Jólaævintýrið hefst í Hafnarfirði – tendrun ljósa og jólaþorp

Fréttir

Fyrstu helgina í desember hefjast jólin formlega í Hafnarfirði með opnun Jólaþorpsins og tendrun jólaljósa á Thorsplani. Jólaþorpið verður opið frá kl. 12-17 alla laugardaga og sunnudaga á aðventunni og stendur tendrunarhátíð yfir frá kl. 18 – 20 á föstudagskvöldið 30. nóvember.

Fyrstu helgina í desember hefjast jólin formlega í
Hafnarfirði með opnun Jólaþorpsins og tendrun jólaljósa á Thorsplani. Litlu
fagurlega skreyttu jólahúsin í Jólaþorpinu í Hafnarfirði eru orðin landsþekktur
söluvettvangur fyrir ýmiskonar gjafavöru, handverk og hönnun sem tilvalið er að
setja í jólapakkann ásamt gómsætu ljúfmeti til að borða á staðnum og eða taka
með heim á veisluborðið. Jólaþorpið verður opið frá kl. 12-17 alla laugardaga
og sunnudaga á aðventunni og stendur tendrunarhátíð yfir frá kl. 18 – 20 á
föstudagskvöldið 30.nóvember.


Jólaþorpið fagnar fimmtán ára afmæli í ár með veglegri dagskrá

Um helgina hefst jólaævintýrið í Jólaþorpinu á Thorsplani og
mun Strandgatan í Hafnarfirði iða af mannlífi og sannkölluðum jólaanda og
umbreytast í göngugötu á opnunartíma þorpsins. Jólasveinar koma auka ferð til
byggða til að bregða á leik með börnunum. Jólaþorpið í Hafnarfirði fagnar nú í
ár 15 ára afmæli með fjölbreyttri dagskrá þegar ljósin verða tendruð á
Cuxhaven-jólatrénu á föstudagskvöld. Jólatréð er gjöf frá vinabænum Cuxhaven í
Þýskalandi en í ár fagna vinabæirnir 30 ára samstarfsafmæli. Vinabæjarfélögin
hafa verið drifkraftur í samstarfi og samvinnu á sviði atvinnulífs, menningar,
íþrótta- og æskulýðs. Lúðrasveit Hafnarfjarðar og Karlakórinn Þrestir flytja
nokkur jólalög og boðið verður uppá brot af því besta sem er á dagskrá í
Bæjarbíó í desember þegar Friðrik Dór, Bubbi, Jóhanna Guðrún og Davíð
Sigurgeirsson taka lagið. „Í þessi 15 ár hefur Jólaþorpið stækkað að umfangi
og með árunum náð að heilla landsmenn alla og í auknu mæli ferðamennina sem
kjósa að sækja landið heim. Hafnfirðingar sjálfir eru líka farnir að nýta
tækifærið og vettvanginn til heimboða á aðventunni. Þannig hópast heilu
stórfjölskyldurnar og vinahóparnir í miðbæ Hafnarfjarðar, kíkja í búðir, á
listasýningu, í litlu jólahúsin eða söfn bæjarins gagngert til að hafa það
huggulegt á aðventunni“
segir Andri Ómarsson, verkefnastjóri Jólaþorpsins í
Hafnarfirði en hann heldur utan um dagskrá og framkvæmd Jólaþorpsins í
samstarfi við fjölda fyrirtækja, samtaka og einstaklinga. „Það skapast
alltaf einstök og heimilisleg jólastemning í miðbæ Hafnarfjarðar á aðventunni.
Hingað kemur fólk til að njóta, slaka og skemmta sér. Aukin áhersla var sett á
það í ár að vera með mikið af mat þannig að allir gætu fundið eitthvað við sitt
hæfi. Við munum m.a.  vera með lambakjöt beint frá býli í ýmsum útfærslum,
geitaosta og hollustuvörur úr íslensku hráefni og matarhandverk sem frumkvöðlar
hafa þróað og hágæða kaffi, te og kakó til að ylja sér á“
segir Andri.
Jólaþorpið í Hafnarfirði verður sem fyrr segir opið alla laugardaga og
sunnudaga frá kl. 12-17 á aðventunni.

Dagskrá fyrir hverja helgi er að finna hér:

Facebooksíðu Jólaþorpsins er að finna HÉR

Ábendingagátt