Uppbygging í hjarta Hafnarfjarðar

Hugmyndir að metnaðarfullri uppbyggingu í miðbæ Hafnarfjarðar voru kynntar á fundi bæjarráðs Hafnarfjarðar í júní 2021. Fyrri áform um uppbyggingu á 100 herbergja hóteli að Fjarðargötu 13-15 (áður Strandgata 26–30) í Hafnarfirði hafa þróast í spennandi hugmyndir og áform um matvöruverslun og þjónustu á jarðhæð, nýtt nútíma bókasafn og margmiðlunarsetur, almenningsgarð á 2. hæð og hótelíbúðir í smáhýsum sem liggja við Strandgötuna.

Framkvæmdir hófust haustið 2022

Framkvæmdir við uppbyggingu á byggingarreit sem afmarkast af Fjarðargötu 13-15 (áður Strandgötu 26-30), hófust á haustmánuðum 2022. Gert er ráð fyrir að framkvæmdir taki í það minnsta tvö ár og mun uppbyggingu fylgja töluvert rask og truflun fyrir íbúa og umferð á svæðinu. Aðalteikningar voru samþykktar í lok september 2022. Verkefnið er leitt af félaginu 220 Miðbær ehf sem er eigandi byggingarreitsins.

Áhrif framkvæmda

Jarðvinna hófst í nóvember 2022, uppsteypa hússins verður unnin að mestu árið 2023 og ráðgert að húsið verði tekið í notkun í árslok 2025 og fram eftir ári 2026.

Húsbyggjandi mun leggja áherslu á að valda sem minnstri röskun fyrir íbúa og vegfarendur á meðan á framkvæmdum stendur en ljóst er að ekki verður komist hjá ákveðnum truflunum. Þrenging verður gerð að Strandgötu. Gangstétt öðru megin verður lokuð og gangandi umferð færð yfir götuna. Aðkoma að byggingunni fyrir framkvæmdaraðila verður á þremur stöðum; frá Strandgötu, frá bílastæði við Hafnarborg og frá svæði bak við Strandgötu 24. Búast má við efnismóttöku á þessum stöðum. Eins er gert ráð fyrir að á meðan steypuvinna stendur sé hjáleið fyrir umferð ökutækja á bak við Strandgötu 31 og 33.

Helstu tölulegar upplýsingar

  • Samtals lóðarstærð: 1.881,4 m2
  • Hámarksbyggingarmagn: 7.045 m2
  • Hámarks nýtingarhlutfall án bílageymslu: 3,74
  • Hámarks nýtingarhlutfall með bílageymslu: 4,74
  • Hámarkshæð: 28 m

Græn svæði og hönnun sem ýtir undir lifandi miðbæ

Með þessum áformum er verið að svara ákalli íbúa, Hafnarfjarðarbæjar og fyrirtækja á svæðinu um matvöruverslun í miðbæinn, græn svæði og hönnun sem ýtir undir lifandi miðbæ. Sérstaklega er horft til þess að tryggja góða blöndu verslunar-, þjónustu og íbúða.Ef einhverjar spurningar vakna þá má hafa samband við Guðmund Bjarna Harðarson framkvæmdastjóra: gudmundur@fjordur.is. Teikningar eru aðgengilegar í gegnum Kortavef bæjarins

Deiliskipulag má nálgast á Kortavef bæjarins – velja deiliskipulag í valstiku til hægri og finna svæði

Ábendingagátt