Í sjóbað og sauna á nýársdag

Fréttir

Myndarlegur hópur mætti í kalda fjöruna við Langeyrarmalir og stakk sér í sjóinn á Nýársdag. Sjósbaðsstelpurnar Glaðari þú undirbjuggu og leiddu hópinn í sjóinn. Eftir sprettinn beið heitur saunaklefi Trefja eftir glöðum hópnum, allt í samstarfi við Heilsubæinn Hafnarfjörð.

Í sjóinn á ísköldum nýársdegi

„Þetta fór algjörlega fram úr væntingum og vatt upp á sig,“ segir Freyja Auðunsdóttir, markaðsstjóri Trefja um samstarfið við Heilsubæinn Hafnarfjörð um að setja saunaklefa við Langeyrarmalir yfir áramótin.

„Undirtektirnar voru frábærar,“ segir hún. Ekki aðeins hafi sjóbaðsstelpurnar í Glaðari þú dregið hópinn á flot á nýársdag heldur hafi Herjólfsgufan hreiðrað um sig í saunaklefanum við Langeyrarmalir.

„Forsvarsmenn hennar komu til liðs við okkur og voru með sautján sauna-athafnir á milli jóla og nýárs. Þær verða svo enn fleiri til 5. janúar. Það varð uppselt um leið, sem sýnir áhugann,“ segir Freyja.

Glaðari þú stýrði sjóbaðinu

Guðrún Tinna Thorlacius í Glaðari þú segir upplifunina hafa verið frábæra. „Þetta var æðislegt,“ segir hún. „Það var rosalega kalt og mikil áskorun fyrir marga. En svo var sjórinn svo mjúkur þegar við komum út í.“ Þær Guðrún Tinna og Margrét Leifsdóttir leiða marga hópa.

„Við sem stundum sjóinn í Nauthólsvík fundum að sjórinn er 1-2 gráðum heitari í Hafnarfirði. Við fundum muninn,“ segir hún og lýsir því hversu áhrifaríkt sé að stunda áfram kuldaþjálfunina þegar komið er upp úr sjónum. Tvær í hópnum þeirra hafi ekki gert þetta áður og viljað hlaupa í gufuna eftir sjóinn en staldrað við og klárað þjálfunina.

„Þær voru svo ánægðar og gleðihormónarnir fóru á fulla ferð inn í kerfið. Þetta var æðislegt. Vel gert Hafnarfjörður að stofna til þessa viðburðar og leiðsögn. Upplifunin verður sterkari og markvissari með leiðsögn,“ segir hún.

Glaðari þú voru einnig með á Hamingjudögum. „Þangað komu konur sem hafa stundað sjósund síðan og komu svo til okkar á nýárdag,“ segir Guðrún Tinna.

Í sund eftir sjósundið

Já, gleðin var við völd á nýársdag enda hugmyndafræði Glaðari þú sjóbaðsstelpnanna að stunda stutt og eflandi sjóböð með leikgleði og mildi að leiðarljósi. Freyja nefnir kuldann.

„Já, 10-12 stiga gaddur og gaman að sjá þolinmæðina,“ segir hún. „Fólk skiptist á að fara inn í saununa og stóð þar jafnvel upp á endann til að fá hlýju í kroppinn. Margir röltu svo yfir í Sundhöll Hafnarfjarðar,“ segir hún.

„Þarna fóru jákvæðar sálir inn í árið saman.“

Ábendingagátt