Íþróttafólkið okkar heiðrað

Fréttir

Alls unnu 536 hafnfirskir íþróttamenn til Íslandsmeistaratitla á árinu í um 30 greinum frá 14 félögum. Hrafnhildur Lúthersdóttir, landsliðskona í sundi úr Sundfélagi Hafnarfjarðar, var valin íþróttakona Hafnarfjarðar sjöunda árið í röð og Axel Bóasson, landsliðsmaður í golfi úr Golfklúbbnum Keili, íþróttakarl ársins annað árið í röð. 

Íþróttafólk Hafnarfjarðar heiðrað fyrir afrek sín á árinu.  Alls unnu 536 hafnfirskir íþróttamenn til Íslandsmeistaratitla á árinu í um 30 greinum frá 14 félögum. 

Íþróttakona og íþróttakarl Hafnarfjarðar 2016 voru krýnd við hátíðlega athöfn í kvöld. Hrafnhildur Lúthersdóttir, landsliðskona í sundi úr Sundfélagi Hafnarfjarðar, var valin íþróttakona Hafnarfjarðar sjöunda árið í röð og Axel Bóasson, landsliðsmaður í golfi úr Golfklúbbnum Keili, íþróttakarl ársins annað árið í röð. Karla- og kvennalið FH í frjálsíþróttum var valið íþróttalið ársins. Liðið er Íslandsmeistari félagsliða í frjálsíþróttum utanhúss og bikarmeistari í frjálsíþróttum innanhúss og utanhúss.

Afreksíþróttafólk Hafnarfjarðar var heiðrað og verðlaunað fyrir góða frammistöðu á sínu sviði í Íþróttahúsinu við Strandgötu fyrr í kvöld þar sem árleg Íþrótta- og viðurkenningahátíð Hafnarfjarðarbæjar fór fram. Íþróttakona, íþróttakarl og íþróttalið Hafnarfjarðar 2016 voru krýnd auk þess sem viðurkenningar voru veittar til hafnfirskra íþróttamanna sem unnið hafa Íslands- og bikarmeistaratitla á árinu auk annarra stórtitla í alþjóðlegum keppnum. Alls hafa 536 hafnfirskir íþróttamenn unnið til Íslandsmeistaratitla á árinu í tæplega 30 íþróttagreinum frá 14 íþróttafélögum. 18 hópar hafa unnið bikarmeistaratitla og sex einstaklingar orðið Norðurlandameistarar auk þess sem tveir einstaklingar fengu EM verðlaun. Í ellefta skipti var veitt viðurkenning til íþróttaliðs sem skarað hefur framúr og hlýtur liðið sæmdarheitið „Íþróttalið Hafnarfjarðar 2016”  Karla- og kvennalið FH í frjálsíþróttum hlaut titilinn í ár. Tilnefningar hlutu einnig Meistaraflokkur karla í knattspyrnu FH og Meistaraflokkur karla í handknattleik Hauka.  Á hátíðinni voru veittir styrkir í viðurkenningarskyni frá Hafnarfjarðarbæ til þeirra íþróttafélaga sem unnið hafa Íslands- eða bikarmeistaratitil í efstu flokkum á árinu. Í heild 16 hópar sem fengu úthlutað alls kr. 4.800.000.- Styrkjum að upphæð kr. 7.200.000.- var jafnframt úthlutað til íþróttafélaganna samkvæmt samningi Hafnarfjarðarbæjar, Rio Tinto og ÍBH vegna íþróttastarfs 16 ára og yngri.

Í heild hafa þúsundir einstaklinga hlotið verðlaun og viðurkenningar Hafnarfjarðarbæjar, bæjarstjórnar og íþrótta- og tómstundanefndar Hafnarfjarðar og enn bætist í hópinn. Það er því óhætt að segja að Heilsubærinn Hafnarfjörður standi sannarlega undir nafni sem slíkur. Átján afreksmenn fengu sérstaka viðurkenningu fyrir árangur og frammistöðu í sínum íþróttagreinum á árinu:

 

