Íþróttafólk ársins í Hafnarfirði

Fréttir

Íþróttafólk ársins 2018 í Hafnarfirði var valið í dag á árlegri Íþrótta- og viðurkenningarhátíð. Sara Rós Jakobsdóttir dansari úr Dansíþróttafélagi Hafnarfjarðar er íþróttakona Hafnarfjarðar 2018 og Axel Bóasson kylfingur frá Golfklúbbnum Keili íþróttakarl. Afrekslið Hafnarfjarðar 2018 er meistaraflokkur karla og kvenna í frjálsum íþróttum hjá Fimleikafélagi Hafnarfjarðar.

Íþróttafólk ársins 2018 í
Hafnarfirði var valið í dag á árlegri Íþrótta- og viðurkenningarhátíð. Sara Rós
Jakobsdóttir dansari úr Dansíþróttafélagi Hafnarfjarðar er íþróttakona
Hafnarfjarðar 2018 og Axel Bóasson kylfingur frá Golfklúbbnum Keili íþróttakarl
Hafnarfjarðar. Afrekslið Hafnarfjarðar 2018 er meistaraflokkur karla og kvenna
í frjálsum íþróttum hjá Fimleikafélagi Hafnarfjarðar.

Bæjarstjórn Hafnarfjarðarbæjar og íþrótta- og tómstundanefnd stóðu í
dag fyrir afhendingu viðurkenninga til íþróttamanna sem keppa með hafnfirskum
liðum, Íslandsmeistara, hópa bikarmeistara, Norðurlandameistara, heimsmeistara
og sérstakra afreka, ásamt vali á íþróttakonu, íþróttakarli og íþróttaliði Hafnarfjarðar
á árinu 2018. Hátt í 500 einstaklingum var veitt viðurkenning á hátíðinni en
auk þeirra var úthlutað 20 milljónum króna úr sjóði sem Rio Tinto á Íslandi,
ÍBH og Hafnarfjarðarbær standa að og ætlað er að efla íþróttastarf 18 ára og
yngri.

Íþróttakona, íþróttakarl og íþróttalið
Hafnarfjarðar 2018

Afrekslið
Hafnarfjarðar 2018 er meistaraflokkur karla og kvenna í frjálsum íþróttum hjá
Fimleikafélagi Hafnarfjarðar en liðið varð Íslandsmeistari félagsliða í
frjálsíþróttum samanlagt karla- og kvennalið innanhúss, Íslandsmeistari
félagsliða í frjálsíþróttum kvennaliðið innanhúss, bikarmeistari félagsliða í
frjálsíþróttum karlaliðið innanhúss og bikarmeistari félagsliða í
frjálsíþróttum kvennaliðið utanhúss. Auk þess átti liðið stóran hóp í öllum
landsliðskeppnum í karla- og kvennaflokki á árinu.

Sara Rós Jakobsdóttir dansari úr Dansíþróttafélagi Hafnarfjarðar er
íþróttakona Hafnarfjarðar árið 2018. Sara Rós er margfaldur Íslands- og
bikarmeistari í standard, latin og 10 dönsum á árinu. Hún keppir fyrir landslið
Dansíþróttasambands Íslands ásamt dansfélaga sínum og tóku þau þátt í fjölda
alþjóðlegra móta víðsvegar um heiminn með góðum árangri. Í ár er 6.sætið í
úrslitakeppni Evrópumeistaramótsins í 10 dönsum besta afrek þeirra.

Axel Bóasson
kylfingur frá Golfklúbbnum Keili er íþróttamaður Hafnarfjarðar árið 2018. Axel
er einn af bestu kylfingum landsins og er á þriðja ári sem atvinnumaður. Hann
er Íslandsmeistari og stigameistari karla á árinu. Hann sigraði á Evrópumóti
atvinnumanna í blönduðum liðum ásamt Birgi Leif, Valdísi og Ólafíu á Gleneagles
í Skotlandi. Axel varð einnig í öðru sæti liða í tvímenningi á Evrópukeppni
atvinnumanna ásamt Birgi Leif.

Ábendingagátt