Kasia í hópi pólskra persóna ársins 2023  

óflokkað

Hróður pólsku deildar Bókasafns Hafnarfjarðar hefur náð út fyrir landssteinana. Nú í haust var Katarzyna Chojnowska, Kasia, bókavörður, verðlaunuð fyrir öflugt starf við að kynna pólska menningu. Þá hefur forseti Póllands þakkað henni og bókasafninu sérstaklega fyrir framlagið. 

Pólska deild bókasafnsins  fær rós í hnappagatið 

„Fólk er svo ánægt með þjónustuna, að fá að halda í menningu sína um leið og það kynnist íslenskri,“ segir Katarzyna Chojnowska, Kasia, sem hefur í þrjú ár unnið á Bókasafni Hafnarfjarðar. Hún hefur eflt pólska hluta safnsins, bókakost og menningarstarf svo eftir er tekið.  

„Við gerum mikið hér á bókasafninu til að heiðra pólska menningu,“ segir Kasia sem hlaut á haustmánuðum alþjóðlega viðurkenningu fyrir störf sín á safninu. Hún varð í 2. sæti í keppninni Pólsk persóna ársins, Osobowość Polonijna Roku  Það eru heiðursverðlaun í minningu Edyta Felsztyńska sem lést úr krabbameini 2017.  

Sigrún Guðnadóttir, forstöðumaður bókasafnsins, og Katarzyna Chojnowska, Kasia, sem hlaut fyrir áramót alþjóðlega viðurkenningu fyrir störf sín á safninu.

Kasia fyrst á Íslandi sem fær viðurkenninguna 

Kasia er sú fyrsta hér á landi sem fær viðurkenninguna. Hún var í hópi tíu Pólverja utan heimalandsins sem fengu þessa viðurkenningu fyrir að halda pólskri menningu á lofti með eftirtektarverðum hætti.  Kasia leggur áherslu á að hún geri hlutina ekki ein. „Ég vinn hér með yndislegu starfsfólki sem hefur stutt mig og hvatt áfram,“ segir hún. Sigrún Guðnadóttir, forstöðumaður bókasafnsins, er afar stolt af Kasiu og viðurkenningunni.  

„Við vorum ótrúlega heppin þegar við fengum Kasiu.“ Hún sé afar vel tengd inn í pólska samfélagið; sendiráðið, Pólska skólann og kaþólsku kirkjuna.  „Við höfum notið góðs af því.“ Pólska starfið hafi vaxið með Kasiu. 

Fá tækifæri til að tengjast 

Kasia skipuleggur ýmsa viðburði sem kynna pólska menningu. „Við bjóðum öllum sem hafa áhuga hingað, gefum þeim tækifæri til að sýna sig og deila sögu okkar. Við hvetjum þau áfram og segjum þeim að vera ekki hrædd heldur byrja að tala og æfa sig á íslensku, kynnast fólki, bókasafninu og Íslandi.“ 

Úrvalið á Bókasafni Hafnarfjarðar á pólskum bókum er afar gott og með því besta á landinu. Menningarviðburðirnir eru fjölmargir. Nú þann 23. mars verður einn sá vinsælasti. Þá verða páskaegg máluð á bókasafninu, árlegur viðburður sem hefur slegið í gegn. Harðsoðin egg eru þá máluð í öllum regnbogans litum að pólskum sið. 

„Þetta er mjög skemmtilegt og á hverju ári koma fleiri og fleiri, “ segir Kasia. „Við erum meira að segja að spá í að gera þetta í tveimur hópum í ár.“ Fólk frá öllum löndum taki þátt. „Já, Íslendingar elska þetta líka og ég sé oft sömu andlitin ár eftir ár. Þetta er svo frábært. Við sitjum öll saman og byrjum að tala.“  

Hún lýsir því hvernig eggjamálunin brjóti ísinn. „Við erum hrædd þegar við þekkjum ekki hvert annað nægilega vel. En þegar við byrjum að tala brjótum við niður múra. Pólverjar vita að það er gott að læra, vera opin, læra um menningu annarra en líka sýna að við búum einnig yfir skemmtilegum hefðum.“ 

Leið til að vera partur af samfélaginu 

Kasia segir bókasafnið einnig halda sígildum eldri hefðum á lofti. „Já, pólska starfið hér á bókasafninu hjálpar okkur að skilja samfélagið en líka samfélaginu að skilja okkur. Þetta snýst um að vera partur af samfélaginu, ekki skilja sig frá og lifa aðskilin.“ 

Kasia er uppeldisfræðingur, guðfræðingur og hefur diplóma í bókasafnsfræði. Hún hefur búið í sextán ár á Íslandi. Hún hafi fylgt í spor eiginmannsins. Hér hafa þau eignast tvær dætur. „Allt það besta hefur gerst hér,“ segir hún. 

Innilega til hamingju Kasia, já og Bókasafn Hafnarfjarðar! 

 

Viðburðir á næstunni: 

Krysztof J. Szymanski – Opnun 

Páskaeggjamálun! Wspólne malowanie pisanek! 

 

 Annað

  • Sjáðu viðtal fyrir pólska sjónvarpið 

 

 

Ábendingagátt