Jóhanna Margrét sigraði í upplestrarkeppninni 2025

Fréttir

Gullfallegur upplestur ómaði um Víðistaðakirkju í 29. sinn þegar átján nemendur úr 7. bekkjum grunnskóla Hafnarfjarðar tóku þátt í Stóru upplestrarkeppninni 2025. Á hátíðinni var ríkulegri uppskeru fagnað með Ásthildi Lóu Þórsdóttur menntamálaráðherra.

Rækta tungumálið í Stóru upplestrarkeppninni

Jóhanna Margrét Logadóttir, Lækjarskóla, sigraði í Stóru upplestarkeppninni 2025 sem haldin var í 29. sinn í Víðistaðakirkju sídegis í gær. Valdís Silja Daðadóttir, Öldutúnsskóla, var í 2. sæti og Jón Gísli Eggertsson, Hvaleyrarskóla, í því þriðja. Átján nemendurnir tóku við viðurkenningu úr hendi Ásthildar Lóu Þórsdóttur menntamálaráðherra.

Þið eruð öll sigurvegarar

„Þið eruð öll sigurvegarar. Þið voruð ótrúlega flott,“ sagði menntamálaráðherra við athöfnina og ljóst var að dagurinn hreyfði við henni. „Þetta er ykkar dagur. Það krefst hugrekkis og vinnu að koma hérna fram. Mig langar að þakka fyrir þennan dag og að hafa fengið að vera hérna. Þetta er búið að vera svakalega skemmtilegt.“

Já, vandaður, fallegur upplestur ómaði um Víðistaðakirkju þegar átján nemendur úr 7. bekkjum grunnskóla Hafnarfjarðar tóku þátt í Stóru upplestrarkeppninni 2025. Nemendurnir fluttu brot úr einni bóka Hjalta Halldórssonar, skáldi keppninnar, og nefnist hún DRAUMUR. Þau fluttu tvenn ljóð, annað sem þau völdu sér sjálf. Höfundurinn var í salnum og hlýddi einnig á upplesturinn.

Hæfileiki til framtíðar

Valdimar Víðisson bæjarstjóri flutti hvatningarorð til keppendanna og gaf ráð til ungs fólks. „Með því að æfa ykkur í upplestri byggið þið upp sjálfstraust, lærið að stjórna röddinni og tjá ykkur skýrt og markvisst,“ sagði hann. Færnin nýtist þeim alla ævi. Það krefist hugrekkis og einbeitingar að stíga svona fram. „Ég vil hrósa ykkur öllum að vera hér í dag og taka þátt – að þora að stíga fram og leggja sig fram í upplestri er stór sigur út af fyrir sig.“

Valdimar Víðisson bæjarstjóri hvetur unga fólkið áfram fyrir keppnina. Öll stóðu þau sig prýðilega.

Dómnefnd valdi sigurvegarana úr flottum hópi fulltrúa sinna skóla og veitti þeim sérstaka viðurkenningu. Dómnefndina í ár skipuðu Björk Einisdóttir, formaður, Hafrún Dóra Júlíusdóttir, Kristín Ásta Ólafsdóttir og Árni Sverrir Bjarnason. Kynnir og stjórnandi hátíðarinnar var Ingibjörg Einarsdóttir. Hún sagði frá því hvernig keppnin hófst hér í Hafnarfirði árið 1996 en sé nú komin inn í skólanámskrár skólanna og á því orðið fastan sess í 7. bekk og hélt þétt um keppnina góðu þetta ár sem önnur.

„Alltaf nýir lesarar. Þau voru glæsileg og maður stoltur af hópnum,“ sagði Ingibjörg að lokinni keppni. „Ég hef gert þetta í 29 ár. Eitt enn,“ sagði hún og var ánægð með viðtökurnar og hve margir tjáðu henni hversu hátíðleg stundin væri.

