Jólablaðið – Úr boltanum í bakkelsið

Fréttir Jólabærinn Jólabærinn Tilkynningar

Aron Pálmarsson stendur vaktina í Jólaþorpinu í ár. Hættur í boltanum og kominn í bakkelsið. Hann hlakkar til að hitta alla þá Hafnfirðinga sem hafa staðið við bakið á honum í gegnum árin.

Jólabærinn Hafnarfjörður

Aron Pálmarsson stendur vaktina í Jólaþorpinu í ár. Hættur í boltanum og kominn í bakkelsið. Hann hlakkar til að hitta alla þá Hafnfirðinga sem hafa staðið við bakið á honum í gegnum árin. Greinin birtist í jólablaði Hafnarfjarðarbæjar.

„Já, þannig hefur það verið – og ekki síður Haukamenn en FH-ingar,“ segir Aron og lýsir nauðsynlegum rígnum milli félaganna og svo samstöðunni þegar komið er út fyrir bæjarmörkin. „Þá standa Hafnfirðingar saman. Ég elska þessa samheldni. Hún er mögnuð.“

Þessi handboltahetja, sem fékk kveðjuleikinn sinn í viðureign félaga sinna í FH og Veszprém í ágúst, hefur keypt Bæjarbakaríið af fjölskyldunni og rekur það. Þá hefur hann stigið sem rekstrarstjóri inn á fasteignamarkaðinn með nýjum hætti með fjárfestingarsjóðnum Aparta. Svo er hann faglegur ráðgjafi hjá handknattleiksdeild FH, er mentor. „Ég er til staðar ef fólk þarf á mér að halda.“

Hann er fjölskyldumaður, ólíkt því sem var þegar hann var árum saman einn frá 19 ára aldri í atvinnumennskunni erlendis. „Ég var með allan fókus á boltanum og leið vel einum.“

Ástarþræðir í gegnum lífið

Hafnfirðingur. „Já, í húð og hár,“ segir Aron sem hefur fest ræturnar aftur í Hafnarfirði og býr með æskuástinni Ritu Stevens. Börn saman og sér er þessi samsetta fjölskylda enn að skapa jólataktinn sinn.

„Netflix-saga,“ segir hann um það hvernig ástin hefur ratað til þeirra Ritu aftur og aftur. „Við vorum bæði í Setbergsskóla, kærustupar í 7. bekk og kærustupar fyrsta ár í framhaldsskóla. Svo bjó hún hjá mér í Þýskalandi í eitt og hálft ár frá 22 ára aldri.“ Eftir þann tíma hafi þau ekki heyrst í sex ár. „Við hittumst svo á förnum vegi árið 2020 og hér stöndum við,“ segir hann.

Handboltinn hafi þvælst fyrir ástinni – eða öfugt – fannst honum þegar þau voru ung. „Ég var bara með hugann við boltann. Hann var alltaf í fyrsta sæti.“ Það hafi breyst og þau gangi nú hönd í hönd.

Boltinn bauð rútínerað líf

Aron lýsir þaulskipulögðu handboltalífi. „Ég gat alltaf sagt hvar ég yrði allt árið. Núna er ákveðin áskorun að sjá sjálfur um hvar ég verð og hvað ég á að gera.“ Kominn á æskuslóðirnar þar sem æskuvinirnir eru með mótaðan starfsferil og fjölskyldur en hann hafi verið á byrjunarreit.

„Mér finnst enn skrítið að horfa í kringum mig og sjá að fólk fer ólíkar leiðir að sama markmiði,“ segir Aron. „En ég skil að leiðirnar séu mismunandi þótt ég kjósi ekki að fara auðveldustu leiðina.“ Metnaður og vinnusemi einkenni hann enn.

„Já, þessir eiginleikar hafa ekki horfið þótt boltinn sé búinn. Mér finnst alltaf að maður eigi að leggja mikið á sig, taka ábyrgð og ná takmarki sínu.“

En vinnur hann þá allt með hjartanu? „Nei, ég reyni að gera sem minnst með því og sem mest með hausnum,“ segir Aron og hlær. „Um leið og maður tekur stórar ákvarðanir út frá hjartanu getur maður blindast. Maður þarf að pæla í fortíð, nútíð og framtíð, sama hver ákvörðunin er. Tilfinningar. Alls ekki taka ákvarðanir út frá þeim,“ segir hann, brosir og hugsar sig um.

„En hjartað er alltaf hjá FH,“ segir hann. „Og Ritu, börnunum og jólunum með fjölskyldunni. Já, og svo stend ég í hjartanu sjálfu í Jólaþorpinu á aðventunni.“

    Jólablað Hafnarfjarðar 2025 – vefútgáfa:

     

    Myndatexti: Aron Pálmarsson og Rita Stevens hafa hreiðrað um sig á æskuslóðunum, bæði í Setbergsskóla sem börn og búa nú í Setberginu, rétt eins og þá.

     

     

     

     

    Ábendingagátt