  • Akstursíþróttir – Aron Jarl Hillers, AÍH
  • Dans – Nikita Bazev, DÍH og Hanna Rún Bazev Óladóttir, DÍH
  • Fimleikar – Sigríður Hrönn Bergþórsdóttir, Björk
  • Frjálsíþróttir – Hilmar Örn Jónsson, FH og Arna Stefanía Guðmundsdóttir, FH
  • Golf – Axel Bóasson, Keilir og Guðrún Brá Björgvinsdóttir, Keilir
  • Handknattleikur – Einar Rafn Eiðsson FH, Janus Daði Smárason Haukar og Maria Innes de Silva Perrera Haukar
  • Knattspyrna – Davíð Þór Viðarsson, FH
  • Körfuknattleikur – Kári Jónsson, Haukar og Helena Sverrisdóttir, Haukar
  • Skotfimi – Helga Jóhannsdóttir, SÍH
  • Sund – Aron Örn Stefánsson, SH og Hrafnhildur Lúthersdóttir, SH
  • Þríþraut – Hjördís Ýr Ólafsdóttir, SH

 

Íþróttakarl Hafnarfjarðar 2016

Íþróttakarl Hafnarfjarðar 2016 er Axel Bóasson Golfklúbbnum Keili. Axel er meðal bestu kylfinga á Íslandi í dag og lék í ár á Nordic tour sem atvinnumaður í golfi á sínu fyrsta ári og hélt sæti sínu í mótaröðinni. Axel varð klúbbmeistari Keilis, sigraði á Borgunarmótinu, Securitasmótinu, á Eimskipsmótaröðinni, varð stigameistari Golfsambands Íslands og í öðru sæti á Íslandsmótinu í höggleik. Hann var með meðalskor upp á 69 högg hér heima sem verður að teljast ótrúlega góður árangur. Til samanburðar er meðalskorið á PGA mótaröðinni 71,3 högg og lægsta meðalskorið 69,1 högg. Axel tók þátt í fjölda alþjóðlegra móta á árinu.

Íþróttakona Hafnarfjarðar 2016

Íþróttakona Hafnarfjarðar 2016 er Hrafnhildur Lúthersdóttir Sundfélagi Hafnarfjarðar. Hrafnhildur er sundkona í bringusundi og fjórsundi. Margfaldur Íslandsmeistari, Íslandsmethafi og landsliðskona í sundi. Hún varð fyrst íslenskra kvenna til að vinna til verðlauna á Evrópumeistaramóti í 50m laug á árinu þar sem hún vann tvenn silfurverðlaun fyrir 50m bringusund á tímanum 30,91 sek. og 100m bringusund á tímanum 1:06,45 mín. og ein bronsverðlaun fyrir 200m bringusund á tímanum 2:22,96 mín. Hrafnhildur keppti á Ólympíuleikunum í Ríó í sumar og náði þeim frábæra árangri að verða sjötta í 100m bringusundi á tímanum 1:07,18 mín og í 11. sæti í 200m bringusundi á tímanum 2:24,41 mín. Árangur Hrafnhildar er besti árangur íslenskrar sundkonu á Ólympíuleikunum. Í desember keppti Hrafnhildur á Evrópumeistaramótinu í sundi í 25m laug í Windsor í Kanada og náði þeim frábæra árangri að setja Íslandsmet í hverju sundi sem hún synti, samtals sjö met. Annars var árangur hennar í einstaklingsgreinum á mótinu eftirfarandi; 50m bringusund 13. sæti á tímanum 30,47 sek., 100m bringusund 1:05,56 mín. 14. sæti, 100m fjórsund 11. sæti á tímanum 1:00,31 mín.

Íþróttalið Hafnarfjarðar 2016

Íþróttalið Hafnarfjarðar 2016 er karla- og kvennalið FH í frjálsíþróttum. Liðið er Íslandsmeistari félagsliða í frjálsíþróttum utanhúss, bikarmeistari félagsliða í frjálsíþróttum innanhúss og utanhúss og áttu liðsmenn góðu gengi að fagna á alþjóðlegum mótum á árinu.   Átta landsliðsmenn kepptu á Smáþjóðameistaramóti landsliða á Möltu, einn keppandi keppti á Evrópumeistaramótinu í frjálsíþróttum í Amsterdam í Hollandi, þrír keppendur kepptu á Norðurlandamóti í frjálsíþróttum innanhúss, auk þess tóku liðsmenn þátt í fjölda verkefna í unglinga- og ungmennaflokkum erlendis með góðum árangri.

Ábendingagátt