Í jóga á miðju Hvaleyrarvatni

Fréttir

Hvernig liði þér í jóga, fljótandi á uppblásnu sup-bretti á Hvaleyrarvatni? Já, það er í boði. NATUR býður fjögurra manna ferðir vikulega í samvinnu við heilsubæinn Hafnarfjörð í allt sumar.

Í núvitund á Hvaleyrarvatni

Hvernig liði þér í jóga,fljótandi á uppblásnu sup-bretti á Hvaleyrarvatni? Já, það er í boði. NATUR býður fjögurra manna ferðir vikulega í samvinnu við heilsubæinn Hafnarfjörð í allt sumar.

María Sif Guðmundsdóttir, jógakennari og eigandi Natur, segir slökunina einstaka um leið og hreyfingin sé kröftug. „Allar jógastöðurnar á brettinu eru krefjandi og vinnan verður dýpri á brettinu,“ segir hún.

María féll fyrir sup-brettum

María hefur síðustu ár verið á sup-brettum en byrjaði á kajak. „Ég kynntist brettunum fyrir tilviljun og féll alveg fyrir þeim. Það er auðvelt að ferðast með þau; hægt að fara hvert sem er. Frábær hreyfing en líka góð núvitund, vera úti á vatni eða sjó,“ segir hún og lýsir því hvernig hugmyndin hafi kviknað að gera jóga á brettunum

„Ég lærði jóga fyrir þremur árum og fór að skoða að setja þetta saman. Það kallaði eitthvað á mig að koma því í gang. Svo sá ég að fólk hafði gert þetta annars staðar í heiminum með góðum árangri, svo ég sló til.“

Róa út á vatnið og æfa standandi

Hún segir nú lítið vatnsmagn í Hvaleyrarvatni. „En við róum sitjandi og úti á miðju vatninu æfum við okkur í að standa á brettinu. Flestir gera það örugglega eftir tímann. Í jógaflæðinu förum við í gegnum allskonar stöðu. Hvert og eitt gerir sína stöðu eins og hentar best.“

Fólk elski upplifunina. „Já, ég hef fengið nokkra sem hafa komið aftur og aftur,“ segir hún. „Svo eru aðrir sem njóta þessarar upplifunar og prófa aðeins einu sinni. Fyrir utan hvað þetta er slakandi er þetta frábær æfing.“

Veðrið alltaf með í för

María skoðar veðurspána og finnur tíma með hverjum hópi. „Ég reyni að hafa tímana á morgnanna til að ná rólegasta tímanum á vatninu.“ Eftir tímann má hver þátttakandi búast við að vera kominn með grunnkunnáttu á brettinu. „Ég lofa góðri slökun.“

Og þetta er einfalt. „Það þarf aðeins að mæta með sólarvörn og vatnsflösku.“

Já, nú er að njóta lífsins og núsins!

  • Hvað kostar? 10.900 krónur, 90 mínútur og allt innifalið. Færð þurrgalla og bretti, kennslu á brettið.
  • Skráning í gegnum netfangið natur@natur.is.
  • Tímarnir eru auglýsir á Instagram og Facebook-síðum NATUR.

 

 

 

Ábendingagátt