Jólabærinn: Kakí og Kailash rótgrónar í Strandgötu

Fréttir Jólabærinn

Kakí og Kailash eru rótgrónar verslanir í Strandgötunni sem gaman er að heimsækja í aðdraganda jóla sem og aðra draga. Sagt er frá þeim í jólablaði Hafnarfjarðarbæjar.

Kakí og Kailash eru rótgrónar verslanir í Hafnarfirði

Steinunn Þorsteinsdóttir, eigandi Kakí, og Helga Einarsdóttir, eigandi Kailash, hafa lengi staðið vaktina í miðbæ Hafnarfjarðar. Þessar fataverslanir eiga sína dyggu viðskiptavini. Búðirnar eru í Strandgötu.

 

Kvenfatnaður, skart og ilmir í Kakí

„Það var draumur minn að opna verslun og hann rættist,“ segir Steinunn Þorsteinsdóttir, eigandi Kakí. Hún hefur rekið verslunina frá árinu 1995 og bíður spennt eftir jólavertíðinni, sem hefur breyst með Jólaþorpinu. Fleira fólk, meira líf, meira gaman.

„Ég ákvað að selja bílinn minn, kaupa föt og opna verslun þegar ég missti leiguhúsnæði á leið í nám til Noregs.“ Plönin breytt og hún lærði síðar Aroma-therapy í Bretlandi. Nú hannar hún rúmilmi úr ilmkjarnaolíum og selur í Kakí með fötum og skarti.

„Ég hef haft spreyin mín til sölu í sex ár. Hægt er að fá áfyllingar og það er vinsælt.“ Tilvalin jólagjöf sem og völuspákertin sem eru afar vinsæl á Íslandi um þessar mundir.

„Já, reksturinn hefur þróast í gegnum árin,“ segir Steinunn en Kakí sérhæfir sig í fatnaði frá París og Ítalíu fyrir konur á öllum aldri og opnunartíminn fylgir Jólaþorpinu.

 

Steinunn Þorsteinsdóttir hefur rekið Kakí allt frá árinu 1995 í Hafnarfirði. Síðustu 6 ár hefur hún einnig boðið rúmilmi sem hún hannar og framleiðir sjálf. Myndir/Óli Már

 

 

Upplifun að kíkja í Kailash

„Börn eru svo opin. Þau teyma foreldrana inn til okkar,“ segir Helga Einarsdóttir sem á og rekur verslunina Kailash með manni sínum Begga Morthens við Strandgötu 11 í Hafnarfirði. Hún lýsir því hvernig steinar og kristallar kalli á börnin. „Það er upplifun að koma til okkar.“

Vörur frá öllum heimshornum eru í Kailash, þó aðallega frá Nepal, Tíbet og Indlandi. Einnig íslenskar og þau hanna sjálf. Þar má finna hugleiðsluvörur, tarot-spil, orkusteina, reykelsi, olíur, ljós og fatnað. Verslunin hefur verið rekin frá árinu 2010 í Hafnarfirði og er einstök.

„Það er lífsstíll að reka Kailash,“ segir Helga sem horfir stóískt til jólanna, enda breyta þau vöruúrvalinu í versluninni ekki mikið fyrir þau, frekar en vor, sumar eða haust. „Við erum eins og Nepalinn, sem safnar bútum og saumar litla poka. Við förgum engu og vöndum hvert fótspor, bæði í lífinu og vöruvali,“ segir Helga og býður öll velkomin inn í hlýjuna úr Jólaþorpinu.

Helga Einarsdóttir og Beggi Morthens eiga Kailash. „Búðin er nefnd eftir heilögu fjalli í Tíbet sem þeir Beggi og Tolli bróðir hans gengu í kringum. Þetta er magnað fjall rétt eins og Helgafellið okkar.“

 

 

Jólablað Hafnarfjarðar 2024 – vefútgáfa:

Ábendingagátt