Íslensk-skandinavískar jólahefðir í Hellisgerði

Fréttir Jólabærinn

„Þetta hefur verið draumur hjá mér síðan ég var krakki,“ segir Knútur Hreiðarsson matreiðslumaður sem hefur ásamt eigendum Sydhavn blásið lífi í Hellisgerði, lystigarð Hafnarfjarðar. Þar er opið nú á aðventunni.

Jólin í Hafnafjarðarbæ

„Þetta hefur verið draumur hjá mér síðan ég var krakki,“ segir Knútur Hreiðarsson matreiðslumaður sem hefur ásamt eigendum Sydhavn blásið lífi í Hellisgerði, lystigarð Hafnarfjarðar. Heitt kakó, smurbrauð og eplaskífur verða meðal veitinga. Hangilæri og laufabrauð einnig í nýuppgerðu húsnæði lystigarðsins. Knútur sagði frá í Jólablaði Hafnarfjarðarbæjar.

„Við heiðrum íslensk-skandinavískar jólahefðir. Hér má fá smámatarbita eftir röltið í Jólaþorpið,“ segir Knútur sem ólst upp steinsnar frá þessum fallega lystigarði. Hann stofnaði Le Kock og Deig og er yfirkokkur á Sydhavn í Hafnarfirði sem ætlar nú einnig að reka Hellisgerði í anda Flóru í Laugardalnum.

„Við systur mínar höfum margoft rætt þetta,“ segir hann um þær Kötlu og Maríu Kristu sem reka Systur og maka. Draumarnir eru stórir: tónleikar, þögult bíó, hrekkjavaka. „Við viljum nýta garðinn eins og hann á skilið.“

Helgi Tómas Sigurðarson, Knútur og sonur hans Vilberg. Knútur er kominn á heimaslóðir, kokkar á Sydhavn og hefur blásið lífi í Hellisgerði. „Við viljum nýta garðinn eins og hann á skilið.“

 

Knútur býr nú ásamt fjölskyldunni sinni á bak við Sydhavn, veitingastaðinn þar sem hann stýrir matseldinni. „Ég tek þrjá kollhnísa og er kominn í vinnuna. Það er draumur hvers veitingamanns að hafa veitingastaðinn í bakgarðinum.“ Hann segir börnin þrjú kíkja við á vaktina. Gríski þjónninn Nico mætir svo heim til þeirra á aðfangadag í jólasteikina. „Já þannig hefur það verið síðustu ár og hann er einn af betri vinum okkar og barnanna minna.“

Jólin á næsta leiti en hann horfir til sumarsins. Hellisgerði fær þar að njóta sín. „Lautarkörfur með ostum, jafnvel vínflösku. Já, við munum njóta þessarar fjölskylduparadísar hér í Hafnarfirði.“

 

Jólablað Hafnarfjarðar 2024 – vefútgáfa:

 

 

 

 

Mokkarúlluterta ömmu Erlu

Svampbotn

4 egg

100 g sykur

32 g hveiti

7 g lyftiduft

 

Stífþeytið eggin og sykurinn. Bætið þurrefnunum út í og þeytið í 2-4 mínútur. Hellið og dreifið á bökunarplötu. Bakið á 190 °C í 10 mínútur. Kælið og losið af plötunni.

 

Fylling

100 g smjör

85 g flórsykur

100 g suðusúkkulaði

2 msk. skyndikaffi, NESCAFFE

 

Þeytið smjör og sykur uns hvítt og loftkennt og það myndar stífa toppa. Dreifið fyllingunni á kaldan svampbotninn, 0,6 cm þykku lagi yfir allan botninn. Saxið suðusúkkulaðið í grófa bita en ekki of stóra. Dreifið súkkulaðinu jafnt yfir kremið.

Dreifið svo skyndikaffinu yfir kremið og rúllið botninum saman. Vefjið inn í smjörpappír og kælið. Þegar kakan hefur verið kæld má velta henni upp úr strásykri og skera hana svo í 2-2,5 cm sneiðar. Hún er svo borin fram köld.

Pabbi vill hafa hana frosna en við sættum okkur við tvær gráður.

 

Sagan af kökunni

„Það hefur verið slegist um þessa mokkaköku ömmu Erlu í matarboðum hjá mér. Uppáhaldseftirréttur svo margra. Fullkominn jóladrumbur,“ segir Knútur Hreiðarsson, matreiðslumaður á Sydhavn.

„Amma Erla býr við hlið Kaupfélagsblokkarinnar hér í Hafnarfirði en er ættuð frá Siglufirði. Hún er ítalska amman í mínu lífi. Allt er gert frá grunni sem veitti mér innblástur til að fara í matreiðslu. Ég fékk að elda allt frá grunni og búa til slátur með henni,“ segir hann.

„Það eru til mörg bindi af uppskriftum sem hún hefur handskrifað og ég held utan um eitt þeirra í brynvörðum skáp. Afi minn batt þær margar inn, Ragnar Sveinsson – alltaf kallaður Sófus. Maður þorir varla að snerta uppskriftirnar og það á örugglega við um fleiri því bókin er í þvílíkt flottu standi. Það er slegist um í fjölskyldunni að fá leyniuppskriftir úr bókinni.“

 

 

Ábendingagátt