Kortavefur Hafnarfjarðar er öflug rauntímaveita

Fréttir Verkefnasögur

Kortavefurinn er öflugt verkfæri til að kynnast bænum okkar betur. Þar má nálgast hafsjó af upplýsingum varðandi skipulagsmál, teikningar, starfsemi og þjónustu bæjarins. Skoðaðu Hafnarfjörð og umhverfið í nýju ljósi.

Á kortavefnum er hægt að skoða Hafnarfjörð og umhverfið í nýju ljósi

Kortavefurinn er öflugt verkfæri til að kynnast bænum okkar betur. Hafnarfjarðarbær leggur sífellt meiri og ríkari áherslu á stafræna þjónustu og miðlun fyrir íbúa bæjarins og aðra hagsmunaaðila. Síðustu mánuði hefur mikil vinna átt sér við að uppfæra, fínpússa, stækka og efla kortavef bæjarins, bæta virkni hans og færa inn gögn og upplýsingar sem aðeins hafa legið í PDF skjölum á vefnum. Tilgangurinn er að greiða enn frekar aðgang að mikilvægum og vinsælum upplýsingum myndrænt á einum og sama staðnum.

Kynningarmyndband um kortavef Hafnarfjarðar. Jökulá framleiddi 

Á miðlægu og opnu svæði kortavefs er hægt að sækja hafsjó af upplýsingum varðandi skipulagsmál, teikningar, starfsemi og þjónustu bæjarins. Þar má nálgast alla uppdrætti byggingarfulltrúa sem eru skannaðir og skráðir jafnóðum og þeir hafa verið samþykktir og þannig eru bæði sér- og aðaluppdrættir gerðir aðgengilegir með rafrænum hætti. Kortavefurinn er uppfærður daglega og tekur ætíð mið af nýjustu upplýsingum.

Á kortavef er m.a. hægt að nálgast eftirfarandi:

  • teikningar húsa og lóða í bænum
  • lausar lóðir (nýtt)
  • deiliskipulag
  • hverfamörk
  • skólahverfi
  • minja- og verndarsvæði
  • grunnþjónustu bæjarins eins og staðsetningu skóla, stofnana, leikvalla, sundlauga og grenndargáma
  • skipulag vatnsveitu, hita- og fráveitu ásamt lagnaleiðum
  • upplýsingar um þjónustu fyrirtækja og afþreyingu
  • jarðskjálftavirkni
  • vefmyndavélar
  • samgönguupplýsingar, umferðarslys og umferð á göngu- og hjólaleiðum

Ef uppdrættir finnast ekki á vefnum má leita til þjónustuvers Hafnarfjarðar í síma 585-5500 eða senda póst á hafnarfjordur@hafnarfjordur.is til að fá nánari upplýsingar. Skoðaðu Hafnarfjörð og umhverfið í nýju ljósi. Þú getur engu eytt og engu breytt, bara skoðað!

Kíkja á kortavef Hafnarfjarðar

Ábendingagátt