Jónína Guðnadóttir – Vörður í Hafnarborg

Fréttir

Sunnudaginn 12. apríl kl. 14 gefst gestum Hafnarborgar tækifæri til að kynnast áhugaverðum ferli Jónínu Guðnadóttur (f. 1943) myndlistarmanns.

Sunnudaginn 12. apríl kl. 14 gefst gestum Hafnarborgar tækifæri til að kynnast áhugaverðum ferli Jónínu Guðnadóttur (f. 1943) myndlistarmanns. Jónína hefur búið og starfað í Hafnarfirði í tæpa fjóra áratugi og meðal annars rekið vinnustofu þar sem hún hefur unnið bæði nytjagripi og listaverk.

Sýndar verða myndir af verkum frá öllum ferlinum og munu Pétrún Pétursdóttir og Ólöf K. Sigurðardóttir ræða við listakonuna um ferilinn og þær hugmyndir sem liggja að baki verkunum.

Ferill Jónínu hófst upp úr miðjum sjöunda áratugnum en þá hafði hún lagt stund á myndlistarnám við Myndlista- og handíðaskóla Íslands og við Konstfack í Stokkhólmi. Grunnur Jónínu er í leirlist og hún hefur um árabil verið í framvarðarsveit íslenskrar leirlistar um leið og hún var öflugur brautryðjandi þess að rjúfa tengslin við nytjalist og nota leirinn sem efnivið sjálfstæðra listaverka.

Í Sverrissal Hafnarborgar stendur nú yfir sýningin á verkum Jónínu sem ber yfirskriftina Vörður. Í verkunum leitar listakonan aftur til bernsku sinnar og mótunarára um miðja síðustu öld. Hún finnur hugmyndum sínum form í skúlptúrum og veggverkum þar sem saman fara fjölbreyttur efniviður á borð við steinsteypu, gler og leir.

 

Ábendingagátt