Jólin koma með Jóla Hólm

Fréttir Jólabærinn

Sóli Hólm hefur aldrei sýnt oftar í Bæjarbíói en fyrir þessi jól. Alls 41 sýning og sú síðasta á Þorláksmessu. Annasamt hefur verið hjá Sóla og fjöldi sjónvarpssería liggur eftir hann.

Jólin í Hafnarfjarðarbæ

„Sef í unglingaherberginu. Það er allt undir,“ segir Sóli Hólm í jólablaði Hafnarfjarðarbæjar. Hann segist alltaf vera í hleðslu á milli sýninga og vera eins og zombie á heimilinu til að passa að næla sér ekki í neina veiru.

Aftur og aftur ár eftir ár? „Já, en alltaf nýtt prógramm, auðvitað. Þannig verður það að vera,“ segir Sóli og lýsir því hvernig þeir Halldór Smárason leggi allt upp úr upplifuninni.

„Ég er ekki að gera eingöngu grín að jólunum ár eftir ár. Það væri fljótt að þorna,“ segir hann um hvernig árin séu gerð upp. Mismikið er á gangi í þjóðfélaginu milli ára sem kalli þá bara á meiri sköpunargleði. „Það er áskorun sem ég tek fegins hendi. Virkja heilann. Svo er Jóli Hólm ekki beint einhver annáll. Ég geri bara það sem mér finnst fyndið og skemmtilegt,“ segir hann.

Margt er í pípunum hjá Sóla. Hann hefur skrifað fimm sjónvarpsseríur frá árinu 2023 og segir að alltaf sé hægt að skrifa um flottar týpur. Hann eigi örugglega góð 20 ár eftir í handritabransanum.

„Við bíðum eftir svari hvort við förum í aðra seríu af Brjáni sem var á Sýn. Ekki verða fleiri þættir af Iceguys en kannski bíómynd,“ segir hann sposkur. Sjálfur komi hann minna fram en áður yfir árið.

„Það er af tillitssemi við fólk. Það verður að geta hlakkað til jólanna. Þú færð þér ekki hamborgarhrygg á hverjum degi en hann er frábær í hófi. Ég held að það sé svipað með mig,“ segir hann og hlær og viðurkennir að það sé forréttindastaða að geta staðið ár eftir ár í Bæjarbíói fyrir fullu húsi.

„Það er sérstök tilfinning þegar við Halldór erum að klára törnina og ég veit að sýning þess árs verði aldrei aftur flutt. Þá kemur tregi yfir því að þetta sé á enda og ég fer að sakna Halldórs og samverunnar í desember. Við erum eins og tvíburar í móðurkviði meðan á törninni stendur.“

Myndatexti: Sóli hefur aldrei sýnt oftar í Bæjarbíói en fyrir þessi jól. Það verður 41 sýning og sú síðasta á Þorláksmessu. Annasamt hefur verið hjá Sóla og fjöldi sjónvarpssería liggur eftir hann.

Jólablað Hafnarfjarðar 2024 – vefútgáfa:

 

 

Hjartasvellið 100% vistvænt og 100% skemmtilegt

200 fermetra skautasvell bíður Hafnfirðinga og gesta milli Bókasafns Hafnarfjarðar við Strandgötu og Barböru, gegnt Bæjarbíói, eins og síðustu ár.
Hjartasvellið er 100% vistvænt þar sem hvorki vatn né rafmagn er notað til að frysta það. Svellið er byggt á sérhönnuðum gerviísplötum sem hafa sömu eiginleika og venjulegur ís. Frábær afþreying, upplifun og hreyfing fyrir alla fjölskylduna.

Pláss er fyrir allt að 30 í einu á svellinu. Á meðan einn hópur svífur um ísinn geta þau sem bíða tekið þátt í ratleik Hafnarfjarðar þar sem þau kynnast bænum okkar á nýjan og spennandi hátt.

Já, njótum jólanna í hjarta Hafnarfjarðar.

Afgreiðslutími Hjartasvellsins
• Föstudaga frá kl. 17-20
• Laugardaga frá kl. 13-20
• Sunnudaga frá kl. 13-18
• Mánudaginn 22. desember frá kl. 17-20
• Þorláksmessu frá kl. 13-21

Jólahjartað á bak við Bæjarbíó

Jólahjartað, tjaldið á bak við Bæjarbíó, er systurhátíð Hjarta Hafnarfjaðrar,“ segir Páll Eyjólfsson, rekstrarstjóri Bæjarbíós.
„Við hvetjum fólk til að koma og njóta samverunnar, fá sér jafnvel jólahumarsúpuna frá Tilverunni. Við bjóðum upp á fljótandi veitingar fyrir fullorðna fólkið.“
Hátt í 60 þúsund heimsóttu Hjarta Hafnarfjarðar í sumar. „Jólahjartað er litla systir sumarhjartans. Sama góða stemningin,“ segir Palli.
„Gott er að staldra við og hlýja sér eftir veru í Jólaþorpinu í stofuhita. Svo má stökkva aftur í þorpið og halda áfram að njóta. Jólahjartað er gleðilegur áningarstaður mitt á milli Jólaþorpsins og Hellisgerðis.“
• Opið frá klukkan 17 til 22 fimmtudaga, föstudaga og laugardaga.

Ábendingagátt