Jólin „uppseld“ á Byggðasafninu í ár 

Fréttir

624 sykurpúðar voru grillaðir í boði Bókasafnsins á varðeldi á Byggðasafnstorginu í aðdraganda jóla. Björn Pétursson bæjarminjavörður fer yfir hápunkta ársins 2025 og segir jólin hafa selst upp á safninu í ár.

„Jóladagskráin í Sívertsen-húsi fyrir leikskólana hefur alltaf verið vel sótt en aldrei hefur verið eins mikil aðsókn í þessa dagskrá og árið 2025,“ segir Björn Pétursson bæjarminjavörður beðinn um að nefna hápunkt ársins 2025.  

„Það var „uppsellt“ í ár og færri komust að en vildu. Það voru 32 leikskólahópar sem komu í heimsókn í Sívertsen-hús á sex dögum, eða 545 börn og 106 leikskólakennarar.“ Já, jólin hafi verið sykursæt á safninu. 

„Svo má bæta því við til gamans að í jólamánuðinum voru 624 sykurpúðar grillaðir í boði safnsins á varðeldi á Byggðasafnstorginu.“ 

Björn segir að aðsóknin á safninu, sýningum og viðburðum hafi verið mjög góð árið 2025. 

Fjöldi sýninga fengu að njóta sín.  

  • Byggðasafnið setti upp nýja þemasýningu í Pakkhúsi, sýningin ber heitið „Ávallt viðbúin, skátastarf í 100 ár“ Þar er gerð grein fyrir fjölbreyttu starfi skátanna í Hafnarfirði og þann veigamikla sess sem þeir hafa skipað í tómstundum barna og unglinga í bænum undanfarna öld. 
  • Ný sýning var sett upp á Strandstígnum fyrir 1. júní:  Íþróttabærinn Hafnarfjörður -Svipmyndir frá 1900 – 1980. Þar eru sýndar 54 ljósmyndir á 24 skiltum.
  • Tvær nýjar sýningar voru settar upp í Hellisgerði. Þar er búið að koma fyrir varanlegum skiltum. Byggðasafnið kemur svo til með að skipta um sýningar nokkru sinnum á ári. Fyrri sýningin var um 100 ára sögu KFUM og KFUK í Kaldárseli og sú síðari, sem sett var upp í nóvember, fyrir opnun jólaþorpsins var um íslenskar jólahefðir. 
  • Þá var sett upp lítil sýning á girðingunni við leikskólann á Hörðuvöllum, sýninguna „Dagheimili á Hörðuvöllum í 90 ár“ á vormánuðum.  

Björn fer einnig yfir að safninu berist fjöldi gjafa frá bæjarbúum á hverju ári sem stækki safnkost þess og styrki. „Alls 50 gjafir, bæði munagjafir og ljósmyndagjafir, bárust safninu á árinu 2025. Í hverri gjöf voru oft nokkur fjöldi gripa,“ segir hann.  

Björn nefnir sérstaklega að á árinu 2025 hafi svo verið undirritaður samningur var við Kirkjugarð Hafnarfjarðar um að gera upp gamla líkbílinn sem er einn af munum safnsins. „Líkvagninn er af gerðinni Ford frá árinu 1938 og er hann með yfirbyggingu úr tré smíðuð af Hauki Jónssyni og með útskurði eftir Ríkharð Jónsson myndskera,“ segir hann.  

„Líkvagninn var í eigu Hauks Jónssonar trésmíðameistara og þjónaði sem líkvagn fyrir Hafnfirðinga í um 30 ár, frá árinu1938.“ En safnið hugaði einnig að öðrum gripum úr fortíðinni.  

„Trillan „Helgi Nikk“ sem jafnan stendur á Byggðasafnstorginu fór í mikla yfirhalningu í desember og verður því aftur glæsileg á torginu fyrir utan safnið næsta sumar.“  

En hvað fannst honum svo skemmtilegast. „Ætli það hafi ekki verið vel heppnað málþing um varðveislu trébáta var haldið í Ægi 220,“ segir hann.  

„Þetta var skemmtilegt samstarfsverkefni byggðasafnsins með Byggðasafni Reykjanesbæjar og Byggðasafninu á Garðskaga sem haldið var 30. september. Góð mæting var á málþingið og greinilega þörf fyrir umræðu um málefnið. Nokkrir gestir lögðu á sig tæplega 1000 km ferðalag til að geta tekið þátt í málþinginu. 

Ábendingagátt