona yfirlit í lok hvers mánaðar okkur öllum til upplýsinga: 

  • Þjónandi leiðsögn innleidd í starf með fötluðu og öldruðu fólki – nú hafa flestir starfsmenn, sem starfa á heimilum fatlaðs fólks, vinnustöðum, skammtímavistun þar sem fatlað fólk dvelur, og starfsmenn heimaþjónustu Hafnarfjarðarbæjar fengið fræðslu um þjónandi leiðsögn. Unnið er að innleiðingu hugmyndafræðinnar á öllum þessum starfsstöðvum
  • Vinadreki á Drekavöllum – risastór vinadreki liðaðist um Drekavelli í Hafnarfirði og samanstóð drekinn af hátt í 1200 nemendum, leikskólabörnum og starfsmönnum við Hraunvallaskóla. Vinadrekinn var lokahnykkur Hraunvallaleika, leika sem tengja saman nemendur á öllum aldri og hafa þann góða tilgang að efla samskipti og góðan skólaanda 
  • Leigir þú á almennum markaði? Íbúar á almennum leigumarkaði í Hafnarfirði gætu átt rétt á sérstökum húsnæðisstuðningi frá Hafnarfjarðarbæ. Kannaðu rétt þinn og sæktu um rafrænt á hafnarfjordur.is – MÍNAR SÍÐUR. Sótt er um húsnæðisbætur hjá Vinnumálastofnun á husbot.is þar sem réttur til sérstaks húsnæðisstuðnings er tengdur rétti á almennum húsnæðisbótum. Sérstakur húsnæðisstuðningur getur numið allt að 70% af almennum húsnæðisbótum 
  • Heilsuefling eldri borgara – fjölskylduráð Hafnarfjarðarbæjar fékk Janus Friðrik Guðlaugsson, íþrótta- og heilsufræðing, á fund sinn þar sem hann kynnti hugmyndir um fjölþætta heilsurækt og leiðir að farsælum efri árum. Með heilsueflingu er leitast við að efla heilbrigði með því að skapa fólki aðstæður og umhverfi sem gera einstaklingum og samfélaginu kleift að auka hreysti og efla vitund og vilja til að viðhalda heilbrigði 
  • Tímamót í fjármálum Hafnarfjarðarbæjar – skuldahlutfall Hafnarfjarðarbæjar hefur ekki verið lægra síðan 1992 og voru engin ný lán tekin á árinu 2016 þrátt fyrir fjárfestingar m.a. í nýjum leikskóla. Rekstrarniðurstaða sveitarfélagsins er jákvæð um 538 milljónir króna á meðan ársreikningur 2015 sýndi neikvæða rekstrarniðurstöðu um 512 milljónir króna. Breytt forgangsröðun og hagræðingar í kjölfar rekstrarrýni á árinu 2015 er að skila væntum árangri og um að ræða tímamót í rekstri Hafnarfjarðarbæjar 
  • Við bjóðum HEIM í Hafnarfjörð – við buðum HEIM í Hafnarfjörð á fyrstu bæjarhátíð sumarsins. Bjartir dagar stóðu yfir dagana 19.-23. apríl þar sem stofnanir bæjarins, félagasamtök, fyrirtæki og einstaklingar stóðu fyrir fjölbreyttum viðburðum 
  • Bæjarlistamaður Hafnarfjarðar 2017 – Steingrímur Eyfjörð myndlistarmaður hefur verið útnefndur bæjarlistamaður Hafnarfjarðar árið 2017. Menningar- og ferðamálanefnd Hafnarfjarðar kallaði eftir tilnefningum til bæjarlistamanns snemma árs og bárust fjölmargar tilnefningar. Mat nefndarinnar var að árið 2017 yrði myndlistarmaðurinn Steingrímur Eyfjörð bæjarlistamaður Hafnarfjarðar 
  • Styrkir sem auðga og dýpka listalíf Hafnarfjarðarbæjar – menningarstyrkir voru veittir við hátíðlega athöfn í Hafnarborg. Tuttugu og tvö verkefni hlutu styrk að þessu sinni; einstaklingar, menningarhópar eða samtök sem eiga öll það sammerkt að tengjast Hafnarfirði með einum eða öðrum hætti 
  • Nýtt grillhús á Víðistaðatúni – á Sumardaginn fyrsta, meðan á skiptust skin og lauflétt snjókoma, opnaði Hafnarfjarðarbær með formlegum hætti nýtt grillhús á Víðistaðatúni og sáu bæjarfulltrúar um að grilla pylsur handa gestum og gangandi að loknu Víðavangshlaupi sem fram fór á túninu í bítið fyrsta morgun sumars. Til stendur að halda áfram að gera Víðistaðatún enn skemmtilegra en nú er og snýr næsta verkefni að því að fjölga leiktækjum og bekkjum á svæðinu
Ábendingagátt