Jól í skókassa

Fréttir

Í Öldutúnsskóla var ákveðið að taka þátt í verkefni JÓL Í SKÓKASSA í ár

Í Öldutúnsskóla var ákveðið að taka þátt í verkefni JÓL Í SKÓKASSA í ár. Undirbúningur hófst í vikunni fyrir vinavikuna. Þá fóru að berast skókassar og varningur í þá frá heimilum nemenda og starfsfólks. Í vinavikunni var raðað í kassana og þeim pakkað inn. Til að nemendur myndu tengja enn betur við verkefnið var þeim sýnt myndband af því þegar skókassarnir eru afhentir. Gleðin og þakklætið sem skín af andlitum barnanna þegar þau fá gjafirnar er yndisleg.  Spurningarnar og umræðan sem fór af stað við að sjá myndbandið var áhugaverð og lærdómurinn af þessu verkefni mikill.

Allir bekkir skólans, frá 1. -10. bekk tóku þátt í verkefninu og fjöldi skókassa sem söfnuðust hjá okkur voru um 200. Í hverjum kassa er tannbursti, tannkrem, sápustykki, leikföng, fatnaður, sælgæti og skóladót. Nemendur röðuðu í kassana út frá kyni og aldri. Kassarnir verða sendir til Úkraínu. Þar búa 46 milljónir manna. Atvinnuleysið er mikið og ástandið víða bágborið. Íslensku skókössunum verður dreift á heimili fyrir munaðarlaus börn, á barnaspítala og til barna einstæðra mæðra sem búa við sára fátækt.

Jól í skókassa er alþjóðlegt verkefni sem felst í því gleðja börn sem lifa við fátækt, sjúkdóma og erfiðleika með því að gefa þeim jólagjafir. Gjafirnar eru settar í skókassa, hann skreyttur og merktur barni á ákveðnum aldri.

Ábendingagátt