Kaffistofa Samhjálpar opin lengur í vetur

Fréttir

Sérstök vetraropnun verður á kaffistofu Samhjálpar rétt eins og í fyrravetur. Opnunin lengist um tvo mánuði og verður um fimm mánaða skeið. Öll sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu taka þátt eins og þá. Kaffistofan er fyrir einstaklinga sem hafa flóknar þjónustuþarfir.

Sveitarfélögin taka höndum saman við Samhjálp

Hafnarfjarðarbær hefur ásamt Reykjavíkurborg, Kópavogsbæ, Hafnarfjarðarbæ, Garðabæ, Mosfellsbæ og Seltjarnarnesbæ undirritað samning við Samhjálp um sérstaka vetraropnun kaffistofu Samhjálpar. Vetraropnunin verður frá 1. nóvember og út marsmánuð. Hún lengist um tvo mánuði frá því í fyrra.

Kaffistofa Samhjálpar er almennt opin frá 10-14 en með samningnum verður einnig opið frá kl. 14-16.30 alla virka daga. Hún er ætluð fólki sem glímir við fátækt af mismunandi ástæðum og þau sem eru í neyð.

Á kaffistofunni verður boðið upp á kaffi, mjólk, djús, heita súpu og brauðmeti ásamt meðlæti á lengdum opnunartíma. Þá býður Samhjálp gestum dægrastyttingu, eins og kvikmyndasýningar og jafnvel tónlistaratriði á aðventunni.

Samhjálp fyrir þau með flóknar þjónustuþarfir

Þjónustukönnun eftir síðasta vetur sýndi að gestir vildu gjarnan spjalla meira við þjónustufólk. Lögð verður áhersla á að skapa starfsfólki tækifæri til þess að spjalla. Sveitarfélögin greiða Samhjálp samtals 2,5 milljónir á mánuði í fimm mánuði fyrir þjónustuna. Þau greiða í hlutfalli við íbúafjölda hvers sveitarfélags.

Ábendingagátt