Klæðum jólabæinn í hátíðargallann – setjum upp jólaljósin

Fréttir

Haustið og fallegir vetrardagar hafa verið meðal annars verið nýttir til að undirbúa jólin í Jólabænum Hafnarfirði. Það stefnir allt í að aðventan verði ekki bara björt og fögur heldur einnig afar lífleg og fjörug og lengri en í venjulegu ári.

Jólabærinn Hafnarfjörður mun skína skært í nóvember og desember

Haustið og fallegir vetrardagar hafa verið meðal annars verið nýttir til að undirbúa jólin í Jólabænum Hafnarfirði. Það stefnir allt í að aðventan verði ekki bara björt og fögur heldur einnig afar lífleg og fjörug og lengri en í venjulegu ári. Jólabærinn Hafnarfjörður hefur hin síðustu ár stimplað sig rækilega inn í hug og hjörtu Hafnfirðinga, ferðamanna og vina Hafnarfjarðar um land allt með samhentu og góðu átaki allra; íbúa, fyrirtækja og stofnana í öllum hverfum bæjarins. Það hafa allir lagst á eitt, sett upp jólahúfuna og dregið djúpt að sér jólandann. Þúsundir hafa sótt jólabæinn okkar heim á aðventunni og upplifað allt það sem fallegi bærinn okkar hefur upp á að bjóða í formi heilsueflingar, menningar, lista, veitinga, verslunar og þjónustu.

 

Jólaþorp, ævintýraland og skautasvell

Jólin eru jafnt og þétt að færast yfir Hafnarfjörð og nú í október hefur starfsfólk bæjarins unnið að við uppsetningu á jólaskreytingum vítt og breytt um bæinn og munu ný ljós og skreytingar bætast jafn og þétt við næstu daga og vikur. Jólablað Hafnarfjarðar verður gefið út um miðjan nóvember og mun líkt og síðustu þrjú árin vera fullt af hlýlegu efni um gefandi og góð verkefni í bænum, framsækin hafnfirsk fyrirtæki og fólkið sem bæinn byggir. Hjartasvellið opnar 10. nóvember, Jólaþorpið á Thorsplani með öll sín fagurlega skreyttu jólahús og jólagleði opnar föstudaginn 18. nóvember auk þess sem jólaævintýrið í Hellisgerði er einnig í fullum undirbúningi.

Hvatning til íbúa og fyrirtækja í bænum

Daginn er tekið að stytta og tími jólaljósanna runninn upp. Hafnarfjarðarbær hvetur Hafnfirðinga til að setja jólaljósin upp sem fyrst ef þau eru ekki þegar komin upp. Starfsfólk bæjarins er að vinna sig jafnt og þétt í gegnum bæinn og setja upp ljós á fjölförnum stöðum og opnum svæðum. Allt er þetta gert með það fyrir augum að gleðja augað og andann og ýta undir jákvæða upplifun og ánægju þeirra sem leið eiga um bæinn hvort sem er gangandi, hlaupandi, hjólandi eða akandi.


Takið virkan þátt í að klæða jólabæinn Hafnarfjörð í hátíðargallann með því að setja jólaljósin upp snemma í ár. Jafnvel strax í dag

Ábendingagátt