Jólahugvekja bæjarstjóra Hafnarfjarðar

Fréttir

Við áramót lítur maður yfir farinn veg og er mér efst í huga þakklæti. Þakklæti fyrir góðan stuðning, þakklæti fyrir samheldni og samhug íbúanna og annarra sem skapa okkar einstaka bæjarbrag, þakklæti til starfsmanna bæjarins fyrir fagmennsku og ósérhlífni en þakklæti fyrst og fremst fyrir það góða samfélag sem Hafnarfjörður er.

Birta, hlýja og kærleikur

Nú er jólahátíðin að renna upp og mild jólaljósin falleg sem aldrei fyrr. Jólaljósin minna okkur á boðskap jólanna; að opna hjarta sitt fyrir mildi og náungakærleik. Jólin eru tími til að njóta stundarinnar með þeim sem manni þykir vænst um, gefa af sér og þiggja gjafir sem felast ekki síst í samveru og hlýju. Eitt fallegt bros getur dimmu í dagsljós breytt, það finnum við svo innilega í aðdraganda jóla. Dýrmætasta gjöfin kostar ekkert, hún er falleg orð og kærleikur.

Á þessum árstíma hugum við sérstaklega að þeim sem minna mega sín, hafa misst ástvini, glíma við veikindi eða halda jól í skugga áfalla. Því fylgir sérstök tilfinning að geta lagt lið þar sem mest er þörfin, að sýna samhug og stuðning getur falist í fallegum orðum eða heimsóknum – að gefa sér tíma til að gefa af sér. Það eru fallegustu jólagjafirnar.

Jólaljósin laða að

Hafnarfjarðarbær stendur undir nafni sem hlýlegur jólabær og einstök stemning hefur ríkt í bænum okkar á aðventunni. Sífellt fleiri laðast að fallegum ljósunum í miðbænum, Jólaþorpinu, Hellisgerði og við Hjartasvellið. Gestir streyma að til að njóta vinalegs andrúmsloftsins, lista og menningar og ljúfra veitinga á kaffi- og veitingastöðunum okkar og rölta á milli fallegu verslananna.  Mannlífið blómstrar og ljúfar minningar, um samveru og notalegheit, verða til. Þannig viljum við hafa bæjarbraginn okkar. Ég vil færa ykkur kæru bæjarbúar hjartans þakkir fyrir viðtökurnar og ykkar þátttöku í að skapa þessa góðu stemningu.

Þakklæti og nýjar vonir

Við áramót lítur maður yfir farinn veg og er mér efst í huga þakklæti. Þakklæti fyrir góðan stuðning, þakklæti fyrir samheldni og samhug íbúanna og annarra sem skapa okkar einstaka bæjarbrag, þakklæti til starfsmanna bæjarins fyrir fagmennsku og ósérhlífni en þakklæti fyrst og fremst fyrir það góða samfélag sem Hafnarfjörður er.

Framundan er nýtt ár, ný tækifæri og nýjar væntingar og vonir.

Ég hlakka til að takast á við þau verkefni sem nýja árið færir okkur – með jákvæðni og gleðina í farteskinu getum við saman haldið áfram að gera góða hluti bænum okkar til heilla.

Ég óska ykkur öllum gleðilegra jóla og farsældar á nýju ári.

Rósa Guðbjartsdóttir
Bæjarstjóri Hafnarfjarðar

 

Ábendingagátt