Jólaþorpið í 22 ár

Fréttir Jólabærinn

„Ég finn að Hafnfirðingar eru stoltir af Jólabænum og Jólaþorpinu á Thorsplani,“ segir Sunna Magnúsdóttir, verkefnastjóri Jólaþorpsins sem orðið er 22 ára.

Úr jólablaði Hafnarfjarðarbæjar

„Ég gæti ekki verið ánægðari með þróun Jólaþorpsins. Helgum hefur fjölgað og opið er lengur á daginn. Fólk dvelur lengur í Jólaþorpinu enda hefur úrvalið aukist,“ segir Sunna Magnúsdóttir verkefnastjóri Jólaþorpsins sem orðið er 22 ára. Greinin birtist í jólablaði Hafnarfjarðarbæjar.

„Ég finn að Hafnfirðingar eru stoltir af Jólabænum og Jólaþorpinu á Thorsplani,“ segir Sunna og hvernig heimsókn í þorpið sé orðin hefð í lífi meginþorra hafnfirskra fjölskyldna enda mörg leikskólabörn Hafnarfjarðar skreytt trén á Thorsplani með föndri sínu.

„Hér hafa hundruð hafnfirskra barna tekið þátt í undirbúningnum. Þau eiga öll hlut í þessari jólahefð og þorpinu okkar,“ segir hún.

Hátt í fimmtíu verslanir og þjónustufyrirtæki standa vaktina í Jólaþorpinu í aðdraganda jóla, allt frá barnavörum, handverki og jólaskrauti að matvöru, sætindum, náttúruvörum. „Hægt er að klára innkaupin í Jólaþorpinu og verslunum í kring. Hingað má sækja jólailminn og stemninguna og stinga upp í sig bita og njóta,“ segir þessi þriggja barna móðir sem er upptekin á aðventunni.

„Já, börnin mín finna mig einmitt í Jólaþorpinu í rauðu. Það er jólahefðin þeirra að heyra mig leggja drög og raða saman jólunum í Jólaþorpi Hafnarfjarðar allt frá ágústmánuði.“

    Jólablað Hafnarfjarðar 2025 – vefútgáfa:

     

    Myndatexti:

    Sunna Magnúsdóttir stýrir nú Jólaþorpinu í þriðja sinn. Börnin hennar þrjú eru orðin vön því að tala um jólin frá því í ágúst. Jólaþorp Hafnarfjarðar er 22 ára.

    Systur, makar, popp og lukkuhjól

    Hver dagur er einstakur í glerhúsunum á Thorsplani á meðan að Jólaþorpið er opið.

    Stundum verða þar verslanir sem margur þekkir, eins og Garnbúð Eddu með pop-up markað sem og Kjötkompaní. Aðra daga verða íslenskar handgerðar gærur og vörur sem gaman er að virða fyrir sér. Trefjar verða einnig með eldstæðin sín.

    Þá munu Systur og makar koma sér fyrir í öðru glerhúsanna en verslunin er rómuð fyrir frábæra smávöru og þar verður hægt að redda jólakjólnum.

    Já, glerhúsin verða ævintýri út af fyrir sig í Jólaþorpinu. Endilega kíkið við um leið og þið njótið samverunnar í hjarta Hafnarfjarðar.

     

    Ábendingagátt