Sjómannadagsráð heiðrar Kristján, Haraldur og Lúðvík

Fréttir

Kristján Dýrfjörð vélstjóri, Haraldur Benediktsson skipstjóri og Lúðvík Geirsson hafnarstjóri voru heiðraðir á Sjómannadeginum. Dagurinn hefur verið haldinn hátíðlegur frá 1938.

Heiðraðir á Sjómannadaginn

Kristján Dýrfjörð vélstjóri, Haraldur Benediktsson skipstjóri og Lúðvík Geirsson hafnarstjóri voru heiðraðir á Sjómannadeginum í ár fyrir starfs sitt tengt sjómennsku á Sjómannadaginn sem haldinn var hátíðlegur á sunnudaginn. Sjómannadagsráð heiðraði þá kappa en Sjómannadagurinn hefur verið haldinn hátíðlegur frá árinu 1938. Einar Ingi Reynisson frá Landhelgisgæslunni heiðraði þá og hélt tölu. Kynnumst þeim btur:

 

Haraldur Benediktsson

„Haraldur Benediktsson fæddist í Reykjavík 31. október 1944. Hann ólst upp hjá fósturforeldrum sínum, þeim Benedikt Björnssyni verslunarmanni á Fáskrúðsfirði og Kristínu Magnúsdóttur húsmóður og starfsstúlku á Hrafnistu.

Á 17. aldursári hóf Haraldur sjómennskuferilinn á 100 tonna Svíþjóðarbát, Ljósafelli frá Fáskrúðsfirði, árið 1961.

Hann sótti Stýrimannaskólann og lauk 2. stigi árið 1965. Síðar varð hann stýrimaður á Skálaberg frá Seyðisfirði.

Árið 1973 var viðburðarrík á marga lund fyrir Harald.

  • Hann var stýrimaður á Gjafar VE og var í Vestmannaeyjum hina örlagaríku gosnótt 23. janúar þar sem áhöfnin flutti 440 manns í einni ferð til Þorlákshafnar. Eftir það hélt áhöfnin á loðnuveiðar.
  • Rúmum tveimur vikum síðar tók áhöfnin þátt í einni umfangmestu leit sem Íslendingar hafa tengst í Atlandshafinu. Mildi þótti að enginn skyldi farast í leitinni í því mikla óveðri sem geisaði dagana tíu sem leitin stóð yfir. Leitað var að áhöfn tíu manns sem voru um borð í Sjöstjörnunni frá Keflavík.
  • Þann 22. febrúar strandaði Gjafar í foráttubrimi fyrir utan Grindavík og börðust skipverjarnir upp á líf og dauða. Haraldur var þá stýrimaður en hafði oft verið við stjórnvölinn sem skipstjóri á Gjafari og vegna sérstakra aðstæðna sem skapast hafi, tók hann við stjórninni og stóð sig frábærlega að sögn skipsfélaga, þar sem öllum 12 var bjargað.
  • Þann 7. mars eða tveimur vikum eftir strandið, var Haraldur fenginn til að ná í nýtt skip til Japans, Ljósafell SU-70.

Hann var skipstjóri eða stýrimaður á ýmsum skipum og bátum í framhaldi, bæði sem gerð voru út frá Hafnarfirði og víða um land. Var hann skipstjóri og stýrimaður á hinum ýmsu skipum og bátum í framhaldi, bæði sem gerðir voru út héðan frá Hafnarfirði og víða. Haraldur starfaði í alls 51 ár sem háseti, stýrimaður og skipstjóri. Var hann þá lengst af á Jóni Vídalín sem skipstjóri allt til árs 2011 og lauk sjómannaferli sínum á strandveiðibát sínum Sæberg HF-112 árið 2019.

Eiginkona Haralds er Brynja Halldórsdóttir sem staðið hefur sem klettur í ólgusjó á bak við eiginmann sinn. Þau eiga 4 börn og 7 barnabörn. 12 barnabarnabörn,“ sagði Einar og bætti við:

„Haraldur Benediktsson,

Fyrir hönd Sjómannadags Hafnarfjarðar vil ég þakka þér fyrir,

og er okkur mikill heiður að fá að veita þér viðurkenningu fyrir þín áratuga störf til sjós.

