Íbúar hafa áhrif á umhverfis- og auðlindastefnuna

Fréttir

Við íbúar Hafnarfjarðar fáum tækifæri til að hafa áhrif á uppfærða umhverfis- og auðlindastefnu. Hægt er að koma með hugmyndir og athugasemdir til 27. janúar.

Unnið í átt að nýjum markmiðum

„Hafnarfjörður er bæjarfélag okkar allra og því mikilvægt að íbúar fái að leggja sitt af mörkum. Kannski liggja góðar hugmyndir hjá íbúum sem við ættum að koma í framkvæmd,“ segir Guðmundur Elíasson, umhverfis- og veitustjóri Hafnarfjarðarbæjar og einn höfunda uppfærðrar umhverfis- og auðlindastefnu bæjarins.

Gátt fyrir hugmyndir og athugasemdir hefur verið opnuð á vefnum Betri Hafnarfjörður. Íbúar eru hvattir til að segja sitt fyrir 27. janúar næstkomandi. Höfundar skýrslunnar eru Guðbjörg Oddný Jónasdóttir formaður, Helga Björg Loftsdóttir, Jón Atli Magnússon, Hildur Rós Guðbjargardóttir, Íris Lind Sæmundsdóttir, Ragna Halldórsdóttir og Guðmundur.

Markmið umhverfisstefnunnar er að tryggja öllum íbúum Hafnarfjarðarbæjar heilnæmt og öruggt umhverfi til lífs, leiks og starfs. Taka á tillit til hennar í allri starfsemi sveitarfélagsins.

„Breytingarnar skerpa á því hvar ábyrgðin á framkvæmd hennar hverju sinni liggur,“ segir hann. Uppfærð stefnan sé einnig komin í takt við stöðuna eins og hún er í sveitarfélaginu í dag.

„Þá er loftslagsstefnan nú orðin hluti af umhverfis- og auðlindastefnu. Það er stærsta breytingin frá fyrri stefnu,“ segir Guðmundur.

 

Meðal þess sem ávannst frá síðustu stefnu?
  • Bætt var í snjómokstur, götusópun og hálkuvarnir
  • Áhersla á almenningssamgöngur var aukin og göngu- og hjólreiðarstígum fjölgað
  • Hafnarfjarðabær kolefnisjafnar nú starfsemi sína í samvinnu við Kolvið
  • Stefnt var að því að ástand Hellisgerðis yrði til fyrirmyndar á 100 ára afmæli almenningsarðsins sem gekk eftir
  • Rafhleðslubúnaður við stofnanir bæjarins var settur upp og stuðlað að fjölgun rafhleðslustöðva í bæjarfélaginu

Guðmundur bendir á að í uppfærðri stefnu megi finna aðgerðarlista í yfir þrjátíu liðum neðst í skjalinu, skipt á svið „Það auðveldar sviðstjórum þeirra verkefna sem falla undir þá að fylgja þeim eftir.“

Hann segir nauðsynlegt að uppfæra stefnur reglulega. „Þetta verða að vera lifandi plögg, endurskoðuð.“

Væntingar eru um að stefnan flýti aðgerðum sem ráðast þurfi í. „Ég sé fyrir mér að 2-3 á ári verði stefnan yfirfarin á sviðstjórafundum og þar upplýst hvar mál standa og hvernig sviðstjórum hefur tekist að fylgja eftir að verkefni komist í framkvæmd.“

Við gerð umhverfis- og auðlindastefnunnar var horft til heildarstefnu Hafnarfjarðarbæjar sem samþykkt var 6. apríl 2022 og Heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna.

 

Ábendingagátt