Kit og Cosplay smiðjur fyrir eina stærstu búningahátíð landsins

Fréttir

Búninga- og leikjasamkoman Heima og himingeimar verður haldin 29.-31. ágúst. Undirbúningur stendur yfir. Hægt er að sauma sér búning í sérsmiðjum í bókasafninu. Um 4000 mættu á fyrstu hátíðina sem haldin var í fyrra.

Heimar og himingeimar sem heilla okkur öll

„Stígðu út fyrir kassann. Komdu og prófaðu. Hvernig væri að þora eina helgi?“ spyr Unnur Helga Möller, verkefnastjóri viðburða á Bókasafni Hafnarfjarðar. Hún heldur utan um búninga- og leikjasamkomuna Heima og himingeima í ár eins og í fyrra.

Heimar og himingeimar verður haldin í annað sinn á bókasafninu dagana 29.-31. ágúst. Þetta er þriggja daga skemmtun með yfir fimmtán smiðjum og viðburðum. Hægt verður að upplifa og taka þátt í þremur heimum. Dagskráin er troðfull og má fullyrða að þetta sé þegar orðin stærsta búningahátíð landsins. Hátíðin er ævintýraleg.

Búningasmiðjur fram að hátíð

Fram að hátíðinni verða búningasmiðjur, svokallaðar Kit og Cosplay smiðjur, haldnar. Þar má sauma eigin búning fyrir hátíðina og fá aðstoð við það. „Komið með eigið efni,“ segir Unnur.  Næsta smiðja er þriðjudaginn 12. ágúst frá kl. 17-18.45 á bókasafninu. Þær eru svo vikulega fram að hátíð og hafa verið vel sóttar það sem af er sumri. En sérstök búningasmiðja fyrir börn verður laugardaginn 16. ágúst milli kl. 13-15.

„Börn eru velkomin á Heima og himingeima í fylgd með fullorðnum, en hátíðin sjálf er hugsuð fyrir 14 ára og eldri,“ segir Unnur sem hefur með sínu fólki undirbúið enn veglegri hátíð en í fyrra. Skal engan undra. Þau bjuggust við 1.000 gestum í fyrra en fengu 4.000.

Unnur Helga með fulltrúum 501. herdeildarinnar.

Ævintýraheimar á hátíðinni

„Ég geri mér ekki grein fyrir hve mörg koma í ár en frá 3-7 þúsund ímynda ég mér,“ segir hún. En hvað er svo í boði á hátíðinni sjálfri? Tökum dæmi:

  • Boffer-smiðja
  • Vélmennaveiðar
  • Bardagasýningar
  • Sjá Marie Antoinette fara í búninginn
  • Risabrúður
  • Cosplay-keppni með alþjóðlegum dómurum
  • herdeildin

„Þetta er hátíð sem skiptir fullt af fólki máli og við hvetjum þig til að taka þátt,“ segir Unnur.

Já, mætum öll á Heima og himingeima.

 

Ábendingagátt