Krefst úrbóta og aðgerða

Fréttir

Hafnarfjarðarbær tekur ábendingum um gæði heimsends matar til eldri borgara í Hafnarfirði mjög alvarlega og mun gera allt til að tryggja að góð þjónusta, góður matur og gott verð fari saman. Bærinn biðst velvirðingar á því sem úrskeiðis hefur farið.

Hafnarfjarðarbær tekur
ábendingum um gæði heimsends matar til eldri borgara í Hafnarfirði mjög
alvarlega og mun gera allt til að tryggja að góð þjónusta, góður matur og gott
verð fari saman. Bærinn biðst
velvirðingar á því sem úrskeiðis hefur farið og þakkar fyrir þær ábendingar og
kvartanir sem borist hafa.

Rúmlega 100 eldri borgarar í Hafnarfirði nýta sér þá matarþjónustu
sem í boði er að Hjallabraut 33 og Sólvangsvegi 1 á degi hverjum. Auk þess hafa
um 55 eldri borgarar fengið mat sendan heim alla daga vikunnar.  Um
síðustu áramót tók fyrirtækið ISS að sér framleiðslu matarins í kjölfar
útboðs.  Starfsmenn Hafnarfjarðarbæjar á Hjallabraut
og Sólvangsvegi hafa daglega sent stöðumat til tengiliðar bæjarins við ISS, um
gæði matarins og hvað fólki finnst um hann.  Við ábendingum og kvörtunum hefur verið
brugðist um leið og þær hafa borist.

Fyrir helgi kom svo upp atvik sem er óásættanlegt þegar
heimsendur matur reyndist ekki uppfylla kröfur um gæði. Haraldur L. Haraldsson
bæjarstjóri boðaði forsvarsmenn ISS samdægurs á fund til að fara yfir
framleiðslu, ferla og framreiðslu matar til eldri borgara í Hafnarfirði.. ISS hefur
verið tilkynnt skriflega að innan tveggja vikna þurfi fyrirtækið að leggja fram
upplýsingar um hvernig það hyggst koma í veg fyrir að mistök af þessu tagi
endurtaki sig og að fyrirtækið tryggi þá þjónustu sem skilgreind er og gengið
er út frá í nýjum þjónustusamningi.

Í bréfi bæjarstjóra til ISS er þess krafist að úrbætur verði
gerðar hér á enda er það metnaður Hafnarfjarðarbæjar að tryggja að öll þjónusta
til eldri borgara sé til fyrirmyndar og sveitarfélaginu til sóma.

„Við lítum mistök af
þessu tagi mjög alvarlegum augum og biðjumst velvirðingar á að þau hafi átt sér
stað. Metnaður okkar er að veita eldri borgurum í Hafnarfirði 100% þjónustu og
göngum við út frá því að þeir aðilar sem við semjum við sinni henni þannig. Við
sem sveitarfélag vinnum eftir ákveðnum leikreglum varðandi útboð á þjónustu og
ætlumst til þess að þeir skilmálar sem við setjum séu uppfylltir. Framvegis
munu starfsmenn bæjarins leggja aukna áherslu á að fylgja heimsendingum á mat
til eldri borgara í Hafnarfirði sérstaklega eftir með heimsóknum, samtölum og
samtengingu við heimaþjónustu. Við ætlum að tryggja að þessi þjónusta verði til
fyrirmyndar“
segir Haraldur L. Haraldsson, bæjarstjóri Hafnarfjarðar.

Þjónustan á framleiðslu matar til eldri borgara var boðin út
í lok síðasta árs og var útboðið liður í tímabærum útboðum sveitarfélagsins.  Sveitarfélögum ber að taka lægsta tilboði
samkvæmt útboðsreglum og var það gert í þessu tilviki að teknu tilliti til
útboðsskilmála sem tryggja eiga gæði og góða þjónustu. Fyrirtækið ISS var með
lægsta tilboðið og tók þjónustuna yfir um áramót.  Útboð á þessum þjónustuþætti var eina útboð
sveitarfélagsins í útboðsaðgerðum þess sem skilaði hækkun í samningi.

Ábendingagátt