Jólahugvekja bæjarstjóra

Fréttir

Birtist fyrst í Fjarðarfréttum 20. desember 

Þegar þessi orð eru rituð eru vetrarsólstöður. Dag fer nú að
lengja á ný, nýtt upphaf sem við tengjum þó oftast við gamlársdag og nýársdag.
Vetrarsólstöður virðast vera rauður þráður í mörgum trúarbrögðum. Þá er sigri
ljóssins fagnað, við höldum inn í enn eitt árið og enn einn hringinn í kringum
sólina og svona heldur lífið áfram. Öll él styttir upp, regnið og skammdegið
hörfa að vori fyrir sólinni sem öllu gefur líf. Rétt eins og það var áður en
nokkurt okkar fæddist og þannig mun það vonandi halda áfram sem lengst eftir
okkar daga.

Á ákveðnum aldri gerir maður sér grein fyrir því að áherslur
tengdar jólum hafa breyst. Tilhlökkunin yfir því að fá pakka hefur færst yfir í
það að fylgjast með börnunum sínum fá í skóinn og fá pakkana á aðfangadag og
jafnvel er maður kominn það langt að upplifa þetta orðið í gegnum barnabörnin og
börn sem koma manni alls ekkert við, en maður sér brosin og tilhlökkunina hvar
sem maður fer. Að gefa veitir manni þá orðið miklu meira en það að þiggja. Á sama
tíma gleðst maður þó mest yfir því að það sé kominn tími á annan hring, maður
sé enn þátttakandi í hringferðinni og ljósið sigri myrkrið enn einu sinni og neisti
vors og sumars sé tendraður enn á ný.

Í sigri ljóssins og þess að fá að fara annan hring felast
nefnilega þau óendanlega dýrmætu tækifæri að reyna að gera enn betur. Læra af
vegferðinni, bæði því sem vel var gert og ekki síst því sem miður fór. Enginn
er yfir það hafinn og engin fullþroska sál gerir sér þær væntingar að fara
fullkomlega í gegnum ár eða æviskeið án mistaka. Þroskinn felst í því að greina
á milli, læra og reyna að gera betur. Verða betri í dag en í gær. Þetta held ég
að flestir þekki og hafi upplifað með einum eða öðrum hætti og vægi þessara
gilda taki meira og meira pláss með hverju árinu sem maður lifir.

Í störfum mínum sem bæjarstjóri hef ég ásamt bæjarstjórnarfólki
verið að ganga í gegnum veturinn. Við höfum þurft að ganga í gegnum mögur
tímabil, tímabil aðhalds. Það hefur gengið þvert á alla málaflokka og tekist
hefur verið á um áherslur í því eins og eðlilegt er. Það er eðli stjórnmálanna
að takast á um málefnin og mælieiningar krónunnar. Sviðsstjórar allra
málaflokka vildu hafa meira til skiptanna til að sinna sínum brýnu verkefnum. En
þessi vinna hefur nú verið að skila sér og rétt eins og haustið og veturinn hörfa
erum við að komast á þann stað að geta hlakkað til nýs upphafs, nýs hrings í
kringum sólina.  

Ný fjárhagsáætlun fylgir nýju ári og í byrjun desember var
fjárhagsáætlun samþykkt í bæjarstjórn. Ber hún þess merki að það er að birta
til og nú er loks meira til skiptanna í brýn verkefni samfélagsins okkar. Þá er
það skylda okkar sem stýrum að gæta þess að vel sé farið með, málaflokkarnir
njóti allir góðs af og enginn verði út undan.

Í raun eru engin verkefni bæjarfélaga sem ekki flokkast sem brýn
með einum eða öðrum hætti. Þó eru líðan og velferð
barna og unglinga í forgrunni í nýsamþykktri fjárhagsáætlun.

Þegar kemur að málum
barna og unglinga með greiningar og/eða fjölþættan vanda hefur mér fundist sem
einstaklingi að við sem samfélag höfum heilt yfir brugðist. Ríki og sveitarfélög
hafa þannig staðið hálf úrræðalaus gagnvart málaflokknum. Frá þessu eru þó
undantekningar þar sem gripið hefur verið snemma inn í þannig að viðkomandi
hefur átt farsælt líf. Allt of oft höfum við hins vegar brugðist algjörlega sem
samfélag, þar sem ramminn sem reynt er að vinna eftir ræður ekki við eða
viðurkennir ekki umfang vandans. Afleiðingarnar fyrir viðkomandi og
aðstandendur verða þrautaganga sem oft hefur endað með skelfingu.  

Þessi málaflokkur hefur snert mig og þannig hef ég fengið innsýn
í hann bæði frá sjónarhóli stjórnanda hjá sveitarfélögum og frá sjónarhóli
þeirra sem eru að vinna með einstakling sem var ófær um að bjarga sér sjálfur.
Við höfum lofað að gæta samferðamanna okkar sem fæðast þannig eða veikjast; að
þeir geti treyst á okkur hin til að gæta þeirra og vernda.

Þess vegna er ég glaður á þessum tímamótum, þegar sól fer að
hækka á ný og áramót ganga í garð, að fá tækifæri til að leggja upp í annan
hring með nýjar áherslur, meðal annars í þessum málaflokki. Í fjárhagsáætlun
fyrir nýtt ár höfum við fengið tækifæri til þess að gera betur fyrir þennan
málaflokk, sem gæti verið upphafið að því að verða öðrum til fyrirmyndar. Við
náðum þeim markmiðum í ár með jafnlaunavottun, af því að hún var sett á oddinn
fyrir nokkrum árum, og þess vegna er ég vongóður fyrir hönd skjólstæðinga
bæjarins í þessum viðkvæma málaflokki.

Kæru vinir, fögnum nýju upphafi, fögnum því að fá ný tækifæri,
vefjum ættingja, vini og samferðamenn hlýju og umhyggju og njótum jóla og
áramóta.

Guð gefi ykkur gleðileg jól og farsæld á komandi ári. 

Haraldur L. Haraldsson, bæjarstjóri 

Ábendingagátt