Íslensku tónlistarverðlaunin 2021 – fjöldi tilnefninga tengdar Hafnarborg

Fréttir

Hafnarfjarðarbær óskar Hafnarborg og öllu því listafólki sem hlaut tilnefningar til Íslensku tónlistarverðlaunanna 2021 í fjölbreyttum flokkum innilega til hamingju með tilnefningarnar. Lista- og menningarstarf bæjarins er sannarlega auðugt.  

Hafnarfjarðarbær óskar Hafnarborg og öllu því listafólki sem hlaut tilnefningar til Íslensku tónlistarverðlaunanna 2021 í fjölbreyttum flokkum innilega til hamingju með tilnefningarnar. Lista- og menningarstarf bæjarins er sannarlega auðugt.

Sjá tilkynningu á vef Hafnarborgar 

Tilnefningar til Íslensku tónlistarverðlaunanna 2021

Hafnarfjarðarbær tekur undir hamingjuóskir Hafnarborgar til allra hlutaðeigandi og óskar Guðrúnu Jóhönnu Ólafsdóttur og Francisco Javier Jáuregui, stofnendum og stjórnendum Sönghátíðar í Hafnarborg, innilega til hamingju með tilnefningar til Íslensku tónlistarverðlaunanna 2021 en Sönghátíð í Hafnarborg er tilnefnd sem „tónlistarviðburður ársins – hátíðir“, auk þess sem tónleikar Stuarts Skeltons, The Modern Romantic, sem fram fóru á hátíðinni, eru tilnefndir sem „tónlistarviðburður ársins – tónleikar“, í flokki sígildrar og samtímatónlistar.

Þá er Andrési Þór Gunnlaugssyni, listrænum stjórnanda Síðdegistóna í Hafnarborg, sömuleiðis óskað hjartanlega til hamingju með tilnefningu þessarar nýju tónleikaraðar sem „tónlistarviðburður ársins – tónleikar“ í flokki djass- og blústónlistar, auk þess sem Andrési Þór er óskað innilega til hamingju með tilnefningu sína sem „tónlistarflytjandi ársins“ í sama flokki.

Einnig óskum við hinum fjölmörgu flytjendum, sem komið hafa fram á Sönghátíð, Síðdegistónum, hádegistónleikum og á tónleikaröðinni Hljóðönum, með tilnefningar sínar og ber þar sérstaklega að nefna fiðluleikarann Höllu Steinunni Stefánsdóttur, sem tilnefnd er sem „tónlistarflytjandi ársins“ í flokki sígildrar og samtímatónlistar, en Halla Steinunn tók á síðasta ári þátt í því að virkja sýningu Davíðs Brynjars Franzsonar, Borgarhljóðvist í formi ensks lystigarðs, með hljóðfæraleik sínum.

Starf  Hafnarborgar og allra þeirra sem koma að viðburðum og hátíðum þar er sannarlega auðugt og kristallað tónum og töfrum. Takk dómnefnd og aðstandendur Íslensku tónlistarverðlaunanna kærlega fyrir þann mikla heiður sem Hafnarborg er sýndur með tilnefningunum.

Ábendingagátt