Íþróttafólk Hafnarfjarðar 2020

Fréttir

Bæjarstjórn Hafnarfjarðar og íþrótta- og tómstundanefnd stóðu í dag fyrir afhendingu viðurkenninga til íþróttamanna sem keppa með hafnfirskum liðum, Íslandsmeistara, hópa bikarmeistara, Norðurlandameistara, heimsmeistara og sérstakra afreka, ásamt vali á íþróttakonu, íþróttakarli og íþróttaliði Hafnarfjarðar á árinu 2020.

Bæjarstjórn Hafnarfjarðar og íþrótta- og tómstundanefnd stóðu í dag fyrir afhendingu viðurkenninga til íþróttamanna sem keppa með hafnfirskum liðum, Íslandsmeistara, hópa bikarmeistara, Norðurlandameistara, heimsmeistara og sérstakra afreka, ásamt vali á íþróttakonu, íþróttakarli og íþróttaliði Hafnarfjarðar á árinu 2020.

Á árinu hafa rúmlega 300 einstaklingar unnið Íslandsmeistaratitla og/eða bikarmeistaratitla með hafnfirsku liði og er þeim sérstaklega óskað til hamingju með árangurinn. Á hátíðinni var úthlutað 10 milljónum úr sjóði sem Rio Tinto á Íslandi, ÍBH og Hafnarfjarðarbær standa að sem ætlað er að efla íþróttastarf fyrir yngri en 18 ára.

Val á íþróttakonu, íþróttakarli og íþróttaliði Hafnarfjarðar fór fram. Afrekslið Hafnarfjarðar 2020 er meistaraflokkur karla og kvenna í frjálsum íþróttum hjá Fimleikafélagi Hafnarfjarðar.

Liðið sigraði í öllum frjálsíþróttamótum sem keppt var til stiga á árinu. Þá vann liðið til fjölda titla bæði á meistaramótum sem og í bikarkeppni.

Guðrún Brá Björgvinsdóttir kylfingur frá Golfklúbbnum Keili er íþróttakona Hafnarfjarðar árið 2020.

Guðrún Brá er Íslandsmeistari kvenna í golfi árið 2020 og hefur sigrað þrjú ár í röð. Guðrún Brá hefur verið meðal fremstu kylfinga landsins í mörg ár. Hún sigraði Íslandsmótið í höggleik í sumar, varð stigameistari GSÍ þar sem hún sigraði þrjú mót af fimm mótum ársins. Guðrún Brá leikur á Evrópumótaröð kvenna þar sem hún hefur fullan þátttökurétt á þessu sem og næsta ári. Guðrún er í 125. sæti á styrkleikalista LET Evrópumótaraðarinnar og er í 949. sæti á heimslista atvinnukvenna í golfi.

Anton Sveinn McKee sundmaður úr Sundfélagi Hafnarfjarðar er íþróttamaður Hafnarfjarðar árið 2020.

Anton Sveinn er sundkarl SH og sundkarl Sundsambands Íslands 2020. Hann varð margfaldur Íslandsmeistari á árinu auk þess að verða Íslandsmeistari í boðsundi. Hann setti þrjú Íslandsmet sem einnig voru ný Norðurlandamet í 200m og 100m bringusundi. Anton Sveinn var fyrstur Íslendinga til að tryggja sér farseðil á Ólympíuleikana í Tókýó. Hann hefur einnig tryggt sér keppnisrétt á Evrópumeistaramótinu í sundi sem hefur verið frestað fram til 2021. 

Ábendingagátt