Innspýting í tómstundastarf grunnskólanna

Fréttir

Mikil áhersla er lögð á faglegt og árangursríkt tómstundastarf á öllum aldursstigum innan grunnskóla Hafnarfjarðarbæjar. Innspýting með nýju hlutastarfi og auknu starfshlutfalli innan hvers skóla mun eiga sér stað frá og með hausti 2024. Markmiðið er einfalt – aukin þjónusta sem endurspeglar enn betur þarfir og áhuga út frá aldri, áhuga og þroska.

Faglegt frístundastarf og skapandi starfsumhverfi

Mikil áhersla er lögð á faglegt og árangursríkt tómstundastarf á öllum aldursstigum innan grunnskóla Hafnarfjarðarbæjar. Hafnarfjarðarbær rekur frístundaheimili og félagsmiðstöðvar í öllum níu grunnskólunum sveitarfélagsins og kallast þessar tvær einingar saman tómstundamiðstöðvar.

Innspýting með nýju hlutastarfi og auknu starfshlutfalli innan hvers skóla mun eiga sér stað frá og með hausti 2024. Markmiðið er einfalt – aukin þjónusta sem endurspeglar enn betur þarfir og áhuga út frá aldri, áhuga og þroska.

Tómstundamiðstöðvar starfræktar utan hefðbundins skólatíma

Börn í 1.- 4. bekk hafa tækifæri til að stunda fjölbreytt starf á frístundaheimilum við sinn hverfisskóla frá því að skóladegi lýkur til kl. 16.30 alla virka daga, á skertum dögum og skipulagsdögum. Starf félagsmiðstöðvanna tekur svo við af frístundastarfinu og er hugsað fyrir öll börn og ungmenni í 5. – 10. bekk.

Starf félagsmiðstöðvanna fer fram síðla dags og á kvöldin alla virka daga og er viðmiðið að virkt félagsstarf sé viðhaft fyrir hvern bekk í það minnsta þrisvar yfir vikuna. Tómstundamiðstöðvar eru starfræktar utan hefðbundins skólatíma innan húsnæðis grunnskólanna í öllum skólahverfum sveitarfélagsins en hafa þó líka hin síðustu ár verið að prófa sig áfram með að bjóða upp á þjónustuna á skólatíma.

Fagþjónustan aðlöguð í takti við þarfir og áhuga hverju sinni

Deildarstjórar tómstundamiðstöðvanna eru hluti af stjórnendateymi skólanna og þannig tryggt mikið og gott flæði upplýsinga og verkefna milli hefðbundins og lögbundins skólastarfs og tómstundastarfs. Til þessa hafa deildarstjórarnir haft einn stjórnanda með sér til aðstoðar við skipulagningu á fjölbreyttu starfinu fyrir alla aldurshópa.

Frá og með næsta hausti mun stjórnendateymið eflast til muna þegar við bætast verkefnastjórar í félagsmiðstöðvarnar. Markmiðið er að efla fagstarf innan frístundaheimilanna og félagsmiðstöðvanna, forvarnir, sérhæfingu og styrkja þjónustu sem talar enn betur í takti við þarfir og áhuga þeirra barna og ungmenna sem þjónustuna nýta.

Í faglegu frístundastarfi er unnið markvisst með barnalýðræði og þannig með hugmyndir barnanna sjálfra.

Mikilvægt starf í mótun fyrirmynda framtíðarinnar

Vonir standa til þess að enn fleira fagmenntað fólk sækist í lausar stöður tómstundamiðstöðvanna og að starf þeirra uppfylli bæði vonir og væntingar sem flestra barna og ungmenna og ekki síður starfsfólksins sjálfs og veiti þeim samhliða dýrmæta reynslu.

Í boði er uppbyggjandi, skapandi, skemmtilegt og gefandi starfsumhverfi þar sem starfsfólk, börn og ungmenni deila hugmyndum sínum, þekkingu og reynslu og skapa saman samfélag sem einkennist af fjölbreytileika, skapandi hugsun og gleði. Starfið hefur forvarnar-, uppeldis og menntunargildi og er áhersla lögð á hvatningu og virkni með jákvæðri leiðsögn.

Upplýsingasíða um tækifærin og hlunnindin í tómstundamiðstöðvum Hafnarfjarðarbæjar

Ábendingagátt