Kvartmíluklúbburinn 50 ára – Semja við Hafnarfjarðarbæ

Fréttir

Kvartmíluklúbburinn fagnaði 50 ára afmæli í gær. Hafnarfjarðarbær ritaði undir samstarfssamning á afmælishátíðinni og flytur Mótorhúsið til klúbbsins.

Fimmtugur Kvartmíluklúbbur

Kvartmíluklúbburinn fagnaði 50 ára afmæli í gær í aðstöðu sinni við Kvartmílubraut 1 í Hafnarfirði. Glæsileg dagskrá var hjá þeim um helgina í tilefni tímamótanna. Þrír voru heiðraðir sérstaklega:

  • Sigurjón Andersen
    • Fyrir að hafa setið í stjórn klúbbsins í hátt í fjörutíu ár og verið stoð og stytta klúbbsins.
  • Jóhann A. Kristjánsson
    • Einn af stofnendum klúbbsins sem hefur haldið utan um öll gögn og myndað í ógrynni ára
  • Valur Vífilsson
    • Fyrir að hafa verið á brautinni allar götur og verið sleitulaust viðriðinn starfið. Valur setti síðast brautarmet á laugardag.

Minntust Hrafns Breiðfjörðs

Hjartnæm stund var þegar faðir Hrafns Breiðfjörðs Ell­erts­sonar, sem lést í vélhjólaslysi í Heiðmörk í fyrra, færði félaginu hálfa milljón króna á fimmtíu ára afmælisfögnuðinum. Fjárhæðin var til minningar um soninn. Faðir hans Ellert Alexandersson sagði þá einnig frá því að frá andláti sonar hans hefðu félagar sonarins lokið við breytingar á Ford Mustang bifreið Hrafns, sem hann hafði hafið. Bílinn stóð stórglæsilegur á hátíðarsvæðinu. Fjölmargir hafa komið að verkefninu í minningu um Hrafn.

Ingólfur Arnarson, formaður klúbbsins, fagnaði góðum afmælisdegi. „Já, dagurinn var flottur. Margt fólk, flott veður. Menn sem hafa fylgst með í áratugi mættu og ótrúlegt að klúbburinn sé orðinn 50 ára. Aðstaðan er góð hjá okkur. Daginn áður var keppni og þá mættu 500 manns. Það er líf í klúbbnum og meira í boði en að sparka bolta og elta golfkúlu.“

Stór afmælisdagur

Valdimar Víðisson bæjarstjóri flutti ávarp á hátíðinni og óskaði klúbbnum til hamingju:

„Fimmtíu ár af bensínbornum draumum, spyrnukeppnum, samkomum, keppni, kaffi, bremsudiskum, fundum og framtíðarsýn. Þetta er stór afmælisdagur og þetta er líka stór dagur fyrir Hafnarfjörð,“ sagði hann og benti á að Kvartmíluklúbburinn hefur verið burðarás í íslensku akstursíþróttalífi frá því hann var stofnaður árið 1975.

„Frá fyrstu dögum hefur þetta verið heimili þeirra sem deila ást á mótorsporti  hvort sem það er drift, spyrnur, motocross, custom smíði, eða einfaldlega að skrúfa, prófa og læra. Og það er ekki bara keppnin sem skiptir máli heldur líka sú samfélagslegu og menningarlegu tenging sem myndast í kringum þetta sport. Þarna eru jafningjar, fólk með sameiginlegan áhuga sem byggir upp og styður hvert annað, kynnist, lærir og vex saman,“ sagði hann.

Hann benti á að starf klúbbsins hafi gegnt mikilvægu hlutverki, ekki bara fyrir áhugafólk um hraða og tækni  heldur líka fyrir samfélagið í heild. „Hér hafa ungmenni fengið að læra aga og ábyrgð, kynnast öryggi í umferð, tileinka sér jákvæð gildi og setja markmið sem þau vinna að. Það er ekkert sjálfsagt að ungt fólk velji að eyða tíma sínum í skúr með höndunum í vélum, en það gerist þegar það fær tækifæri, stuðning og viðurkenningu. Og það er einmitt það sem Kvartmíluklúbburinn hefur gert.“

Mótorhúsið til klúbbsins

Einmitt með þetta að leiðarljósi skrifuðu þeir Ingólfur og Valdimar fyrir hönd Hafnarfjarðarbæjar undir samstarfssamning um flutning Mótorhússins til Kvartmíluklúbbsins. Samningurinn tryggir rekstur Mótorhússins til framtíðar en það var hluti Músík og mótor. „Við það eflist sú starfsemi til muna,“ segir Valdimar. Undir það tekur Ingólfur.

„Við teljum það raunverulega betri vettvang fyrir þá sem hafa áhuga á hjólum og bílum,“ segir hann. „Þá eru þeir sem hafa áhuga á vélum komnir í umhverfið sem þetta snýst um. Hér má gera allt mest og best. Þetta er góður vettvangur fyrir krakka að komast í félagsstarf. Við sjáum fyrir okkur að þau geta komið til starfa í móta- og æfingahaldi. Þetta gefi meiri félagsþroska og þeim tækifæri til að vinna með tækjabúnað sem við eigum. Þetta er gott fyrir krakkana og uppbyggingu starfsins, fá inn nýtt blóð og ungt fólk,“ segir Ingólfur.

Hjartanlega til hamingju með 50 árin.

Ábendingagátt