Kærleikur og þakklæti í aðalhlutverki

Fréttir

Ég vil þakka kæru samstarfsfólki og ykkur bæjarbúum fyrir samstarfið og samveruna, traustið og hlýjuna á liðnum árum. Ég óska ykkur öllum gleðilegrar jólahátíðar og farsældar á nýju ári.

Tilhlökkun og væntingar á jólum

Jólin eru í nánd.  Hjörtun fyllast tilhökkun; ekki síst meðal barnanna sem hafa miklar væntingar til jólanna, samverunnar og gjafanna. Þau finna fyrir þeim hátíðlega blæ sem við höfum sveipað um þessa jóladaga nú eins og áður. Þetta er tími kærleikans.

Á jólum sýnum við hvert öðru sérstaka væntumþykju, gefum gjafir og njótum stundarinnar saman. Við þökkum fyrir lífið og tímann sem okkur er gefinn. Við sýnum öllum þeim sem umvefja okkur ást og umhyggju þessar sömu tilfinningar. Svo minnumst við þeirra sem við höfum átt að og hafa kvatt þetta líf. Minningarnar eru með okkur og þær ylja svo margar og gleðja.

Jólin eru tími þakklætis, vonar og trúar um frið innra með okkur og í kringum okkur.  Við horfum inn á við og lítum nær og fjær. Við hugsum til þeirra sem eiga um sárt að binda, hafa orðið fyrir áfalli eða glíma við veikindi.

Lítum okkur nær og til nágrannans

Hafnarfjörður er skreyttur ljósum í desember. Bærinn fær á sig jólablæ sem dregur til sín fólk alls staðar að. Mild og falleg jólaljósin minna okkur á  hvað við höfum byggt upp hlýjan og bjartan bæjarbrag. Hér er gott að vera og hér er gott að búa.

Samstaða, traust og samkennd er okkur Hafnfirðingum mikilvæg. Það eru meginundirstöður samfélagsins. Við þurfum öll að halda í þann brag þegar bærinn stækkar og breytist. Við sýnum mildi og náungakærleik. Þetta er sami andinn og börnin biðja um þessa jóladaga sem við eigum í vændum. Kærleikurinn leikur aðalhlutverkið.

Kyrrð og ró áður en nýir tímar ganga í garð

Nýtt ár boðar nýja daga og ný tækifæri. Um áramótin afhendi ég bæjarstjórakeflið áfram. Ég hef á undanförnum árum lært að starfið vinnst best með ykkur öllum sem hafa tekið þátt í að ryðja veginn, byggja upp og móta bæjarlífið. Ég vil þakka kæru samstarfsfólki og ykkur bæjarbúum fyrir samstarfið og samveruna, traustið og hlýjuna á liðnum árum.

Ég óska ykkur öllum gleðilegrar jólahátíðar og farsældar á nýju ári,

Rósa Guðbjartsdóttir bæjarstjóri Hafnarfjarðar

 

 

Ábendingagátt