Kærleiksmarkaður í Haukahúsinu um helgina

Fréttir

Hópur kærleiksríkra kvenna á Völlunum í Hafnarfirði hefur tekið sig saman til að létta undir með nágrönnum sínum og sett upp markað í Haukahúsinu. Framtakið og markaðurinn er einstakur að því leyti að allt á gjafaborðunum er ókeypis og varningurinn eingöngu hugsaður til persónulegra nota og ætlaður þeim sem þurfa á sérstakri aðstoð að halda fyrir jólin.

Hópur kærleiksríkra kvenna á Völlunum í Hafnarfirði hefur
tekið sig saman til að létta undir með nágrönnum sínum og sett upp markað í
Haukahúsinu. Framtakið og markaðurinn sem gengur undir heitinu – Kærleikur 2020 –  er einstakur að því leyti að allt á
gjafaborðunum er ókeypis og varningurinn eingöngu hugsaður til persónulegra
nota og ætlaður þeim sem þurfa á sérstakri aðstoð að halda fyrir jólin. Í þessu
tilfelli aðstoðar í formi fatnaðar, leikfanga og hluta fyrir heimilið sem
hugulsamir einstaklingar og fyrirtæki vilja gefa til verkefnisins og leyfa
öðrum að njóta.

Allir sem á þurfa að
halda velkomnir – nýtum tækifærið

Kærleiksmarkaðurinn er haldinn í Haukahúsinu og hefur hann
þegar verið opinn í tvo daga. Hópurinn á bak við framtakið hefur ákveðið að
hafa hann líka opinn á laugardaginn frá
kl. 14-17. Tekið er á móti gjöfum á staðnum frá kl. 11-13. Gjafaborðin í Haukahúsin hafa að geyma föt í fjölbreyttum stærðum, allt frá
ungbarnafötum upp í fullorðinsföt, jólaskrauti og jafnvel nýjum vörum sem væru
flottar í jólapakkana. Þarna má einnig finna púða, teppi, húfur, útiföt, skó,
íþróttaföt og spariföt. Til að gæta megi allra sóttvarnarreglna og varúðar á tímum
Covid19 þá er talið inn í húsið, grímuskylda viðhöfð og fær hver og einn um 10
mínútur til að velja það sem vantar til heimilisins og fjölskyldunnar.

Gengið er inn til hægri við aðalinngang í Haukahúsi. Ekki um aðalinngang.

  • Móttaka á gjöfum frá kl. 11-13 laugardaginn 5. desember
  • Gjafaborð opin frá kl. 14-17 laugardaginn 5. desember

Ef þú kæri íbúi lumar á jóladóti, barnadóti, fullorðins
útifötum, útifötum á börn og skófatnaði þá eru þessir hlutir ansi fljótir að fara
af gjafaborðunum.

Ábendingagátt