Ég óska þér allra heilla og farsældar um ókomin ár.“

 

Kristján Dýrfjörð

„Kristján Dýrfjörð fæddist á Siglufirði 10. febrúar 1948. Foreldrar hans voru Hólm Dýrfjörð, vélgæslumaður/rafvirki í Hafnarfirði, og Sigurrós Sigmundsdóttir, húsmóðir. Á 15. aldursári hóf Kristján sjómennskuferilinn árið 1963 á nýsköpunartogaranum Hafliði SI-002, sem áður hét Garðar Þorsteinsson GK 3. Skipið var 1.000 hestafla með 3 þennslu gufuvél og þá gert út af Útgerðarfélaginu Hrímfaxa og Sviða h/f í Hafnarfirði.

  • Kristján lauk námi frá Vélskóla Íslands árið 1969 og hóf störf sem vélstjóri á Þóri GK árið 1968.
  • Hann var að mestu vélstjóri á skipum og bátum frá Reykjavík á tímabilinu 1969–1973, frá Þorlákshöfn 1976–1979 og í Hornafirði 1979–1982.
  • Árið 1983 bætti Kristján við sig námi í Vélskólanum og varð vélstjóri á 90 tonna trollbátnum Þresti HF 51 frá 1982 til 1992. Hann var einnig vélstjóri á öllum þremur Lómum HF-177, sem gerðir voru út frá Hafnarfirði á tímabilinu 1992–1997.

Kristján fylgdi  kaupunum á Arney KE 050 þegar hún var seld á  Hornarfjörð upp úr aldamótunum og var þar um tíma. Hann lauk sjómannaferli sínum á beitningavélabátnum Halli Eggerts ÍS-197 árið 2007 eftir 44 farsæl ár til sjós. Kristján hefur samviskusamlega séð til þess í gegnum tíðina, að allir siglingartímar hans hafi verið skráðir löglega í sjóferðarbækur, og heildarfjöldinn er 9.422 lögskráningardaga á 35 skipum og bátum. Barnsmóðir Kristjáns var Sigríður Sigurðardóttir, en hún lést árið 1989. Kristján á einn son og þrjú barnabörn,“ sagði Einar og óskaði honum svo til hamingju með þessum orðum:

 

„Kristján Dýrfjörð,

Fyrir hönd Sjómannadags Hafnarfjarðar vil ég þakka þér fyrir,

og er okkur mikill heiður að fá að veita þér viðurkenningu fyrir þín áratuga störf til sjós.

Ég óska þér allra heilla og farsældar um ókomin ár.“

 

Lúðvík Geirsson

Eins og segir á vef Alþingis er Lúðvík Geirsson fæddur í Reykjavík 21. apríl 1959. Foreldrar: Geir Gunnarsson (fæddur 12. apríl 1930, dáinn 5. apríl 2008) alþingsmaður og vararíkissáttasemjari og Ásta Lúðvíksdóttir (fædd 9. apríl 1930, dáin 29. júlí 2012) framhaldsskólakennari. Maki hans er Hanna Björk Lárusdóttir (fædd 2. nóvember 1959) fyrrum bankastarfsmaður og nú húsmóðir.

  • Lúðvík hefur sveinspróf í bakaraiðn 1978. Stúdentspróf Flensborgarskóla 1978. BA-próf í íslensku og bókmenntum HÍ 1984.
  • Blaðamaður, kennari, ritstörf, bæjarfulltrúi, ráðgjafi ásamt fjölda ábyrgðastarfa, bæjarstjóri Hafnarfjarðar og Alþingismaður Suðvesturkjördæmis 2011–2013.
  • Hann hefur verið Hafnarstjóri frá árinu 2016.

Á Sjómannadaginn sagði Einar: „Sjómannadagurinn í Hafnarfirði væri ekki svipur hjá sjón nema fyrir öflugt samstarf við Hafnarfjarðarhöfn um langt árabil. Höfnin hefur skipulagt undirbúning hátíðarinnar með sjómannadagsráði og boðið bæjarbúum í skemmtisiglingu um fjörðinn. Þá hefur hafnarstjóri aðstoðað við heiðrun sjóanna í fjöldamörg ár,“ sagði hann.

„Sjómannadagsráð þakkar Lúðvík Geirssyni hafarstjóra, og hans fólki,

fyrir gott samstarf og aðstoð í gegnum tíðina og veita honum heiðursviðurkenningu.“

Hafnarfjarðarbær óskar þeim þremur innilega til hamingju.

 

Ábendingagátt