Kór Öldutúnsskóla hélt upp á sextugsafmælið

Barnvænt sveitarfélag Fréttir

Kór Öldutúnsskóla fagnaði sextugsafmæli um helgina. Starfið þessa sex áratugi hefur verið einstakt. Aðeins tveir kórstjórar hafa starfað við kórstjórn allan þennan tíma og kórinn landsfrægur.

Öldutúnsskóli sextugur

„Sex áratugir af söng, vináttu, æfingum og ferðalögum. Það er engin smá saga sem við erum að heiðra hér í dag,“ sagði Valdimar Víðisson bæjarstjóri í ræðu við 60 ára afmæli kórs Öldutúnsskóla sem haldið var um helgina. Starfið þessa sex áratugi er einstakt. Aðeins hafa tveir kórstjórar starfað við kórstjórn allan þennan tíma. Kórinn er landsfrægur.

Kór Öldutúnsskóla var stofnaður árið 1965 af tónmenntakennaranum Agli Friðleifssyni. „Hann sá tækifæri til að gefa nemendum skólans lifandi kórlíf og skapa vettvang þar sem börn gátu upplifað gleði og kraft, samstöðu í söng,“ sagði Valdimar í afmælinu. Egill hafi stjórnað kórnum í um fjóra áratugi sem tónmenntakennari og kórstjóri skólans. Kórinn hafi orðið einn kunnasti barnakór á landinu, tekið upp plötur og komið víða fram. Á eftir Agli hafi Brynhildur Auðbjargardóttir tekið við stjórn kórsins og stjórni enn.

„Undir hennar stjórn hefur kórstarfið ekki bara haldið áfram, það hefur stækkað, þróast og dafnað,“ lýsti Valdimar.

Kór Öldutúnsskóla hefur farið víða, ferðast utan landsteinanna, tekið þátt í kórahátíðum, sungið með krökkum frá öðrum löndum og   kynnst nýjum menningarheimum. Valdimar sagði þessar ferðir hafa mótað krakkana, víkkað sjóndeildarhringinn, styrkt sjálfstraust og skapað minningar sem fylgja þeim alla ævi.

„Stærsta afrek kórstjóranna er ekki hægt að telja í plötum eða tónleikum. Það eru öll börnin sem þau náðu til. Öll þau sem fundu sjálfstraust í röddinni og söngnum. Slíkt verður ekki metið til fjár.“ Kórastarfið væri órjúfanlegur hluti af sjálfsmynd Öldutúnsskóla

„Takk, Egill, fyrir brautryðjandastarfið, fyrir hugrekkið að stofna kór árið 1965 og halda ótrauður áfram í áratugi. Þú hefur markað djúp spor í líf ótal barna og í menningarsögu Hafnarfjarðar,“ sagði Valdimar. „Takk, Brynhildur, fyrir að taka við keflinu og bera það áfram af eldmóði, fagmennsku og einlægri ást á börnum og tónlist. Þú hefur sýnt að kórinn er lifandi, nútímalegur og kraftmikill hópur sem syngur bæði hér heima og víða erlendis.“

Valdimar þakkaði einnig kennurum, starfsfólki og skólastjórnendum en sjálfur starfaði hann í Öldutúnsskóla í sextán ár. „Það er ekki sjálfgefið að kórstarf fái þennan sess. Það þarf skipulag, sveigjanleika og trú á mikilvægi lista í skólastarfi.“ Hann þakkaði líka foreldrum og forráðamönnum. „Án ykkar hefði enginn mætt á fyrstu æfingu, nema kannski kórstjórinn. Þið styðjið, skutlið og hlustið.“ Svo þakkaði hann nemendum.

„Þið sem standið hér í kórnum í dag. Þið eruð nútíðin og framtíðin. Þið haldið áfram sögu sem byrjaði löngu áður en snjallsímar og samfélagsmiðlar komu til.“

  • Nánar um kór Öldutúnsskóla hér.

 

 

Ábendingagátt