Kaldárhlaupið á sunnudag – Enn hægt að skrá sig

Fréttir

Hvað er betra en að kynnast sögunni á hlaupum? Nú eru aðeins tveir dagar í Kaldárhlaupið, 10 km hlaup í minningu Jóhannesar J. Reykdal. Hafnarfjarðarbær er einn styrkjenda hlaupsins.

10 kílómetra Kaldárhlaup

Hvað er betra en að kynnast sögunni á hlaupum? Nú eru aðeins tveir dagar í Kaldárhlaupið, 10 km hlaup í minningu Jóhannesar J. Reykdal.

Þetta er skemmtihlaup frá Kaldárseli fyrir ofan Hafnarfjörð og niður í miðbæ Hafnarfjarðar. Hlaupaleiðin er hugsuð sem vatnaleið Hamarskotslækjar frá Kaldárbotnum til sjávar.

„Svo er hlaupið í mark á Strandgötunni. Grýla afhendir fyrstu verðlaun karla og kvenna og svo tíu útdráttarverðlaun,“ segir Steinunn Guðnadóttir, annar tveggja skipuleggjenda menningarhátíðarinnar Hátíð Hamarskotslækjar sem stendur að hlaupinu í samvinnu við Hlaupahóp FH. Hópbílar, Fjarðarfréttir og Hafnarfjarðarbær styrkja hlaupið.

Og hvernig fer þetta fram? Rútuferð fyrir hlaupara frá Hafnarfjarðarkirkju uppí Kaldársel, styrkt af Hópbílum.

  • Mæting kl.12.00 á bílastæði við Hafnarfjarðarkirkju.
  • Lagt af stað uppí Kaldársel kl.12.30.
  • Hlaupið hefst frá Kaldárseli kl.13.00.

Frítt er fyrir hlaupara í sund í Suðurbæjarlaug að hlaupi loknu styrkt af Hafnarfjarðarbæ. Hægt verður að skrá sig á staðnum, en þá er skráningargjaldið 3.000 krónur í peningum.

Hvað og hvers vegna?

Nánar. Í tilefni af Hátíðar Hamarskotslækjar, verður Kaldárhlaup haldið sunnudaginn 15. desember kl. 13:00. Hlaupið er um 10 km skemmtihlaup frá Kaldárseli fyrir ofan Hafnarfjörð og niður í miðbæ Hafnarfjarðar.

Hátíð Hamarskotslækjar var haldin hátíðleg í fyrsta skipti 12. desember 2010 í Hafnarfirði. Hún er haldin til heiðurs Jóhannesi J. Reykdal. Þáttaskil urðu í sögu þjóðarinnar þegar Hamarskotslækur var virkjaður og vatnsaflið nýtt til að knýja trésmíðavélar og raflýsa 16 hús í Hafnarfirði.  Fyrir því stóð frumkvöðullinn Jóhannes J. Reykdal sem stofnar árið 1904 fyrstu almenningsrafveitu landsins.

Í ár eru 150 ár frá því að Jóhannes Jóhannesson Reykdal fæddist (1874) og 120 ár frá stofnun fyrstu almenningsrafveitu landsins (1904) og Hátíð Hamarskotslækjar er haldin í 10 skipti. Þann 14.12. verður fyrirlestur og kvikmyndasýning um Jóhannes J. Reykdal og ævi hans í Hafnarborg. Hátíð Hamarskotslækjar minnir á mikilvægi lækjarins og ljóssins.

Skráning og skráningargjöld

Skráning fer fram hér á hlaup.is.

Vegalengd

Hlaupaleiðin er um 10 km.

Hlaupaleiðin

Hlaupið er um 10 km hlaup frá Kaldársseli fyrir ofan Hafnarfjörð og niður í miðbæ Hafnarfjarðar.

Rásmark er rétt fyrir innan lokun vegar við bílastæðin í átt að Kaldárseli. Hlaupið er frá rásmarki í hring að Kaldárseli og síðan Vatnsgirðingu, þaðan yfir gjánna í átt að Hafnarfirði. Hlaupið eftir stígum að Lækjarbotnum og áfram að læknum við leikskólann Hlíðarenda efst í Setbergshverfi, þaðan meðfram Hamarskotslæk eftir göngustígum að Strandgötu, endasprettur eftir Strandgötu. Lokamark við Þórsplan, þar sem Jólaþorpið er. Hægt er að bíða inní Verslunarmiðstöðinni Firði og fá sér Kaldárvatn að drekka við anddyrið sem er næst Jólaþorpinu, þar til verðlaunaafhending á sér stað.

Verðlaun

Kl. 14.00 safnast þátttakendur á svið Jólaþorpsins og verðlaun eru veitt fyrir besta tíma karla og besta tíma kvenna. Grýla velur tíu nöfn úr hópi þátttakenda sem fá verðlaun.

Þið sem hlaupið eigið hressandi dag í vændum.

Ábendingagátt