Juan breytir innviðum í listaverk

Fréttir

Glænýr víkingur, ísskápur og blár ópalpakki prýða nú Hafnarfjarðarbæ. Spænski listamaðurinn Juan vinnur nú að því að breyta rafmagnskössum og fráveitulokum í listaverk.

Listin sem gleður augað!

Glænýr víkingur, ísskápur og blár ópalpakki prýða nú Hafnarfjarðarbæ. Spænski listamaðurinn Juan vinnur nú að því að breyta til að mynda rafmagnskössum og fráveitulokum í listaverk. Þetta er ekki í fyrsta sinn sem Juan vinnur með bænum heldur það þriðja. Hann málaði vegglistaverkið á gaflinn á Strandgötu 4 sumarið 2022 og gaflinn á Bókasafni Hafnarfjarðar á 100 ár afmæli þess.

„Já, þetta eru ný og skondin verk sem breyta mikilvægum innviðum í listaverk,“ segir Juan. „Við höfum valið 10-11 hluti sem ég breyti svo í aðra sem tengjast Íslandi, rétt eins og blái ópalpakkinn, ísskápurinn og víkingurinn. Þetta er skondið, því listaverkin leika mikilvæg hlutverk í samfélaginu,“ segir hann. Hann líti á verkið sem augna-trix, því hugurinn leiki sér nú með þessa mikilvægu innviði.

Sumarið tími framkvæmda

Juan sem heldur úti síðunni Instagram-síðunni Juan Pictures Art. Hann segir minnstan tíma taka að mála verkin, mestan að leyfa huganum að leika lausum hala og detta niður á réttu hugmyndina.

„Já, það skemmtilegasta við verkefnið er hugarflugið, brainstorming, horfa á hlutina og velta fyrir sér hvernig þeir koma best út. Stundum kemur hugmyndin hratt, en svo eru hlutir sem taka langan tíma,“ segir hann.

Juan er frá Valencia á Spáni en hefur verið í átta ár á Íslandi. „Ég vissi ekkert um Ísland fyrr en ég heimsótti landið. Hélt það væri einn stór ísklumpur. En svo fékk ég tækifæri til að skapa og þremur dögum eftir að ég lauk því verki var ég kominn með annað,“ segir Juan. „Svo lærði ég að Íslendingar vilja framkvæma á sumrin. Það þýðir ekkert að bíða. Það er eitt það frábæra við íslensku þjóðina.“

Elskar veðrið á Íslandi

Juan elskar íslenska sumarið. Veðrið, birtuna. „Það ætti að banna hita yfir 35 gráðum,“ segir hann og hlær. „Ég elska hins vegar 10-15 gráður. Það er hitinn minn. Svo er birtan hér á sumrin frábær til sköpunar. Maður getur málað fram á nætur og sé skýjað er birtan aldrei betri.“

Juan hefur málað frá barnsaldri. Hann lærði einnig myndlist á Spáni en listin fór á flug þegar hann flutti til Íslands. „Þá fæddist hvernig myndir ég vildi mála.“

Eins og áður sagði er þetta í þriðja sinn sem Juan vinnur með Hafnarfirði. „ Það er alltaf frábært að vinna með bænum. Ég heillaðist þegar ég sá hvað eru mörg skúlptúr í bænum og að hann hefði heimasíðu um verk sín. Með QR-kóða má svo finna þau öll.“

Já, listin býr í Hafnarfirði

Ábendingagátt