Kjarabót fyrir fjölskyldufólk

Fréttir

Með auknum systkinaafslætti og niðurgreiðslu frístundastyrkja er stigið mikilvægt skref í að minnka kostnað barnafjölskyldna í bæjarfélaginu og er það í takt við fjölskylduvænar áherslur.

Fræðsluráð Hafnarfjarðar samþykkti á fundi sínum rétt í þessu tillögur starfshóps um breytingar á gjaldskrá og niðurgreiðslum á fræðslu- og frístundasviði.  Með auknum systkinaafslætti og niðurgreiðslu frístundastyrkja er stigið mikilvægt skref í að minnka kostnað barnafjölskyldna í bæjarfélaginu og er það í takti við fjölskylduvænar áherslur. Hækkun á systkinaafslætti tekur gildi 1. september og breyting á frístundastyrkjum frá og með 1. nóvember.

Með tillögum starfshópsins eru stigin skref í þá átt að draga verulega úr útgjöldum barnafjölskyldna. Ákvörðun hefur verið tekin um að auka systkinaafslátt úr 30% í 50% fyrir annað barn og úr 50% í 75% fyrir þriðja barn. Afsláttur gildir milli þjónustustiga í samræmi við núverandi reglur. Við yfirferð á heildarútgjöldum barnafjölskyldna kom ljóslega fram mikilvægi þess að mæta barnmörgum fjölskyldum með hækkun á systkinaafslætti til að tryggja að öll börn hafi sem jafnastan aðgang að skóla og frístundastarfi. Einnig hefur verið ákveðið að hækka frístundastyrki í kr. 3.000 á mánuði fyrir alla aldurshópa, úr 1.700.- kr á mánuði fyrir 6-12 ára og 2.550.- kr. á mánuði fyrir 13 – 16 ára. Aldursmörk verða jafnframt hækkuð um tvö ár eða frá 6 ára til 18 ára aldurs í stað 16 ára. Markmið með hækkun frístundastyrks er að tryggja jafnan aðgang allra barna og auka þátttöku þeirra  í skipulögðu íþrótta- og tómstundastarfi. Með því að hækka aldursmörk í 18 ár er markvisst unnið gegn brottfalli í þessum aldurshópi. Kostnaði sem til fellur vegna breytinganna á yfirstandandi fjárhagsári verður mætt með viðauka við fjárhagsáætlun sem lagður verður fram síðar í mánuðinum. Fræðsluráð fagnar samróma niðurstöðu starfshópsins og að þessar breytingar á gjaldskrám séu orðnar að veruleika.

Til stendur að lækka útgjöld enn frekar

Mikilvægt er að haldið verði áfram á þessari braut og útgjöld lækkuð enn frekar með endurskoðun á dvalargjöldum leikskólabarna, tekjuviðmiðum, hækkun á systkinaafslætti og frístundastyrkjum.  Við gerð næstu fjárhagsáætlunar er ætlunin að tryggja að málefni barnafjölskyldna hafi forgang og áfram verði unnið markvisst að frekari lækkun þjónustugjalda.

Aðrar tillögur starfshóps um breytingar

  • Stefnt er að því að fæðisgjald grunn- og leikskóla verði ávallt sem næst raunkostnaði hráefnis og falli ekki inn í systkinaafslátt eða tekjutengdan afslátt
  • Tekjutenging vegna leikskólagjalda verði með óbreyttu sniði og það í takt við afsláttarfyrirkomulag frá árin 2012. Lægri tekjuhópar eiga kost á allt að 40% viðbótarafslætti af leikskólagjöldum. Samkvæmt fyrirliggjandi upplýsingum nýtist viðbótarafsláttur um 68% af einstæðum foreldrum (árið 2013) og því er lagt til óbreytt fyrirkomulag
  • Lagt er til að fræðsluráð endurskoði fyrirkomulag frístundastyrkja í þeim tilgangi að mæta ólíkum þörfum barna og ungmenna. Sérstaklega verði horft til þess hvort víkka eigi út skilyrði fyrir frístundastyrki og hvort skilgreind markmið séu of þröng í núgildandi reglum
  • Lagt er til óbreytt fyrirkomulag vegna dagforeldra en á síðasta ári var framlag dagforeldragreiðslna hækkað í 50 þúsund auk þess sem greiðslur hefjast nú við 18 mánaða aldur í stað 24 mánaða áður

 

Ábendingagátt