Jólin hreiðra um sig í Bæjarbíói

Fréttir Jólabærinn

Hjartasvellið, Jólahjartað og Jóli Hólm. Allt eru þetta viðburðir á vegum Bæjarbíós fyrir þessa aðventu.

Fjölbreytt dagskrá Bæjarbíós

Já, Bæjarbíó leikur stórt hlutverk í aðdraganda jólanna í Hafnarfirði. Jólahjartað á bakvið Bæjarbíó hefur fest sig í sessi. „Það er upphitað tjald með heitum og köldum drykkjum og skemmtilegri samveru,“ segir Páll Eyjólfsson rekstrarstjóri Bæjarbíós. Hátíðarstemning.

„Jólabjórinn, kakó, drykkir og gestir Jóla Hólm hafa komið þar fyrir og eftir sýningu og notið samverunnar. Þetta er skemmtileg viðbót við stemninguna í jólabænum.“ Já, glögg og jólatónlistin ómar undir í hátíðartjaldinu.

Hjartasvellið fyrir framan bókasafnið

Hjartasvellið hefur fest sig í sessi í Hafnarfirði. Þetta 200 fermetra skautasvell, sem rekið er af Bæjarbíói í samstarfi við Jólabæinn Hafnarfjörð, var fyrst opnað á aðventunni 2021.

Þúsundir gesta hafa notið þess að skauta í hjarta Hafnarfjarðar í aðdraganda jólanna síðan þá. Fyrstu í ár geta skautað fimmtudaginn 15. nóvember og fá þeir skauta og hjálma á staðnum.

Hjartasvellið stendur framan við Bæjarbíó á bílastæði Bókasafns Hafnarfjarðar. Nái kuldinn að kæla litla kroppa er afar gott að setjast inn á bókasafnið með góða bók eða á Súfistann sem er í elsta steinhúsi bæjarins og fá sér heitt kakó.

Já, skautasvellið er frábær afþreying fyrir fjölskyldufólk. Kaupa má miða á svellið á hjartasvellid.is.

 

Opnunartími:

–          Fimmtudaga og föstudaga frá kl. 16-22

–          Laugardaga frá kl. 12-21

–          Sunnudaga frá kl. 12-19

 

Jóli Hólm skemmtir þúsundum gesta

Skemmtikrafturinn og eftirherman Sóli Hólm mætir nú þriðja árið í röð í Bæjarbíó með jólaskemmtunina Jóla Hólm.

Á undanförnum tveimur árum hafa um tuttugu þúsund manns lagt leið sína í Bæjarbíó á aðventunni til að komast í einn allra skemmtilegasta jólagírinn hér á landi.

Jóli Hólm er orðinn órjúfanlegur hluti af jólaundirbúningi svo margra sem fara jafnvel út að borða á veitingastaðnum Sól í tengslum við sýninguna eða setjast í aðventutjaldið við Bæjarbíó fyrir eða eftir sýningu — nú eða rölta um Jólaþorpið.

Já, það eru margir afar góðir veitingastaðir í Hafnarfirði. Hefur þú farið á Von mathús, A. Hansen eða Rif? Það má sko lengja gleðina sem Sóli Hólm veitir með því að snæða góðan mat á frábærum veitingastöðum Hafnarfjaðrar.

 

 

Jólablað Hafnarfjarðar 2024 – vefútgáfa:

Ábendingagátt