Talkór og tónlist

Nemendur í 4. bekk og þátttakendur í Litlu upplestrarkeppninni 2023 stigu fram sem talkór í kjölfar unglingasveitar sem flutti Bubba-lagið Blindsker með glæsibrag. Kórinn er eitt af einkennum Litlu upplestrarkeppninnar sem er sprotaverkefni út frá Stóru upplestrarkeppninni. Hún er ætluð nemendum í 4. bekkjum grunnskólanna og hefur sama undirliggjandi markmið og tilgang en öðruvísi nálgun og sú stóra. Björn Hlynur Brynjólfsson úr Tónlistaskóla Hafnarfjarðar lék á píanó. Þá las Adam Sebastian Zmarzly las ljóð á pólsku. Auðunn Sölvi Hugason, sigurvegari keppninnar 2024 steig einnig á svið og kynnti skáld keppninnar.

Adam Sebastian Zmarzly las ljóð á pólsku.

Viðurkenningar fyrir smásögur

Á hátíðinni voru viðurkenningar veittar fyrir smásagnasamkeppni 8. – 10. bekkjar og í samkeppni um verðlaunamynd á boðskort lokahátíðarinnar.

Sunna Björk Magnúsdóttir, 10. bekk í Víðistaðaskóla, vann smásagnakeppnina í ár.

  1. sætið:   Heiti sögunnar:   Í hafinu leynist eilífðin

Höfundur:  Sunna Björk Magnúsdóttir, 10.bekk, Víðistaðaskóla

Verðlaunaskjal fyrir höfund og skóla

Listaverkabækur frá Hafnarborg

Fjórir miðar í kvikmyndahús

 

2. sætið:          Heiti sögunnar:   Ljósið í myrkrinu

Höfundur:  Birta Jóhannsdóttir, 9.bekk, Öldutúnsskóla

Verðlaunaskjal og skólinn

Listaverkabækur frá Hafnarborg

 

3. sætið:          Heiti sögunnar:   Blindsker

Höfundur:  Sigurður Bragi Birkisson, 10.bekk í Víðistaðaskóla

Sömu verðlaun og annað sætið.

 

Hófst sem tilraunaverkefni fyrir 29 árum

Stóra upplestrarkeppnin hófst sem tilraunaverkefni um upplestur í Hafnarfirði veturinn 1996-1997. Síðan hefur keppnin stækkað og eflst svo um munar. Hún hefur um árabil einnig verið haldin á landsvísu.

Raddir, samtök um vandaðan upplestur og framsögn, héldu utan um keppnina til 25 ára en síðustu fjögur árin hafa sveitarfélögin og skólasamfélagið á hverjum stað staðið að keppninni. Í Hafnarfirði nýtur skólasamfélagið enn góðs af faglegri aðstoð Ingibjargar Einarsdóttur, upphafsaðila Stóru upplestrarkeppninnar á Íslandi, sem á enn veg og vanda að lokahátíðinni í Víðistaðakirkju.

Keppendur í ár:
  1. Jón Gísli Eggertsson, Hvaleyrarskóla
  2. Hrafnhildur Helga Björnsdóttir, Hraunvallaskóla
  3. Sunneva Bergmann Skúladóttir, Áslandsskóla
  4. Ásdís Hulda Svavarsdóttir, Víðistaðaskóla
  5. Emil Ágúst Hilmarsson, Skarðshlíðarskóla
  6. Soffía Ísabella Bjarnadóttir, Setbergsskóla
  7. Mattea Líf Kristinsdóttir, Engidalsskóla
  8. Emil Ágúst Hilmarsson, Skarðshlíðarskóla
  9. Ásta Lovísa Ársælsdóttir, Lækjarskóla
  10. Víkingur Hrafn Steinarsson, Skarðshliðarskóla
  11. Lísbet Helen Shijo, Hvaleyrarskóla
  12. Adam Máni Viggósson, Hraunvallaskóla
  13. Silvía Helga Magnúsdóttir, Engidalsskóla
  14. Kristín Eldey Steingrímsdóttir, Víðistaðaskóla
  15. Vilhjálmur Patrick Ragnarsson, Setbergsskóla
  16. Valdís Silja Daðadóttir, Öldutúnsskóla
  17. Jóhanna Margrét Logadóttir, Lækjarskóla
  18. Guðmundur Árni Guðrúnarson, Áslandsskóla
Ábendingagátt