Komdu á árlegan jólamarkað Bjarna

Fréttir Jólabærinn

Keramik Bjarna Sigurðssonar nýtur sín oft í tímaritinu Bo Bedre. Hann hefur haldið í samböndin í Danmörku síðan hann lærði þar í lok tíunda áratugarins. Árlegur jólamarkaður hans á vinnustofunni við Hrauntungu 20 verður 21.- 24. nóvember.

Bjarnir býður á jólamarkað

Keramik Bjarna Sigurðssonar nýtur sín oft í tímaritinu Bo Bedre. Hann hefur haldið í samböndin í Danmörku síðan hann lærði þar í lok tíunda áratugarins. Árlegur jólamarkaður hans á vinnustofunni við Hrauntungu 20 er hefð sem margir Hafnfirðingar njóta aftur og aftur. Öll velkomin.

Keramikvörurnar hans Bjarna eru þekktar og seldar víða um heim, til að mynda í Illum Bolighus og Designer Zoo í Danmörku, þar sem hann lærði. Það reyndist rétt ákvörðun að hætta í banka og fara að leira.

Keramik lifibrauðið

„Ég sótti kvöldnámskeið í skúlptúr og teikningum meðfram bankastarfinu. Svo fengum við leir í hendurnar og það var sprenging. Ég hugsaði: Þetta er það sem ég er að fara að gera,“ lýsir Bjarni sem vatt kvæði sínu í kross í lok tíunda áratugarins. Það var ekki aftur snúið.

„Nú er þetta lifibrauðið,“ segir Bjarni sem vinnur þessar stundirnar vörur fyrir áströlsku verslunina Tekstura. Þrátt fyrir annir sleppir hann ekki árlegum jólamarkaði sínum sem alltaf er haldinn þriðju helgina í nóvember, að þessu sinni dagana 21.-24. nóvember. Undirbúningurinn hefst á vormánuðum og hann býður hátt í 25% afslátt af öllum vörum.
„Fólk sem safnar keramikvörunum mínum þyrpist á staðinn.“ Bjarni framleiðir hátt í 15 þúsund hluti ár hvert.

Smákökur og happdrætti

Bjarni er Reykvíkingur en flutti til Hafnarfjarðar 2007 eftir árin í Danmörku. Strax fyrstu jólin hélt hann jólamarkaðinn sem hefur vaxið og dafnað síðan. „Ég baka alltaf smákökur, allt heimagert og býð gestum. Léttur matur, hnallþórur, drykkir og ýmislegt fyrir börnin,“ segir Bjarni sem gerir ekki aðeins vel við gesti með góðgæti heldur býður þeim einnig að taka þátt í happdrætti.

„Heppinn gestur vinnur keramik í kassa dag hvern, stundum að andvirði allt að 200 þúsund krónur. Ég dreg ekki sjálfur út þann heppna heldur fæ annan til þess, allt eftir lögum og reglum – til að hygla engum,“ segir hann og hlær. „Allir krakkar sem koma fá svo keramikpakka undan jólatrénu.“

Jólamarkaðurinn er orðin hefð margra. „Ein tvítug kom fyrst til mín þriggja ára. Hún hefur komið á alla jólamarkaðina síðan og elskar það. Ég gerði mér ekki grein fyrir því hvað markaðurinn er orðinn mikil hefð og velti fyrir mér að sleppa þessu í Covid. Það varð allt vitlaust, því hér kemst fólk í jólafílinginn.“

 

Hvar og hvenær?
Fimmtudag til sunnudags
21.-24. nóvember, kl. 10-18 að Hrauntungu 20.

 

Ábendingagátt