Iðar allt af lífi og kátínu

Fréttir

Skíma fór nýlega í heimsókn á leikskólann Tjarnarás í Hafnarfirði og fékk kynningu á starfseminni og þeim áhugaverðu og uppbyggjandi þróunarverkefnum sem í gangi eru innan veggja skólans.  

Skíma, málgagn Samtaka móðurmálskennara, fór nýlega í heimsókn á leikskólann Tjarnarás í Hafnarfirði og fékk kynningu á starfseminni og þeim áhugaverðu og uppbyggjandi þróunarverkefnum sem í gangi eru innan veggja  leikskólans.  

Viðtalið í leikskólunum: Leikskólinn Tjarnarás

Gaman er að koma inn á leikskólann Tjarnarás því að þar iðar
allt af lífi og kátínu. Börnin hafa nóg fyrir stafni og leikgleðin er ekki
langt undan. Leikskólakennarar hvetja börnin til að tengja saman orð og hluti
og nafnorð prýða því allt sem fyrir augu ber innan dyra. Allur lærdómur fer
fram í leik og grípur starfsfólk hvert tækifæri sem gefst í daglegu starfi til
að innleiða hvers konar þekkingu. Sem dæmi má nefna samverustundir þar sem
börnin syngja, hlusta, ríma og fleira. Svo er það útiveran þar sem orð eru
tengd við eitthvað áþreifanlegt. Fataklefinn er líka góður staður til að læra.:
„Sæktu rauðu peysuna“, hengdu upp brúnu úlpuna“. Unnið er með dyggðahugtökin og
börnin læra að umgangast hvert annað af tillitsemi og virðingu.

IMG_0191

Þegar grunnur var lagður að þróunarverkefninu í Tjarnarási
voru foreldrar hvattir til að sækja um bókasafnskort fyrir börn sín. Mikil
aukning varð í heimsóknum á safnið og stór hluti barnanna sagði að fyrir þau
væri lesið flest kvöld vikunnar.

IMG_0198

Á hverjum degi fá börnin læsis- og málörvun í einhverri
mynd. Bókin „Lubbi finnur málbein“ opnar
fyrir þeim heim hljóðanna og stafanna. Í hverri viku læra börnin eitt hljóð,
skoða hvert Lubbi fer og eru börnin afar áhugasöm um land og hljóð. Í umsókn
leikskólanna um styrkveitingu til þróunarverkefnis kemur fram að áhersla sé
lögð á „innihaldsríkar og markvissar samræður, að talað sé við börnin á þeirra
forsendum og út frá áhugasviði þeirra og reynslu því þannig er hægt að ýta
undir tjáningu barnanna og frásagnargleði. Bryndís bendir á nauðsyn þessa að
örva málgleði barnanna og þess vega hafa þau aðgang að svokölluðum þemakössum
sem geyma leikmuni sem tengjast ákveðnum hlutverkaleik auk viðeigandi
ritmálsefnis.  Þarna má finna hluti sem
t.d. tengjast læknastofu, pósthúsi og veitingahúsi. Litlu nemendurnir koma með
hugmyndir um hvernig hægt sé að leika sér með efniviðinn, þeir fara í
vettvangsferð þar sem safnað er í kassann og þeir öðlast reynslu til að leika
sé með efniviðinn. Þessi vinna endurspeglar upplifun barnanna og hugmyndaflug.
Allir fá að tjá sig og vera með. Ýmislegt er gert til að auka orðaforða
barnanna. Uppi á vegg hanga gamlar þulur úr fórum þjóðarinnar. Auk þess að lesa
þær með börnunum og fyrir þau eru erfið orð tekin út úr textanum og sett á
spássíu til að útskýra nánar. Með þessu fá hlustendur innsýn í íslenskt málfar
frá fyrri tíma. Börnin teikna svo myndir í samræmi við efni þulunnar.

Ekki er rúm til að telja upp allt það góða og markvissa
starf sem unnið er í Tjarnarási en í kynningunni sem Skíma fékk fer ekki á
milli mála að starfsfólkið er af lífi og sál í sinni vinnu og allt kapp er lagt
á að börnin taki framförum og hafi gaman af dvölinni í skólanum.

Ábendingagátt