Keilir sér um slátt og umhirðu fótboltagrasvalla

Fréttir

Hafnarfjarðarbær hefur samið við Golfklúbbinn Keili um slátt og umhirðu á fótboltagrasvöllunum hjá FH, Haukum og í Hamranesi. Sérfræðiþekking Keilismanna nýtist vel við að hugsa um fótboltavellina en samtals eru svæðin um 65 þúsund fermetrar. Samningurinn gildir til ársins 2027.

Sérfræðiþekking sem nýtist vel

Hafnarfjarðarbær hefur samið við Golfklúbbinn Keili um slátt og umhirðu á fótboltagrasvöllunum hjá FH, Haukum og í Hamranesi. Sérfræðiþekking Keilismanna nýtist vel við að hugsa um fótboltavellina en samtals eru svæðin um 65 þúsund fermetrar.

“Við viljum tryggja fagfólk í verkið. Hjá Keili býr mikil reynsla og þekking á umhirðu grasvalla. Það er mikilvægt að hugsa vel um alla þessa velli til að tryggja endingu þeirra og ekki síður ánægju þeirra sem nota vellina,” segir Geir Bjarnason íþrótta- og tómstundafulltrúi Hafnarfjarðarbæjar.

Felur í sér grasslátt og meira til

Samningurinn er stærri nú en áður en nýtt æfingasvæði FH, Hybridvöllurinn, kemur þar inn í. Þann völl er hægt að nota mun lengur en aðra velli m.a. vegna gerðar og blöndunar á gervigrasi og venjulegu grasi auk þess sem hiti er á vellinum. Með samningnum, sem hljóðar upp á rúmar 23 m.kr., skuldbindur Hafnarfjarðarbær sig til þess að kaupa slátt á grasvöllum íþróttafélaganna tveggja og Hamarsvelli ásamt djúpgötun, söndun, dreifingu á áburði, yfirsáningu, hreinsun, sópun, þjöppumælingu og ráðgjafarþjónustu í samræmi við samstarfsamninga við viðkomandi félög. Öll verð eru með virðisaukaskatti, taka mið af breyttri byggingavísitölu og miða við stærð svæða eins og þau eru árið 2024 eða 64.255fm.

Samningurinn gildir til ársins 2027.

Ábendingagátt