Af öllu hjarta þakkar Jólabærinn fyrir sig!

Fréttir

Nú á Þrettándanum – þrettánda og síðasta degi jóla – vill starfsfólk Hafnarfjarðarbæjar nota tækifærið og þakka innilega fyrir hlýlega og ánægjulega samveru á aðventunni og yfir jólahátíðina.

Nú á Þrettándanum – þrettánda og síðasta degi jóla – vill starfsfólk Hafnarfjarðarbæjar nota tækifærið og þakka innilega fyrir hlýja og góða samveru á aðventunni og yfir jólahátíðina. Hafnarfjörður hefur sjaldan verið eins hátíðlegur og fallegur og það fyrir samstillt átak allra; íbúa, fyrirtækja og starfsfólks. Sérstök athygli er vakin á því að vegna samkomutakmarkanna verða jólin ekki kvödd með þrettándagleði á Ásvöllum annað árið í röð.

181221_Jolathorpid_DJI-1

Best skreyttu húsin og best skreytta gatan 2021

Í vikunni fyrir jól voru veitt verðlaun fyrir best skreyttu húsin og bestu skreyttu götuna í Hafnarfirði. Enn og aftur fengu íbúar Furuvalla 13-25 verðlaunaskjöldinn fyrir best skreyttu götuna. Furuvellirnir eru sannkölluð jólastuðgata og ekki annað hægt en að komast í gott jólaskap að koma við í götunni. Þá fékk Lækjarhvammur viðurkenningu og hrós fyrir fallega skreytta götu í Hvömmunum og Svöluás 2 – 32 fékk viðurkenningu fyrir smekklega og fallega götu.

Hjartasvellið

Á aðventunni varð gamall draumur margra um skautasvell í heilsubænum Hafnarfirði að veruleika þegar Hjartasvellið opnaði í miðbænum í samstarfi við Bæjarbíó. Jólin hafa því breitt úr sér um allan miðbæinn og jólabærinn Hafnarfjörður skinið skærar en nokkru sinni og laðað að gesti alls staðar frá. Hjartasvellið hefur fengið góðar móttökur og 3.000 manns skellt sér á skauta frá því opnað var um miðjan desember. Hjartasvellið er frábær afþreying, upplifun og hreyfing fyrir alla fjölskylduna og verður a.m.k. opið út janúar og hægt að bóka skautaferð á hjartasvellid.is en frítt er í fyrstu ferðirnar alla virka daga.

IMG_1367

Ljósadýrð í Hellisgerði fram í febrúar

Ljósadýrðin í Hellisgerði mun lifa áfram fram yfir Vetrarhátíð sem fram fer fyrstu helgina í febrúar. Þessi leynda perla og lystigarður Hafnfirðinga hefur nú á aðventunni stimplað sig rækilega inn meðal landsmanna sem aðlaðandi garður til útivistar, samveru og upplifunar með fjölskyldu og vinum. Þessi gullfallegi garður, sem hefur til þessa verið mikið notaður af Hafnfirðingum og þá sér í lagi yfir vor- og sumartímann fyrir leik og nestisferðir, hefur að geyma margar sögurnar og minningarnar fyrir Hafnfirðinga og vini Hafnarfjarðar og hefur án efa skapað nýjar og góðar minningar þessa aðventuna bæði fyrir þá sem þekktu garðinn fyrir og þeirra sem voru að upplifa garðinn í fyrsta sinn. Þar risu nýlega tvö hlýleg og vinaleg gróðurhús beggja vegna Oddrúnarbæjar þar sem töfrum prýtt kaffihúsið Litla Álfabúðin hefur verið rekin frá árinu 2020. Þar er hægt að kaupa ilmandi kaffi, margar tegundir af spennandi tei, kökur og bakkelsi allar helgar í vetur.

Garðurinn okkar allra

Hellisgerði er garður og sameign allra Hafnfirðinga og vonir standa til þess að allir taki virkan þátt í að vernda og passa upp á þessa fallegu náttúruperlu og þá líka þá ljósadýrð sem opin er öllum næstu daga og vikur á meðan sól tekur að hækka á lofti. Njótum!

5O5A4245

Vinningshafar í laufléttum og snjöllum ratleik í Hellisgerði

Laufléttur og snjall ratleikur um Hellisgerði sem Hafnfirðingar og vinir Hafnarfjarðar á öllum aldri gátu tekið þátt í var endurtekinn í ár og sló rækilega í gegn, en 207 aðilar á aldrinum fjögurra mánaða til 58 ára voru skráðir til leiks! Það má með sanni segja að jólaandinn hafi svifið yfir bænum í ár og hvatt bæjarbúa og gesti til öruggrar samveru í hlýlegu – jafnvel töfrandi – umhverfi Hellisgerðis.

0K1A7424

Nú hefur Grýla gruggað í pottinum sínum og dregið út fjóra vinningshafa af handahófi úr réttum svörum og fá fjórir þátttakendur vinning, líkt og á síðasta ári. Vinningshafarnir fá að launum bókagjafir eftir aldri, en þeir eru á bilinu 9 til 22 ára og þegar hefur verið haft samband við vinningshafana.

Við þökkum öllum sem sóttu Jólaþorpið, jólaævintýrið í Hellisgerði og Hjartasvellið heim fyrir góðar stundir!

Ábendingagátt