Opnunarhátíð Köldu ljósanna 13. desember – Öll velkomin

Fréttir Jólabærinn

Byggðasafn Hafnarfjarðar bregður sér í jólabúninginn og býður öllum fjölskyldum að taka þátt í fjölbreyttri dagskrá safnsins yfir hátíðarnar. Nú 13. desember kl. 17 er öllum boðið að vera við opnun sýningarinnar Köldu ljósin í Hafnarfirði 1904 í undigöngunum við Hörðuvelli.

Jólin á byggðasafninu okkar

Byggðasafn Hafnarfjarðar bregður sér í jólabúninginn og býður öllum fjölskyldum að taka þátt í fjölbreyttri dagskrá safnsins yfir hátíðarnar.

Nú 13. desember kl. 17 er öllum boðið að vera við opnun sýningarinnar Köldu ljósin í Hafnarfirði 1904 sem fjallar um  það þegar fyrstu húsin í Hafnarfirði voru raflýst fyrir 120 árum síðan. Sýningin verður opnuð með viðhöfn í glerskálanum í undirgöngunum við Hamarskotslæk. Rósa Guðbjartsdóttir bæjarstjóri flytur stutt ávarp.

Jóhannes Jóhannesson Reykdal reisti stöðina við Hörðuvelli. Hann reisti rafstöðina einn og óstuddur og sá um rekstur hennar til ársins 1909. Þá keypti Hafnafjarðarbær rafstöðina. Hátíð Hamarskotslækjar, í minningu hans, er svo haldin um helgina. Sjá nánar hér.

Við mælum með að allir klæði sig eftir veðri þar sem opnunin er utandyra. Best er að fá stæði við Hörðuvallaleiksskóla og koma þeim megin að undirgöngunum. Verið velkomin!

 

Annað áhugavert á Byggðasafninu í aðdragaganda jóla:

  • Í Pakkhúsinu er þemasýningin Þorp verður bær. Sagt er frá þróun Hafnarfjarðar á árunum 1960 til 1975. Gestum gefst tækifæri til að kíkja inn í stofu þess tíma þar sem jólatónlistin mun óma frá vínylplötuspilaranum.
  • Einnig er sýningin Þannig var… á sínum stað í Pakkhúsinu sem fjallar um sögu Hafnarfjarðar frá landnámi til okkar daga. Á efstu hæð hússins er svo sívinsæla leikfangasýning safnsins. Hún er sérstaklega miðuð að börnum.
  • Beggubúð verður að sjálfsögðu upplýst með jólaljósum og fallegum jólaskreytingum í glugganum sem alltaf er hægt að dást að þegar gengið er í gegnum portið bak við Pakkhúsið.
  • Á aðventunni mun jólasveinninn heilsa upp á börnin í Sívertsens-húsinu í samvinnu við leikskóla bæjarins og mun starfsfólk Byggðasafnsins segja gestum frá því hvernig jólin voru haldin fyrr á tímum.

Opið verður allar helgar frá kl. 11:00 – 17:00 og frítt inn eins og allt árið um kring.

 

Nánar að Köldu ljósunum

Sýningin fjallar um þau tímamót þegar fyrsta almenningsrafveitan á Íslandi var tekin í notkun í Hafnarfirði árið 1904. Til er áhugaverð lýsing á upphafi rafvæðingar Íslands eftir Gísla Sigurðsson sem hann ritaði eftir frásögn Árna Sigurðssonar, fyrsta rafvirkja landsins. Þar segir meðal annars.

„Kvöld nokkurt fyrst í desember 1904 var óvenju mikið um mannaferðir um stígana í Hafnarfirði. Þar voru á ferð fólk á öllum aldri, menn og konur, karlar gamlir og kerlingar, strákar og stelpur. Allt átti þetta fólk brýnt erindi að litlum skúr er var áfastur „Timburverksmiðju“ Jóh. J. Reykdals er stóð ofanvert við Moldarflötina sunnan Hafnarfjarðarlækjar. Allur stóð þessi skari framanvert við skúrinn og þrengdi sér í dyrnar. En á gólfinu stóð eins margt manna og inn gat komist og raðaði sér umhverfis sérkennilegan hlut:

„Fyrstu rafljósavélina er hingað kom til Íslands“. /…/ Rafallinn átti að vera í sambandi við vatnshjól það, er verksmiðjan var rekin með. Svo var vatnshjólið sett í gang. Þá var tekið í sveif og reim færð yfir á skífu og um leið fór rafallinn að snúast, og um leið skeði undrið mikla. Í lítilli glerkúlu er hékk úr lofti skúrsins tóku að birtast logandi þræðir, daufir í fyrstu en smáskýrðust þar til þeir loguðu með hinni skærustu birtu.“

 Forsaga þessa máls var sú um sumarið 1904 sigldi Jóhannes Reykdal til Noregs og keypti þar 9 kw. rafal sem hann tengdi við ás hverfilsins sem hann hafði notað við trésmíðavélarnar. Jóhannes fékk nýútskrifaðan rafmagnsfræðing, Halldór Guðmundsson, til að hafa umsjón með verkinu og lagningu rafmagnslína til valinna húsa í bænum en Árni Sigurðsson trésmiður, og síðar fyrsti rafvikri landsins, annaðist raflagnir innanhúss. Heimildir eru nokkuð á reyki um fjölda þeirra húsa sem fengu rafmagn í desember byrjun árið 1904, sumar heimildir segja að settir hafi verið upp fjórir ljósastaurar og rafmagn leitt í 16 hús en aðrar telja að húsin hafi verið eitthvað færri.

 

Jólablað Hafnarfjarðar 2024 – vefútgáfa:

 

Ábendingagátt