Jólahugvekja bæjarstjóra

Fréttir

Á þessum tíma árs vakna upp og bærast í brjósti miklar tilfinningar. Tilhlökkun yfir því sem koma skal, þakklæti fyrir það liðna og ást í garð fjölskyldu og vina. Enn eitt árið er við það að kveðja. Það hefur lagt inn í lífsbankann ákveðna reynslu, þroska og upplifun á því sem lífið og tilveran hefur upp á að bjóða. 

Uppgjör, þakklæti og eftirvænting

Á þessum tíma árs vakna upp og bærast í brjósti miklar tilfinningar. Tilhlökkun yfir því sem koma skal, þakklæti fyrir það liðna og ást í garð fjölskyldu og vina. Enn eitt árið er við það að kveðja. Það hefur lagt inn í lífsbankann ákveðna reynslu, þroska og upplifun á því sem lífið og tilveran hefur upp á að bjóða. Sum ár eru farsælli og gleðilegri en önnur, á meðan hin litast stundum af veikindum, ástvinamissi eða öðrum áföllum sem oft getur reynst erfitt að vinna úr. Öllum þessum tilfinningum verðum við að hlúa að og finna leiðir til að læra listina að lifa og njóta á nýjan leik.

Aðventan ævintýri líkust

Aðventan er að mörgu leyti tímabil þar sem allt litróf lífsins endurspeglast í umhverfinu og í fólkinu. Á sama tíma og aðventan er hátíð ljóss og friðar, gleði og tilhlökkunar þá gæti hún verið ansi myrk og kuldaleg ef ekki væri fyrir jólaljósin, tónlistina, leikgleðina og öll þau ljós og þá von sem býr í brjósti hvers og eins. Jólahátíðin sameinar fjölskyldur og vini og er sönn hátíð hefða og samveru. Þegar uppi er staðið þá er það einmitt samveran og það að njóta í núinu sem skiptir mestu máli. Það er öllum lífsnauðsynlegt að staldra við, draga andann, njóta verkefnanna og sækja orku inn á við og í samveru og félagsskap annarra. Allt þetta endurspeglast svo listavel í hafnfirsku samfélagi. Íbúarnir sem bæinn okkar byggja eru einstakir, samstarfið mikið og samhugurinn eftirtektarverður.

Aðventan með Hafnfirðingum og vinum Hafnarfjarðar hefur verið ævintýri líkust, notaleg jólastemningin hefur myndast um allan bæ, mannlífið æ fjölskrúðugra í miðbænum. Stórir hópar sem leitast við að njóta lista og menningar, öflugs tónlistarlífs, vinalegs andrúmslofts í Jólaþorpinu og ljúfra rétta á veitinga- og kaffihúsum með fjölskyldu og vinum með það fyrir augum að skapa minningar um innilega og góða samveru, laus við eril hversdagsins.

Samstarfsfélögum mínum hjá Hafnarfjarðarbæ færi ég hugheilar og hlýjar hátíðarkveðjur með innilegu þakklæti fyrir samstarfið á árinu sem senn kveður. Hafnfirðingum og vinum Hafnarfjarðar sendi ég mínar bestu óskir um góð og gleðileg jól og farsæld á nýju ári.

IMG_9682

Sem bæjarstjóri Hafnarfjarðar horfi ég full tilhlökkunar til komandi árs og trúi því að aukið samstarf allra hlutaðeigandi, samhugur og snjallheit muni skila enn betra samfélagi, enn skemmtilegri Hafnarfirði og enn betri þjónustu.

Rósa Guðbjartsdóttir
bæjarstjóri Hafnarfjarðar

Ábendingagátt