Innritun í leikskóla gengur vel – 426 nýir nemendur

Fréttir

Innritun í leikskóla Hafnarfjarðarbæjar gengur vel og hafa öll börn sem fædd eru í maí 2021 og skráð voru með lögheimili í sveitarfélaginu í maí 2022 fengið boð um leikskólapláss. Fjöldi nýrra barna á leikskólum í Hafnarfirði haustið 2022 er 426. Aðlögun hófst hjá flestum þeirra í ágúst og er áætlað að henni ljúki 10. september. Þrír leikskólar hafa frestað hluta af sinni aðlögun fram til loka september eða þar til ráðningum er lokið. 

Fjöldi nýrra barna í leikskólum haustið 2022 er 426

Innritun í leikskóla Hafnarfjarðarbæjar gengur vel og hafa öll
börn sem fædd eru í maí 2021 og skráð voru með
lögheimili í sveitarfélaginu í maí 2022 fengið boð um leikskólapláss. Fjöldi
nýrra barna á leikskólum í Hafnarfirði haustið 2022 er 426. Aðlögun hófst hjá
flestum þeirra í ágúst og er áætlað að henni ljúki 10. september. Þrír
leikskólar hafa frestað hluta af sinni aðlögun fram til loka september eða þar
til ráðningum er lokið. Frestun nær til 17 barna. Í sumar bárust 28 nýjar
umsóknir fyrir börn á innritunaraldri og fá þau úthlutað á næstu vikum.

Færanlegar kennslustofur settar upp við þrjá leikskóla

Þessa dagana er unnið að uppsetningu á færanlegum
kennslustofum við þrjá leikskóla í sveitarfélaginu. Ráðgert er að
kennslustofurnar verði tilbúnar til notkunar á haustönn 2022. Færanlegar
kennslustofur opna á 100 leikskólapláss til viðbótar við þau pláss sem þegar
eru í boði innan sveitarfélagsins en í dag eru 1651 börn í 17 leikskólum og verða
þá um 1751 eftir stækkun. Ef allt gengur eftir með færanlegar kennslustofur og
ráðningu starfsfólks í takti við aukinn fjölda barna þá fá öll börn fædd í júní
2021 og fyrr boð um pláss. Boð um pláss verður sent út til foreldra og
forsjáraðila þegar vitað er hvenær framkvæmdum við uppsetningu lýkur og ráðið
hefur verið í nýjar stöður.

Leikskolarinnspyting2

Viðmið um innritunaraldur í aðalinnritun að hausti er 15
mánuðir

Innritunaraldur barna í Hafnarfirði hefur lækkað jafnt og
þétt síðustu árin í takti við möguleika og mannauð. Á árinu 2016 var viðmið um
innritunaraldur við aðalinnritun að hausti 18 mánuðir. Í dag og hin síðustu ár
hefur viðmiðið verið 15 mánuðir. Hafnarfjarðarbær hefur verið að skoða
möguleikana á því að koma upp sveigjanlegum vistunartíma sem ætti að stuðla að
styttri vinnuviku allra, jafnt barna sem og starfsfólks. Slíkt verkefni krefst
þátttöku allra og vinnst einungis með virku samstarfi alls skólasamfélagsins.
Með slíkri nálgun er verið að huga að velferð barna og koma til móts við
starfsumhverfi allra í leikskólum. Á árinu stendur til að hefja greiningu og
undirbúning á stækkun leikskólans Smáralundar um eina deild með það fyrir augum
að lækka inntökualdur barna enn frekar í vel ígrunduðum skrefum næstu árin. Aðrar
aðgerðir sem eru til skoðunar fela m.a. í sér aukningu í hópi faglegra
dagforeldra og mögulegar heimgreiðslur.

Bokasafn1497

Stuðningur til menntunar, aukin hlunnindi og bætt
kjör

Námssamningar og stuðningur til menntunar í faginu hefur um nokkurra
ára skeið verið ein af grunnstoðum aðgerða Hafnarfjarðarbæjar og hefur
framtakið notið töluverðra vinsælda. Sveitarfélagið hefur hin síðustu ár lagt
ríka áherslu á að auka menntunarstig starfsfólks í leikskólunum samhliða því að
ýta undir menntun ófaglærðra og áhuga allra á því mikilvæga og skapandi starfi
sem fram fer innan leikskólanna. Umtalsverðu fjármagni hefur verið veitt í
aukin hlunnindi og bætt kjör leikskólastarfsfólks og var m.a. einn helsti áhersluþátturinn í fjárhagsáætlun Hafnarfjarðarbæjar fyrir árið 2022 að skapa betri og meira aðlaðandi starfsaðstæður í leikskólum bæjarins. Voru þessar
leiðir markaðar í virku samtali við stjórnendur leikskólanna til að svara ákalli
umfram kjarasamninga.

0K1A1006

Meðal þeirra aðgerða sem ráðist var í í upphafi árs 2022:

  • Starfsfólk leikskóla fær 75% afslátt af
    leikskólagjöldum
  • Starfsfólk leikskóla fær forgang á
    leikskólapláss
  • Stjórnunarhlutfall aðstoðarleikskólastjóra
    hækkað um 20-35% til eflingar á faglegu starfi
  • Hækkun á fastri yfirvinnu allra
    leikskólastarfsmanna
  • Bíla- og símastyrkur til stjórnenda
  • Handleiðsla og námskeið starfsfólks leikskóla
    efld

Öll störf innan leikskóla Hafnarfjarðarbæjar eru til
auglýsingar á ráðningarvef bæjarins. Í dag vantar 23 stöðugildi í heild í
leikskólakerfi bæjarins eða að meðaltali 1,35 stöðugildi per skóla. Leikskólakerfi
Hafnarfjarðarbæjar telur 17 leikskóla með 519 stöðugildi og 626 starfsmenn.

Ráðningarvefur Hafnarfjarðarbæjar

Ábendingagátt