Jólaþorpið í Hafnarfirði aldrei stærra

Fréttir Jólabærinn

Vel yfir 60 þúsund hafa komið í Jólaþorpið í Hafnarfirði þessa aðventuna. Síðasti dagur þessara sex helga stendur nú yfir – Þorláksmessa.

Yfir 60 þúsund heimsóknir

Vel yfir 60 þúsund hafa komið í Jólaþorpið í Hafnarfirði þessa aðventuna. Síðasti dagur þessara sex helga stendur nú yfir – Þorláksmessa. „Við erum í skýjunum með móttökurnar í ár,“ segir Valdimar Víðisson bæjarstjóri.

„Hér hefur verið fullt af fólki allar helgar frá því um miðjan nóvember og stemningin í senn skemmtileg og hátíðleg. Hér mæta allir í góðu skapi og fara heim í sannkölluðu jóla- og hátíðarskapi.“

Jólaþorpið í Hafnarfirði hefur vaxið og dafnað og starfað í 22 ár. Þetta er í fyrsta sinn sem gestafjöldinn er talinn á Thorsplani. Sunna Magnúsdóttir, verkefnastjóri Jólaþorpsins, segir þó alveg ljóst að aldrei hafa fleiri sótt bæinn heim.

„Talningin er aðeins inn á torgið, en svæðið er svo miklu stærra. Uppselt hefur verið á Hjartasvellið dag eftir dag. Stríður straumur hefur verið í Hellisgerði og stundum skrúðgöngustemning úr Jólaþorpinu í þennan listigarð okkar,“ segir Sunna, en þar hefur nýtt kaffihús verið opnað. Sunna sér stækkunina ekki aðeins á teljurunum. „Við sjáum þetta líka á sorpinu. Við erum stöðugt að tæma tunnurnar.“

Hún segir ljóst að fólk er að njóta samverunnar í hjarta Hafnarfjarðar. „Yfir 2000 lítrar af heitu súkkulaði hafa runnið niður kverkar gesta okkar,“ segir Sunna.

„Það hefur verið ævintýralegt að fylgjast með vextinum. Við höfum hingað til verið svo heppin með veður, þótt við sem búum á Íslandi vitum að veðrið má klæða af sér. Svo býr lognið á Thorsplani.“

Sunna segir Jólaþorpið hafa fengið liðstyrk í nýjum Firði. „Það er tilvalið að kíkja síðustu metrana fyrir jól í nýuppgerðan Fjörð, fara um Strandgötuna og drekka í sig jólin á Thorsplani þar sem Húbbabúbba og Svala skemmta á síðasta deginum þessa síðustu helgi Jólaþorpsins.“

  • Jólaþorpið er opið milli kl. 13-21 í dag, Þorláksmessu.

Gleðileg jól.

 

Ábendingagátt