Kærkomið met í greiðslu frístundastyrkja
Alls greiddi Hafnarfjarðarbær rúmar 177,6 milljónir króna í frístundastyrki í fyrra. Hvert barn sem fékk styrkinn fékk að jafnaði rúmar 45.500 krónur greiddar. Bærinn hvetur foreldra til að leyfa börnunum að prófa ólíkar íþróttir og nýta styrkinn.
Styrkur sem breytir leik margra
Alls greiddi Hafnarfjarðarbær rúmar 177,6 milljónir króna í frístundastyrki í fyrra. Hvert barn sem fékk styrkinn fékk að jafnaði rúmar 45.500 krónur greiddar. Styrkupphæðin var rúmar 174 milljónir árinu á undan. Styrkupphæðin er nú 4.570 krónur á mánuði.
Alls var greitt með 3901 barni á árinu 2024 af þeim 5487 sem eiga rétt á því. Samtals nýttist styrkurinn því með 71% barna. Flest tíu ára barna eða tæp 87% fá frístundastyrk en þeim fækkar með aldrinum og eru aðeins rúm 28% sem nýta þá við 18 ára aldur.
Jákvæð þróun með líkamsræktinni
Breytingar og þróun hafa orðið á reglum um frístundastyrki frá því að þeir komu fyrst fram. Þann 8. febrúar 2023 samþykkti til að mynda fræðsluráð að lækka aldursviðmið fyrir kaup á líkamsræktarkortum úr 16 ára niður í 14 ár. Það leiddi til jákvæðrar þróunar hjá 14 ára og eldri sem nýttu sér styrkinn í auknum mæli.
Frístundastyrkir eru greiddir með ívið fleiri drengjum en stúlkum og hefur bilið breikkað. Árið 2019 fóru 84 milljónir til drengja en 75 til stúlkna. Í fyrra námu milljónirnar 100 til drengja en 78 til stúlkna. Nú er um að gera að foreldrar horfi í kringum sig og hnippi í þá sem þekkja ekki kerfið, jafnvel nýjustu íbúa bæjarins. Börnin elska flestöll hreyfingu.
Styrkur til barna sem rennur til félaganna
Þegar horft er til hvert styrkirnir runnu með ástundun barnanna svo má sjá að FH fékk tæpar 54 milljónir þar sem iðkendurnir eru flestir sem fá styrki, Haukar 46 og Björk 12 milljónir króna. Önnur félög fengu til sín allt frá 2,3-9,4 til þeirra sem fengu mest.
Já, íþróttalífið blómstrar í Hafnarfirði og hvetur bærinn alla foreldra til að skoða hvort ekki sé ráðrúm fyrir börnin þeirra að stunda íþróttir og fá styrkinn.