Komdu og fagnaðu þjóðhátíð með okkur heima í Hafnarfirði 2022

Fréttir

Fagnaðu þjóðhátíð með okkur heima í Hafnarfirði! Sjá ítarlega dagskrá á hfj.is/17juni

  • Fjölbreytt dagskrá verður í boði víðsvegar um Hafnarfjörð á 17. júní.

Þjóðhátíðardagurinn hefst með fánahyllingu á Hamrinum og víðar um bæinn við fyrsta hanagal kl. 8 og lýkur með tónlistarveislu á Thorsplani en kvölddagskrá í hjarta Hafnarfjarðar á sjálfan þjóðhátíðardaginn snýr aftur á hátíðarhöldunum í ár. Fram koma ungir tónlistarmenn í bland við aðra reyndari.

Þjóðhátíðarveisla sem teygir anga sína víða um bæinn

Að vanda verður fjölbreytt dagskrá í boði í Hafnarfirði á 17. júní, þjóðhátíðarveisla sem teygir anga sína víða um bæinn. Skipulögð hátíðarhöld verða á Thorsplani og leiktæki á Hörðuvöllum. Á Strandgötunni verða sölubásar og hoppukastalar auk þess sem ungmenni úr skapandi sumarstörfum bæjarins verða á ferðinni um bæinn til að gleðja gesti og gangandi. Rjúkandi fargufa og sjósund verður í boði á Langeyrarmölum, þjóðbúningasamkoma í Flensborg og íbúar Austurgötu bjóða heim til hátíðar í götunni sinni. Á Víðistaðatúni verður Víkingahátíð sem stendur yfir dagana 15. – 19. júní.

Skrúðganga frá Flensborgarskóla

Í ár verður gengið frá Flensborgarskóla niður Hringbraut, eftir Lækjargötu og inn Strandgötu að Thorsplani. Lúðrasveit Hafnarfjarðar, Skátafélagið Hraunbúar og víkingar leiða skrúðgönguna. Skrúðagangan mun hafa áhrif á umferð um svæðið á meðan henni stendur.

Fagnaðu þjóðhátíð með okkur heima í Hafnarfirði – sjá ítarlega dagskrá á hfj.is/17juni

Ábendingagátt