Jafnræði og gegnsæi í starfihafnfirskra íþróttafélaga

Fréttir

Bæjarstjórn samþykkti í dag fyrirliggjandi rekstrar- og þjónustusamninga við tólf íþróttafélög í Hafnarfirði. Í nýju samningum er áhersla lögð á jöfnuð, sömu forsendur við útreikninga og að skilja á milli félagslega hluta félaganna og hefðbundins reksturs húsnæðis og valla. Starfsemi íþróttafélag í Hafnarfirði er í miklum blóma og kjölfestan í rekstri félaganna öflugt sjálfboðaliðastarf. Hafnarfjarðarbær vonast til að stuðningurinn muni styrkja öflugt íþróttastarf enn frekar.

Bæjarstjórn samþykkti í dag fyrirliggjandi rekstrar- og þjónustusamninga við tólf íþróttafélög í Hafnarfirði. Félögin eru Badmintonfélag Hafnarfjarðar, Fimleikafélagið Björk, Dansíþróttafélag Hafnarfjarðar, Fimleikafélag Hafnarfjarðar, Íþróttafélagið Fjörður, Golfklúbburinn Keilir, Golfklúbbur Setbergs, Íþróttafélagið Haukar, Hnefaleikafélag Hafnarfjarðar, Sundfélag Hafnarfjarðar, Hestamannafélagið Sörli og Siglingaklúbburinn Þytur.

Um mitt ár 2015 kom út skýrsla sem greindi þáverandi samninga Hafnarfjarðarbæjar við íþróttafélögin, tekin voru saman framlög bæjarins til íþróttafélaga og gerður var samanburður við nágrannasveitarfélög. Niðurstaða skýrslu sýndi ógagnsæi og ójöfnuð í greiðslum til íþróttafélaganna og því var í skýrslunni lagt til að gera nýja gagnsæja samninga þar sem lögð yrði áhersla á jöfnuð, sömu forsendur við útreikninga og að skilja á milli félagslega hluta félaganna og hefðbundins reksturs húsnæðis og valla. Vilji var fyrir því að rekstrarkostnað þeirra mannvirkja sem íþróttafélögin reka fyrir Hafnarfjarðarbæ yrði greindur sérstaklega. Geir Bjarnason, íþrótta- og tómstundafulltrúi Hafnarfjarðarbæjar, hefur borið hitann og þungann af þessu verkefni ásamt Andra Ómarssyni, verkefnastjóra á stjórnsýslusviði. Hafa þeir hitt fulltrúa allra félaganna og farið yfir rekstrartölur og leiðir til að mæta sérstökum þörfum allra félaganna. Fyrsta verkefnið var að fela Björkunum að taka við rekstri Íþróttamiðstöðvar Bjarkanna og hefur sá samningur fært Björkunum ýmis tækifæri sem auka gæði innra starfsins og bæta rekstur félagsins.

Áhersla lögð á gæði þjónustu og farið sé eftir settum gæðaviðmiðum

Endurnýjaðir hafa verið þjónustusamningar við öll þessi félög sem bjóða upp á barnastarf fyrir 50 börn eða fleiri um þá þjónustu sem félagið leggur fram í bæjarfélaginu. Fyrst og fremst þjónustu fyrir börn og með hvaða hætti bæjarfélagið greiði félaginu fyrir þá þjónustu. Félögunum er raðað í átta meginflokka og fá þau mismunandi framlag sem fer eftir fjölda iðkenda 0-18 ára. Framlag Hafnarfjarðarbæjar er ætlað sem stuðningur til félagsins til að bjóða upp á skipulagða íþróttaþjálfun fyrir börn og unglinga í Hafnarfirði og rekstur skrifstofu. Lögð er áhersla á gæði þjónustunnar og munu Hafnarfjarðarbær og Íþróttabandalag Hafnarfjarðar fylgjast með að farið sé að gæðaviðmiðum sem sett eru fram í samningunum með samráðsfundum á milli aðila. Hinsvegar hafa verið endurnýjaðir rekstrarsamningar við nokkur íþróttafélög um rekstur mannvirkja. Um er að ræða Fimleikafélagið Björk og Bjarkarhúsið, Fimleikafélag Hafnarfjarðar og Kaplakrika, Íþróttafélagið Hauka og Ásvelli, Hnefaleikafélag Hafnarfjarðar og Driftarhúsið, Golfklúbbinn Keili og Hvaleyrarvöll, Golfklúbbinn Setberg og Setbergsvöll, Hestamannafélagið Sörla og Sörlastaði og Siglingaklúbbinn Þyt og félagsheimili Þyts að Strandgötu 88. Félögin reka mannvirkin fyrir Hafnarfjarðarbæ, manna húsin, sjá um innkaup á rekstrarvörum, hluta viðhalds og að halda rekstri gangandi fyrir þá sem fara í leikfimi og stunda íþróttaæfingar.

Heilsubærinn Hafnarfjörður

Starfsemi íþróttafélag í Hafnarfirði er í miklum blóma og kjölfestan í rekstri félaganna öflugt sjálfboðaliðastarf. Hafnarfjarðarbær vonast til að stuðningurinn muni styrkja starfið enn frekar. Börnin í Hafnarfirði hafa í dag úr afar fjölbreyttri flóru íþróttafélaga og íþróttagreina að velja og því eru stöðugt auknar líkur á að fleiri börn en nokkru sinni fyrr finni sér verðuga íþrótt eða tómstund til að glíma við. Heilsubærinn Hafnarfjörður hefur það yfirmarkmið að bæta vellíðan bæjarbúa. Að auka við stuðning til íþróttafélaga og gefa þeim tækifæri til að bera aukna ábyrgð á rekstri mannvirkja mun vonandi auka við gæði innra starfs félaganna.

Ábendingagátt