Kerti, knús, friður og minningar

Fréttir Jólabærinn

Gleði, eftirvænting, friður, minningar og endurfundir eru hugtök sem eiga við dæmigerð íslensk jól, ritar Arnór Bjarki Blomsterberg, sóknarprestur í Ástjarnarkirkju og minnir á að gleyma ekki því sem raunverulega gleður sálir og vermir hjörtu um jól.

„Jólin eru kertaljós og knús,“ skrifaði Bragi Valdimar í hugljúfum jólatexta sem lýsir því hvernig jólin eru fyrir okkur flest.

Gleði, eftirvænting, friður, minningar og endurfundir eru hugtök sem eiga við dæmigerð íslensk jól. En við erum ekki öll svo heppin að eiga dæmigerð íslensk jól. Sum upplifa missi og söknuð, sum upplifa ofbeldi og ótta, sum upplifa einangrun og einmanaleika. Þessar tilfinningar eru aldrei jafn áþreifanlegar og á jólunum, þegar allir eiga að vera glaðir. Ég vil hvetja þig lesandi góður til að staldra við í annríkinu, líta upp úr innkaupalistunum og skúringarfötunni og koma auga á fólkið í lífi þínu. Getur verið að í kring um þig sé fólk sem þarfnast tíma, nærveru og ástar?

Á aðventunni skiptir máli að gleyma ekki því sem raunverulega gleður sálir og vermir hjörtu. Samkennd og hluttekning getur haft djúpstæð áhrif á fólkið sem við mætum. Samkennd getur skapað tengsl sem haldast lengi eftir að slökkt hefur verið á jólaljósunum. Hlýja og stuðningur á þeim stundum sem fólkið okkar þarf á því að halda eru dýrmætari en nokkur innpökkuð jólagjöf, bæði fyrir þann sem gefur og þann sem þiggur. Njótum jólanna – Saman.“

Arnór Bjarki Blomsterberg,
sóknarprestur í Ástjarnarkirkju.

 

Myndatexti:

Arnór Bjarki Blomsterberg, Nói, hefur síðustu 6 ár verið sóknarprestur í Ástjarnarkirkju í Hafnarfirði og ritar hér nokkur orð um samkennd í aðdraganda jólanna.

 

Hollráð Nóa

  1. Sýnum þakklæti. Að vera meðvituð um eigin blessanir auðveldar okkur að sýna samkennd með öðrum. Lítum í kringum okkur og þökkum fyrir það sem við höfum.
  2.  Sýnum kærleika – jafnvel í krefjandi samskiptum. Kærleiksrík samskipti brúa bil og auka samkennd.
  3. Sýnum hluttekningu. Að styðja við fólk sem gengur í mótvindi getur styrkt samkennd.
  4. Kynnumst reynsluheimi annarra. Að kynnast ólíkum reynsluheimum, hvort sem það er í gegnum samtöl, bækur eða fréttir, getur víkkað sjóndeildarhringinn og aukið skilning á fjölbreytileika mannlífsins.
  5. Sjálfsskoðun. Að þekkja eigin tilfinningar eykur skilning á aðstæðum annarra.

 

 

Jólablað Hafnarfjarðar 2024 – vefútgáfa:

Jólablaðið má nálgast í á öllum okkar söfnum og sundlaugum. Líka í þjónustuveri. Já, það bíður eftir þér. 
Ábendingagátt